13.11.1935
Neðri deild: 72. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Það er ekki gott að svara hv. þm., því að þegar búið er að svara einu, þá kemur hann alltaf með eitthvað nýtt. Það nýjasta hjá hv. þm. er að greiða fyrir viðskiptum við Þýzkaland, svo að lagt sé að leysa andvirði útfluttra vara, þannig að vörurnar séu greiddar í frjálsri mynt. Þetta eru nú sannkölluð öfugmæli. Dettur nokkrum í hug, að það geri það auðveldara að ná mörkunum inn, að borga töluvert af innflutningnum frá Þýzkalandi með „valutu“. Það yrði auðvitað til þess að draga úr útflutningnum, svo að hann yrði minni en ella. Í þessum viðskiptum hefir það sýnt sig, að það hefir verið komið fram í aprílmánuð, þegar hægt hefir verið að leysa út andvirði íslenzkra vara, og sumir togarar hafa orðið að bíða til þess tíma til þess að fá vöru sína greidda.

Ef hv. þm. hefir ekki annað en þetta að leggja til þessara mála, þá vil ég mælast til þess, að hann hlífi hv. þm. og öðrum áheyrendum við því að hlusta á sig.

Hv. þm. sagði, að það vantaði útflutning til Þýzkalands. Eins og hv. þm. viti ekki, að það hefir staðið þar inni innstæða frá okkur, af því að það hefir vantað vörur, sem við gætum keypt frá Þýzkalandi. (PHalld: En það hefir verið neitað um innflutningsleyfi frá Þýzkalandi). Já, ég veit það, en það er vegna þess, að við höfum ekki efni á að kaupa þaðan aðrar vörur en þær, sem okkur eru nauðsynlegar. (PO: Er tóbak og áfengi nauðsynjavara?). Það hefir verið ákveðið með þjóðaratkvæði, að áfengið skyldi flutt inn í landið, og verður innflutningurinn því að vera eftir því, sem eftirspurnin er.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð mín fleiri, en ég býst við. að hv. þm. komi með nýtt atriði, ef hann tekur aftur til máls.