12.10.1935
Sameinað þing: 14. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

Kæra um kjörgengi

Sigurður Einarsson:

Sem landsk. þm. vil ég ekki leiða þetta mál hjá mér með öllu, þar sem mér finnst það skipta allmiklu milli um afstöðu til landsk. þm. í framtíðinni. — Mér finnst, að hér sé um 3 atriði að ræða. Í fyrsta lagi, hvort líta beri á hv. 2. landsk. sem verandi í Bændafl. eða ekki. Hér liggur fyrir bréf frá honum til flokksins; ég hefi séð það og lesið, og þar stendur aðeins, að hann segi slitið samvinnu við flokkinn. Slíkt er tæplega hægt að skilja sem úrsögn, og ég efast ekki um, að ef til dómstóla vari farið, mundu þeir líta svo á, að úrsögn og samvinnuslit séu sitt hvað, því að samvinnuslit um óákveðinn tíma er alls ekki sama sem úrsögn. Ég vil leyfa mér að taka hér dæmi og benda á, sem er algerlega hliðstætt og varpar nokkru ljósi yfir þetta mál. Það hefir ekki komið til orða, eða réttara sagt ekki til framkvæmda, að Ítalía segði sig úr þjóðabandalaginu, og ekki hefir hún heldur verið rekin. En um samvinnu milli þessara aðilja er alls ekki að ræða; þannig hafa aðstæður breytzt milli þessara aðilja, og nákvæmlega sama getur komið fyrir annarsstaðar, enda stendur hér líkt á. Aðstæður hafa breytzt svo, að hv. 2. landsk. telur sig ekki geta unnið með samflokksmönnum sínum á þingi, enda þótt hann sé enn í flokknum.

Kæra eða krafa Bændafl. er því ekki byggt á réttum grundvelli, þó að það skuli játað, að hún kunni að vera eðlileg í augum hv. samflokksmanna þessa landsk. þm. hér á Alþingi, þar sem samvinna þeirra er ekki eins æskileg og ákjósanlegt væri vegna hv. þm. V.-Húnv. og hv. 10. landsk. En þó þessi samvinna flokksbræðranna sé ekki eins náin og eðlilegt má telja, að þeir vilji vera láta, þá leiðir engan veginn af því, að hv. 2. landsk. eigi að víkja af þingi.

Annað atriði er það, að jafnvel þó hv. 2. landsk. tilheyrði ekki lengur sínum flokki, eru þá nokkur lög til, sem meina honum þingsetu? Ég verð að segja það, eftir að hafa hlustað á ræður hv. andstæðinga í þessu máli, að ég hefi ekki heyrt þá í neinu hagga rökum þeim, sem fram hafa komið í ræðum hv. frsm. meiri hl. kjörbrn. og hv. 6. landsk. Við skulum hugsa um þetta í fullri alvöru, hvort við eigum að halda því til þrautar, að hér í hv. þingi eigi að vera tvær eða fleiri tegundir þingmanna með mismunandi réttindum. Þegar kosningar fara fram, verður hver frambjóðandi að segja, hvort hann er flokksmaður eða ekki. Auk þess verða nokkrir menn að taka ábyrgð á því með honum, að hann segi satt og ætli að vinna í samræmi við yfirlýsingu sína. En það er ómögulegt fyrir nokkurn flokk, eins og nú er frá þessu atriði gengið, að tryggja sér það til hlítar, að hann gjaldi engin afhroð á kjörtímabilinu. Kjördæmakosinn þingm. getur gengið úr flokki sínum án þess að hlutaðeigandi þingflokkur fái rönd við reist, geti komið fram hefndum og rétt hluta sinn á þinginu, svo að þingmannatalan verði í hlutfalli við atkvæðamagnið. M. ö. o., sú áhætta, að flokkur missi trúnað síns þingmanns, er jafnmikil, hvort sem um kjördæmakosinn eða landsk. þm. er að ræða. Um þetta verður ekki deilt. Segjum, að kjördæmakosinn þm. gangi úr einum flokki í annan, sem ætti samkv. atkvæðamagni sínu rétt á fleiri uppbótarþingsætum en hann hlaut, en fékk ekki, vegna þess að búið var að skipta uppbótarsætunum og ekki voru fleiri til. Ef flokkur hans hefir lága atkvæðatölu bak við sinn þm., þá er þessi tilfærsla orðin til þess að laga hlutfallið milli þingmannatölunnar og atkvæðatölu flokkanna. En þetta getur líka orðið til þess að rugla það. Stjskr. gerir engar rátstafanir til þess að þetta geti ekki komið fyrir. Mörg atriði hafa dregizt inn í þessar umr., eins og t. d. þegar hv. þm. V.-Sk. gerir það að einni meginuppistöðu ræðu sinnar, hvílíkri flokkskúgun sé beitt í Framsfl. og Alþfl., en sjálfur telst hann, að sjálfs sín dómi, vera í þeim flokki, þar sem sannfæring og skoðanafrelsi eigi mjög upp á pallborðið. Ef þingið er skipað mönnum, sem hafa einhvern „húmoristiskan sans“, eða heilbrigða gamansemi, til að bera, þá sjá allir, hvað þetta er skoplegt og afkáralegt, að þeir menn skuli segja slíkt, sem koma hér fram í nafni þeirra manna, sem ekki geta þolað, að landsk. þm. hafi sannfæringarrétt. Það virtist vera ríkjandi skoðun í Sjálfstfl., að landsk.þm. séu nokkurskonar þrælar flokkstj. það hefir ekki fyrr komið jafngreinilega í ljós, að þetta er ekki eingöngu takmarkað við landsk. þm., eins og þessi hv. þm. vill vera láta, heldur á það ekki síður við um marga kjördæmakosna þm. Sjálfstfl. Það vita allir, hversu mikið samvizkufrelsi er í þessum afturhaldssamasta flokki landsins, þegar burgeisarnir, sem eiga flokkinn, segja fyrir verkum. En þó við skattyrtumst um hið skoðanalega þrælahald í Sjálfstfl., þá er það engin lausn á máli því, sem hér liggur fyrir. Við, sem teljum, að ómögulegt sé að líta öðruvísi á en að hv. 2. landsk. sé enn í Bændafl., teljum einnig, að kæra þess flokks sé ekki á neinum rökum reist. Fyrir þá, sem aftur á móti eru í vafa um þetta, verður uppi á teningnum spurningin um framkvæmanleik þeirra ráðstafana, að hv. 2. landsk. verði látinn víkja af þingi. Eftir því, sem ákvæði stjskr. taka fram, er ekki hægt að koma þessu við. Ef svo væri, þá væri gengið inn á háskalega braut, því að það er vitanlega ekki meining löggjafarinnar, að viss hópur þm. sé skor lægra settur en annar hvað réttindi snertir, heldur er meiningin vitanlega sú, að á þingi sitji jafnréttháir menn, hvort sem þeir kallast landskjörnir eða kjördæmakosnir. Svo er í rauninni enginn maður á þingi, sem ekki er kjördæmakosinn, þótt svo vilji til, að hann sé kallaður landskjörinn þingmaður. Þeir, sem hafa kosið okkur, sem nefndir erum landsk. þm., koma til okkar á sama hátt og kjósendur leita til kjördæmakosinna þingmanna sinna. Sá flokkur manna, sem að baki okkar stendur, lítur á okkur sem sína þingmenn og krefst þess af okkur, að við höfum gát á málefnum þeirra. Þetta er líka sjálfsagt. Eðlismunur er því enginn á landskjörnum og kjördæmakjörnum þingmanni. Ég er sannfærður um, að ef ekki stæði svo á, að tveir flokkar í þinginu teldu sig þurfa að ná sér niðri á tilteknum þingum„ þá hefði þessi krafa aldrei komið fram. Enda þótt vitnað sé í 133. gr. kosningalaganna um, að svo kunni að fara, að maður, sem hlotið hefir kjörbréf, missi það aftur, þá verður það aldrei nógu greinilega tekið fram, að þá stendur svo á, að kosning fer fram aftur, áður en þingið, sem almennar kosningar áttu að skapa, kemur saman. Þessi leiðrétting fer fram áður en búið er að taka kjörbréf þessara landskjörnu og kjördæmakjörnu þingmanna gild. Annars er ég viss um, að enginn landsk. þ m. unir við það, að slegið sé föstum eðlismun eða tegundar á landskjörnum og kjördæmakosnum þingmönnum, a. m. k. ekki aðrir en þeir, sem eru raunverulega atkvæðafénaður og þý í sínum flokki, þó það hafi ekki komið beinlínis fram áður en þeir fá nú tækifæri til þess að undirstrika það með atkv. sínu hér á þingi, hvort þeir líta svo á sig eða ekki.