15.02.1935
Efri deild: 2. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

8. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Mér þótti rétt, af því að ég fylgdist ekki svo vel með umr. í Nd., að knýja fram yfirlýsingu hæstv. ráðh. um þetta, en hann lýsti því yfir, að það hefði verið aðeins af gleymsku, að hann gat ekki um það í framsöguræðu sinni. Ég lét mér nægja þessa yfirlýsingu hans, því að mér dettur ekki í hug, að stj. geri sig bera að þeirri brigðmælgi, að hún gangi hér á bak orða sinna. Þessu máli ætti þá að vera tryggður framgangur, þar sem bæði Alþfl. og Framsfl. hafa lýst því yfir, að þeir muni ljá þessu frv. fylgi, og Sjálfstfl. gerði það að skilyrði fyrir fylgi sínu við það frv., sem hér liggur fyrir, að þetta afnám yrði samþ. En ég vil þá spyrjast fyrir um það, hvort með því frv. sé, þá rýrð lánsheimild sú, sem er í l. um fiskimálan., að því sem nemur þeirri upphæð, sem gengur af þessu láni til fiskimálan. Hæstv. ráðh. hefir lýst því yfir, að hann muni ekki nota heimildina fram yfir það, sem þá er eftir. En það er nú svo með þessar stjórnaryfirlýsingar, að ég veit ekki, hversu sterklega þær gilda fyrir aðrar stjórnir, sem á eftir koma, og það er alveg bersýnilegt, að á meðan þessi heimild er í l., gæti hvaða stj. sem væri notað hana út í æsar, ef hún vildi það við hafa. Ég vil því skjóta því til hæstv. ráðh., hvort hann teldi ekki rétt að bíða með þetta frv. þangað til séð verður, hvað mikið kemur inn á þetta lán, ef hann teldi það ekki brigðmælgi. (Fjmrh.: Ég yrði það). Ég teldi það réttara, að þetta væri skýrt tekið fram í l.

Ég leit svo á, þegar beðið var um álit miðstjórnanna, að það væri gert til þess, að hægt yrði að taka lánið upp á þau býti. Ég sagði þá, að ég sæi ekki ástæðu til, að Sjálfstfl. gæfi slíka yfirlýsingu, því að stjórnarflokkarnir hefðu afl til að koma málinu fram hvort sem væri. Ég man ekki betur en að því væri þá svarað, að lánveitendurnir tækju ekki tillit til minna en yfirlýsingar frá yfirgnæfandi meiri hluta þingsins, og þess vegna hafði yfirlýsingin verið beinlínis gefin, til þess að hægt væri að taka lánið upp á þau býti. En fyrst þingið er nú komið saman, þá má telja rétt, að það gefi formlega lagaheimild.