15.02.1935
Efri deild: 2. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

8. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Eins og hæstv . forseti gat um, þá hefir Nd. fellt niður 2. gr. þessa frv. Ég vil leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvernig á því stendur, þar sem mér er kunnugt um, að Sjálfstfl. gerði það að skilyrði fyrir því, að hann greiddi fyrir þessu máli, að lántökuheimildin frá því í fyrra yrði úr gildi numin, því að það er ekki meining okkar, að stj. eigi að hafa heimild til margra millj. kr. lántöku eftir að hún er búin að taka þetta stóra lán nú. Mér þykir því óviðkunnanlegt, að þessi gr. skyldi hafa verið felld niður, og get ekki séð ástæðuna til að það var gert. Og ég sé ekki heldur betur en að margt hefði verið að geta um það í þeim texta, sem prentaður er á bréfin, samkv. hvaða 1. þetta er, vegna þeirra, sem bréfin kaupa.

Ég verð að segja, að ég varð líka undrandi, þegar ég heyrði, að þetta frv. væri fram komið og ætti að hraða í svo mjög, því að mér skildist, að þegar um þetta mál var rætt við miðstjórn Sjálfstfl., þá væri það gert vegna þess, að þeim banka, sem gegnumgengst þetta lán, þætti nægilegt að fá heimild frá miðstjórnum flokkanna, jafnvel þó að ekki væri búið að fá formlega samþ. l. um lántökuna.

Viðvíkjandi þessari 30 þús. stp. viðbót vegna fiskimálan., þá vil ég segja það, að mér finnst hún óþörf. Það getur vel verið, að þetta sé ekki óhentugt. Vitaskuld getur stj. tekið þetta lán án þess að lánsheimildin sé endurtekin í þessum l., og það er óviðkunnanlegt, að lánsheimildin sé þannig tvöfölduð, því að mér er ekki kunnugt um, að fram hafi komið frv. um að takmarka lánsheimildina.

Eins og hæstv. ráðh. sagði, þá er verið að leitast fyrir um þetta lán, og meira en að leitast fyrir um það, því að líklega er það langt komið, þar sem frv. þessu er svo mjög hraðað. Væri vel viðeigandi, ef hæstv. ráðh. léti nú fylgja grg. um það, með hvaða kjörum þetta lán mundi fást. Myndi það að sjálfsögðu ráða miklu um það, hver áhugi yrði fyrir því, að þetta lán yrði tekið. Ég vil því beina því til hæstv. ráðh., hvort hann teldi ekki rétt að gefa nú skýrslu um það, með hvaða kjörum þetta lán mundi fást.