15.02.1935
Neðri deild: 2. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

8. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfir.]:

Eins og hv. þm. kannast við, voru samþ. á síðasta þingi heimildarlög fyrir stj., sem fólu í sér, að hún mætti taka 71/2 millj. kr. að láni og greiða með þeirri upphæð eldri skuldir. Eins og getið er um í grg. þessa frv., hefir komið í ljós, að Útvegsbanki Íslands þarf að afla sér fjár til þess að greiða 150 þús. £ lán, sem hann skuldar Hambrosbanka. Það hefir verið nokkuð athugað sérstaklega, hvernig aðstaða bankans væri til þess að afla sér þessa fjár með lántöku. Þykir liggja fyrir, að honum muni reynast það erfitt eða ókleift nema með því móti, að ríkið taki að sér beina milligöngu. Áður hefir bankinn tekið lán með ríkisábyrgð, en nú þykir þurfa að telja, að ríkið sjálft taki lánið og láni bankanum aftur tilsvarandi upphæð. Af þessari ástæðu er hér farið fram á að hækka lánsheimildina.

Til þess að Útvegsbankinn geti fengið upphæð þessa að láni, var ekki nauðsynlegt að hafa lánsheimildir upp á 11 millj. og 750 þús. króna, eins og farið er fram á í frv. Ástæðan fyrir því, að farið er fram á svona háa lánsheimild, er sd. að stj. vildi nota tækifærið, ef lánið fengist, til þess að taka um leið lán, sem heimilt er að taka samkv. lögum um fiskimálanefnd o. fl. verði frv. þetta því samþ., er fyrst gert ráð fyrir, að greiddar verði þær eldri lausaskuldir ríkissjóðs, sem greindar voru í vetur, er hin fyrri lánsheimild var til umræðu. Í öðru lagi er og gert ráð fyrir, að Útvegsbankanum verði lánað af þessu fé 150 þús. sterlingspund. Eftirstöðvarnar, sem afgangs verða, þegar búið er að inna þessar greiðslur af hendi, er gert ráð fyrir að skoða sem hluta af láni því, sem heimilt er að taka samkv. l. um fiskimálanefnd. Í þessu sambandi vil ég taka það fram, að þetta ber að taka sem yfirlýsingu frá ríkisstj. um það, að áðurnefnda lánsheimild samkv. I. um fiskimálanefnd megi ekki nota síðar, nema að því leyti, sem heimildin fer fram úr þeirri upphæð, sem afgangs verður af þessu stóra láni, þegar búið verður að greiða hinar umræddu skuldir ríkissjóðs og skuld Útvegsbankans. Þetta vil ég láta koma skýrt fram, því að að forminu til verður lánsheimildin, sem felst í lögunum um fiskimálanefnd, óhögguð, þó að frv. þetta verði samþ. Þessi yfirlýsing ætti að nægja til þess, að ekki þyrfti beinlínis að breyta l. um fiskimálanefnd, þó að þessi leið sé farin.

Um það er ekki hægt að segja með vissu, hver afgangurinn af láninu kann að verða, því að ekki verður sagt um það nú, hve mikið kann að verða áfallið af vöxtum, þegar lán þau, sem greiðast eiga með láninu, verða greidd. Þó má gera ráð fyrir, að sú upphæð verði ekki langt frá 30 þús. sterlingspund.

Þá vil ég geta þess, að sakir þess, hve mjög þurfti að hraða þessu máli, þá hefir stj. talað við miðstjórnir flokkanna um frv., og er ekki útlit fyrir annað en að það fái greiða afgreiðslu. Að svo mjög þarf að hraða máli þessu er sakir þess, að nú standa yfir samningaumleitanir erlendis um lántöku fyrir ríkissjóð, sem virðist vera á góðum vegi. Vænti ég því að hv. dm. veiti þau afbrigði, sem þarf til að málið nái fram að ganga nú í dag.