12.10.1935
Sameinað þing: 14. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2371 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

Kæra um kjörgengi

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Í þessum umr. er eitt atriði, sem mér finnst ekki hafa verið tekið nógu skýrt fram. Ég ætla aðeins að minna á þetta eina atriði, en að öðru leyti tel ég óþarft að fylla upp í þessar umr., vegna þess að þau rök, sem fyrir liggja, hafa verið skýrt fram tekin af hv. þm. Barð. Það er bersýnilegt, að þeir hv. þm., sem halda því fram, að hv. 2. landsk. eigi að fara af þingi, leggja aðaláherzluna á það, eins og greinilega kom fram í ræðu hv. þm. G.-K., að það væri sjálfsagt, að uppbótarþm. færu af þingi, ef þeir breyttu um flokk, og að það væri ekki ástæða til þess að taka þetta fram í stjskr. eða kosningalögum.

Eins og hv. þm. hafa séð, hafa umr. í dag meira og meira sveigzt inn á þann grundvöll að viðurkenna, að í kosningalögum og stjskr. eru engin ákvæði til þess að víkja hv. 2. landsk. af þingi. Sama sjónarmið kom fram í rætu hv. 1. þm. Skagf. í umr. þeim, sem farið hafa fram seinna í dag, hefir aðaláherzlan verið lögð á það, að vegna þess að í kosningalögunum væri gengið út frá því, að uppbótarþm. væri til jöfnunar milli þingflokka, þá leiddi það af hlutarins eðli, að þeir ættu að víkja burt af þingi, ef þeir skiptu um flokk. Í þessu sambandi vil ég benda hv. þm. á nokkur dæmi. Ég ætla að draga fram tvö eða þrjú dæmi til þess að sýna fram á, hvort ekki muni vera ástæða til þess að taka til greina og athugunar fleiri þingmenn en þá landskjörnu. Fyrst ætla ég að taka það dæmi, að það kæmi fyrir, að þeim uppbótarþingmanni, sem nú er eftir hjá Bændafl., Jóni í Stóradal, líkaði ekki við Stefán Stefánsson frá Fagraskógi, og hann segði sig úr flokknum; þá ætti Jón að verða þm. En setjum svo, að þeim Þorsteini Briem, hv. 10. landsk., og Jóni í Stóradal líkaði ekki við Bændafl. og notuðu það einfalda ráð að segja sig úr flokknum. Hvernig færi þá? Þá væri einn maður eftir í Bændafl. og enginn maður til uppbótar. Þá sæti Bændafl. uppi með einn einasta þm. og öll hlutföll mundu raskast. Ég ætla að taka annað dæmi. Segjum, að hv. 1. þm. Skagf. eða hv. 2. þm. Rang. eða báðir segðu sig úr Sjálfstfl. og gengju í annan flokk. Hver yrði útkoman? vitanlega sú, að Sjálfstfl. hefði þrem mönum of fátt á þinginu, miðað við atkvæðatölu flokksins við kosningar. Það mætti gera ráð fyrir, að átta menn færu úr Sjálfstfl. og að þeir væru allir kjördæmakosnir. Þá stæði Sjálfstfl. uppi með aðeins 12 þm. og sömu atkvæðatölu í sveitum landsins og átur. M. ö. o., öll þessi hlutföll myndu raskast. Þess vegna er það, að ef sérstaklega á að taka þá menn sem ekki eru kjördæmakosnir, vegna þess að andi stjskr. krefðist þess, til þess að halda jöfnuðinum, þá yrði ómögulegt að komast hjá því að taka líka þá kjördæmakosnu, því að flokkshlaup þeirra geta líka raskað jafnvæginn og hlutfalli því, sem gilt hefir við síðustu kosningar. Þannig mætti lengi halda áfram að taka dæmi. Segjum t. d., að tveir til þrír þm. fellu frá og kjósa yrði upp í þeim kjördæmum, sem þeir voru þm. fyrir, og segjum, að andstæðingar þeirra, sem síðast unnu kosninguna, ynnu sætin. Þá gerbreyttust hlutföllin, og sá flokkurinn, sem þingsætunum tapaði, hefði þrem þm. of fátt miðað við atkvæðatöluna, en sá flokkurinn, sem vann sætin, er þá búinn að fá þrjá menn fram yfir þá þm.tölu, sem honum bar, miðað við atkv.fjölda sinn við almennu kosningarnar. Það má líka bæta því við, að ef reikna á út frá því, hvort hlutföllin í þinginu séu rétt, þá er enginn vafi á því, að Bændafl. ber alls ekki með réttu þrír fulltrúar fyrir þá kjósendur, sem hann á í landinu, því að það er vitað, að Bændafl. hefir tapað atkvæðamagni frá síðustu kosningum. þess vegna væri líklega miklu réttara, að hann hefði einn fulltrúa á þingi heldur en þrjá. Þetta er þriðja dæmið því til sönnunar, að ómögulegt er, að tala þingmanna geti haldizt milli kosninga í fullu samræmi við atkvæðamagnið við síðustu kosningar, því að það er vitað, að kjósendatalan breytist stöðugt milli kosninga. Með þessari stuttu aths. vildi ég benda á það, að þau rök, sem eru næstum eingöngu færð því til sönnunar, að hv. 2. landsk. eigi að víkja af þingi, m. ö. o. Þau rök, að brottvikningin sé nauðsynleg vegna jafnaðar milli þingflokka, fá alls ekki staðizt, vegna þess að ef við göngum inn á þau gagnvart landsk. þingmönnum, þá verðum við einnig að ganga inn á þau viðvíkjandi kjördæmakosnum þm., því að þeir, ekki síður, heldur miklu fremur, raska þeim hlutföllum, sem gilt hafa frá síðustu kosningum, með því að ganga í annan flokk eða með því að mynda nýjan flokk.