16.12.1935
Neðri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

7. mál, eftirlit með matvælum

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Það er viðvíkjandi þessum brtt. hv. 3. þm. Reykv., sem ég vildi segja nokkur orð. viðvíkjandi fyrstu brtt. vil ég aðeins segja það, að ég hefi að vísu ekki mikið við hana að athuga og hefi ekki sérstaka ástæðu til þess að leggjast á móti henni, en ég efast samt um, að hún geti orðið til nokkurs góðs. Hv. 3. þm. Reykv. heldur því fram, að það sé nægilegt fyrir eftirlitsmennina að hafa aðgang að innkaupsreikningunum og öðrum skjölum viðvíkjandi þeim. Það getur vel verið, að það sé rétt. Auðvitað er það venjulega svo, að það þarf ekki annað en þetta, en ég get hugsað mér þau tilfelli, að eftirlitsmennirnir vilji sannprófa, að reikningarnir séu réttir, að þá sé betra að hafa aðgang að verzlunarbókunum. En ég leggst ekki á móti þessari brtt.

Aftur á móti er ég mótfallinn b-lið brtt. á þskj. 837. N. varð ekki sammála um þetta atriði. Okkur í meiri hl. fannst réttara, að kostnaðurinn við þetta eftirlit væri greiddur eins og hver önnur vöruskoðun. Þetta er ekki aðeins vegna öryggis almennings, heldur líka gert fyrir þá, sem hlut eiga að máli og kemur illa, að þessar kröfur séu settur óaðgengilegar, og einnig af þeim ástæðum er gjaldið miðað við magn, en ekki við verðmæti vörunnar. Þetta er í samræmi við aðra vöruskoðun, t. d. á fiski, að eftirlitið sé borgað af þeim mönnum, sem vörurnar eiga.

Ég vil því mælast til, að síðari till. séu felldar, en frv. samþ. óbreytt.