28.10.1935
Efri deild: 54. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

7. mál, eftirlit með matvælum

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Það er ekki þörf á langri framsögu, því að n. er sammála um að samþ. frv. með örlitlum breyt., sem ég sé ekki ástæðu til að fara í gegnum, því að þær eru svo litlar og auðsæjar að undantekinni brtt. við fyrirsögn frv. Frv. er nú nefnt frv. til I. um varnir gegn vörusvikum, en n. leggur til, að frv. sé nefnt „frv. til l. um eftirlit með vörum“. N. fannst það ná betur innihaldi frv., því að frv. nær til svo margra tegunda á vörum og þannig lagaðra galla, að ekki væri alltaf hægt að tala um svik í því sambandi. T. d. ef seld eru leikföng, sem sjáanleg hætta er fyrir börn að leika sér að, þá er ekki hægt að kalla það svik að hafa slíka vöru á boðstólum, þegar allir geta séð, hvernig hún er.

Það varð annars nokkur ágreiningur í n. um það, hversu langt ætti að ganga í þessu eftirliti. Það varð þó ofan á að samþ. það, sem stungið er upp á í frv., sem sé að allar þær vörur geti verið háðar þessu eftirliti, sem falla undir ákvæði 1. gr., og 2. og 3. gr. skilgreina svo nánar. hvað hún inniheldur.

Ég geri ráð fyrir, að þetta frv. sæti ekki neinum andmælum hér, og sé ég því ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum, en ég vil þó taka það fram, að ég hygg, að það hafi verið samhljóða álit allra nm., að frv. ætti að framkvæmast með varkárni og ekki að demba á ríkissjóð mjög miklu eftirlitsbákni, a. m. k. ekki fyrst um sinn. Ég fyrir mitt leyti er ekki heldur hræddur um, að það verði gert, og get þess vegna gengið inn n að samþ. frv. eins og það liggur fyrir með þessum litlu breyt., sem n. hefir borið hér fram.