16.12.1935
Neðri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

7. mál, eftirlit með matvælum

Jakob Möller [óyfir.]:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 837 við þetta frv. Tilgangurinn með þeim er í raun og veru engan veginn sá, að gera neitt erfiðara fyrir um framkvæmdalaganna. Um frv. er í sjálfu sér fullkomið samkomulag á milli allra flokka, en það er aðeins fyrirkomulagsatriði, sem hér er farið fram á að breyta, og er það gert samkv. ósk frá verzlunarmönnum. nefnd, sem kom frá verzlunarþinginu á fund allshn., þegar hún hafði þetta mál til meðferðar. Var farið fram á af þeirri n., að gerðar yrðu nokkrar breyt. á frv., sem nú eru sumpart komnar inn í frv. samkv. till. allshn. og samþ. voru við 2. umr. En allshn. öll hefir ekki allskostar orðið sammála um að taka upp þessar brtt. á þskj. 337. Þó hygg ég, að í raun og veru séu allir nm. nokkurn veginn sammála um, að sama tilganginum verði fullkomlega náð, þó að þær brtt. yrðu samþ.

Fyrsta brtt. er við 7. gr. og varðar fyrirkomulag á framkvæmd eftirlitsins. eins og hv. þm. sjá. Þar er lagt til, að niðurlagi 2. málsgr. 7. gr., frá orðunum „gefi allar upplýsingar“, verði breytt eins og segir á þskj. 837. Breytingin er í því fólgin, að það er skotið þarna inn að gefa allar upplýsingar „eftir því sem þörf krefur vegna eftirlitsins“. Það má í raun og veru segja, að þetta felist í orðalagi gr., en það er aðeins öðruvísi orðað, þar sem segir síðar, að það skuli gefnar allar slíkar upplýsingar, sem starf þeirra varðar, og öðrum þess háttar orðatiltækjum. En ég valdi þetta orðatiltæki, „eftir því sem þörf krefur“, aðeins vegna eftirlitsins, af því að mér finnst það skýrara. Það er auðvitað ekki tilgangurinn, að eftirlitsmenn eigi heimtingu á öðrum upplýsingum en þeir þurfa að fá vegna síns starfs.

Svo er unnað, að í frv. er krafizt þess, að þeir hafi aðgang að öllum verzlunarbókum. Þetta virðist í raun og veru vera á misskilningi byggt, því að það eru ekki verzlunarbækurnar, sem gefa þær upplýsingar, sem mestu varða í þessu efni. Það eru innkaupsreikningarnir yfir vörurnar, sem eftirlitsmennirnir eiga að afla sér upplýsinga um og sannreyna, að þeir séu eins og þeir eiga að vera.

Í raun og veru er ekki þarna um aðra breyt. að ræða, en það má gera ráð fyrir, að brtt. undir stafl. b þyki meira verð. Þess er krafizt í frv., að það megi skipa fyrir um fyrirkomulag á bókfærslu verzlana — að eftirlitsmennirnir eða þeir, sem eiga að hafa eftirlit með vörunum, geti sagt fyrir um bókfærslufyrirkomulag. Í raun og veru held ég, að enginn nefndarmanna hafi skilið, hvers vegna þessi krafa var sett inn í frv., eða hvaða tilgangur gæti verið með því. Nú er það augljóst mál, að það er ekki fyrsta krafan, sem gerð er til starfsmanna matvælaeftirlitsins, að þeir séu sérfræðingar í bókfærslu. Það getur valdið miklum óþægindum fyrir kaupsýslumenn. þegar þeir eiga að breyta um bókfærslufyrirkomulag eftir því sem aðrir aðilar kynnu að gera kröfu til, og það verður á engan hátt séð, hvað það getur varðað framkvæmd matvælaeftirlitsins. Það eru vörurnar, sem á að rannsaka fyrst og fremst, og í raun og veru eingöngu, en hvernig verzlanir haga sinni bókfærslu, skiptir eiginlega engu máli í þessu sambandi. Þetta virðist byggjast á þeim sama misskilningi eins og kemur fram í kröfunni um, að eftirlitsmennirnir hafi aðgang að verzlunarbókunum. Það er eins og meginupplýsingarnar fáist í þeim, en það eru allt önnur skjöl, sem þar koma til greina.

Annars eru svo ströng fyrirmæli um, að kaupsýslumenn skuli greiða fyrir þessu eftirliti og láta í té allar nauðsynlegar upplýsingar, að það virðist að bera í bakkafullan lækinn að bæta svo þar ofan á þessari kröfu.

Í öðru lagi er svo felld niður úr þessari gr. síðasta málsgr., þar sem gert er ráð fyrir því, að kostnaðurinn við eftirlitið verði greiddur með sérstöku gjaldi, sem lagt verður á einstakar vörutegundir. Þar hefi ég sett í staðinn, að kostnaðurinn skuli greiðast úr ríkissjóði, og það er samkv. till. n. frá verzlunarþinginu. En það er farið fram á það, að ríkissjóði verði bættur upp þessi kostnaður með sérstöku gjaldi. Ég kynni betur við, að kostnaðurinn yrði greiddur úr ríkissjóði, því að það eru óþægindi að vera að leggja sérstök gjöld á hinar og aðrar vörutegundir. Eftirlitið með þessum vörutegundum varðar almannaheill, og því er eðlilegt, að kostnaðurinn við það sé tekinn af almannafé. — úr ríkissjóði —, eins og allur nauðsynlegur kostnaður við opinbera starfrækslu. Þess vegna er ástæðulaust að gera greinarmun á þessum kostnaði og öðrum. Hinsvegar hefi ég sett undir stafl. c einskonar varatill., ef menn geta ekki fallizt á hina, þannig að þar er ákveðið, að þessi kostnaður verði bættur ríkissjóði með sérstöku gjaldi. Þessi liður getur komið undir atkvgr. sérstaklega og felst ekki í atkvgr. um sjálfa gr. eða þessa síðustu málsgr. Það er því óhætt fyrir hv. þm.samþ. a- og b-lið brtt.; þá eiga þeir eftir sem áður kost á að setja inn í frv., að kostnaðurinn skuli greiddur með sérstöku gjaldi, aðeins er munurinn sá, að þar sem í frv. er gert ráð fyrir, að þetta gjald sé miðað við þunga vörunnar, þá er í till. minni lagt til, að gjaldið miðist við verðmæti vörunnar. Ef á að leggja slíkt gjald á vöru, er eðlilegast og í raun og veru sanngjarnast, að það miðist við verðmæti hennar, annars getur það orðið á ódýrari vörum tiltölulega of mikill hluti af verði vörunnar. Þess vegna er eðlilegt og sanngjarnt, að gjaldinu sé jafnað niður á allar vörur, sem undir eftirlitið heyra, eftir verðmæti þeirra. Það varðar líka að sjálfsögðu tiltölulega meiru um að eftirlit sé betra með dýrari vörum, að þær séu ekki sviknar. Þess vegna er sanngjarnt, að kostnaðurinn komi meira niður á dýrari vörunum en þeim ódýrari.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þessar brtt. Í þeim felst ekki neinn ágreiningur um efni málsins eða framkvæmd, heldur er aðeins um fyrirkomulagsatriði að ræða.