12.10.1935
Sameinað þing: 14. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2373 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

Kæra um kjörgengi

Frsm. minni hl. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti. Ég mun nú ekki fjölyrða um þau atriði, sem ef til vill væri þörf á, því að ég vil gefa öðrum kost á að tala, og þeir munu margir vera, svo að ekki er líklegt, að umr. verði á enda fyrir kl. 7, ef allir tala langt mál. Ég skal þá strax byrja á því, sem hæstv. forsrh. talaði um, sem sé, að hann vildi mótmæla því, að hér gæti verið um jöfnuð að ræða til hlítar á þingmannatölu flokkanna, með því að þó haldið væri í uppbótarsætin og jöfnuð þeirra, þá kæmi annað til greina, sem ruglaði þingsetu manna, svo sem kjördæmakosnir þm. undir vissum kringumstæðum. Hann taldi, að ýmislegt gerði það að verkum, að það væri ekki hægt að tryggja þennan jöfnuð. Þetta er það sama, sem komið hefir fram hjá öðrum hv. ræðumönnum. Það er ekkert nýtt. Og það er einkennilegt, að það skuli koma fram hjá mörgum mönnum úr stjórnarflokkunum; það sýnir, í hvílíkar ógöngur menn eru komnir. Meðan á þessum umr. hefir staðið, hefir það einmitt verið þetta atriði, sem komið hefir fram bæði utan þings og innan sem rök í vöntun annara raka fyrir þá, sem nú vilja halda uppi þessu ástandi með hinn hv. fyrrv. þm., Magnús Torfason, enda þótt enginn geti mótmælt því, að hann er búinn að missa tilverurétt sinn sem þm., ef hann er farinn úr flokknum. Það er í þessum rökþrotum, sem hæstv. forsrh. fer að tala um þann rugling, sem líka geti átt sér stað um þingmannatöluna, þegar um kjördæmakosna þm. er að ræða. En gallinn á þessari röksemdaleiðslu hæstv. ráðh. er bara sá, að þetta atriði er skapað vísvitandi í lögunum á þennan hátt, verða allir að játa það, nema í algerðum skorti annara raka, og þetta átti hæstv. forsrh. að vita sem lögfræðingur. Annars þarf ekki um það að deila, að kjördæmakosningin skapar ekki jöfnuð þingmannaðölunnar, því að hún er eins og hún var, og er í raun réttri eftirlegukind frá eldri tímum. Henni var haldið, og það eru nú tvær stefnur uppi í þessu máli: sú gamla og hin nýja. Það er ekki langt síðan um þetta mál var mikið rætt og ritað, en samt sem áður virðast menn vera búnir að gleyma því, um hvað deilan snerist. Endirinn varð sá, eins og ég hefi þegar minnzt á hér á hv. þingi, að löggjöf sú, sem samin var um þetta kjördæmamál, varð miðlunarlöggjöf, þar sem því gamla var haldið lítið breyttu, en því nýja að mestu bætt inn í, en það mátti sín miklu minna. Það er öllum ljóst núna. Það eru léttvæg rök að segja, að ójöfnuður geti komið fram við það, að t. d. kjördæmakosnir flokksmenn eins flokks fari í annan flokk. Vitanlega geta þeir það; við því er enginn varnagli sleginn í stjskr.; þar er aðeins talað um hitt. En fyrst svo getur nú farið, eins og allir vita, er þá minni ástæða til þess að halda í þetta elna atriði, í þann jöfnuð og það réttlæti, sem á að vera til í þessu efni? Er rétt að loka því eina opi, sem réttlætið getur smogið inn um? Nei. Það á að halda því opnu. Það nær að vísu skammt, þetta atriði, þegar einn flokkur hefir fengið of háa þingmannaðölu hér á þingi. Við síðustu kosningar fékk Framsfl. t. d. í rauninni of mörg þingsæti, einmitt kjördæmakosin, samanborið við atkvæðamagn hans við kosningarnar. Útkoman er eins, ef flokksmenn einhvers flokks á þingi ganga í annan flokk. Hlutföllin raskast í rauninni jafnmikið á þinginu í báðum tilfellunum. Svona eru lögin gölluð. Það vita sósíalistar líka, því að þeir bentu m. a. á þetta á sínum tíma, en nú vilja þeir ekki kannast við það. Enn hefir enginn mótmælt því með neinum rökum, að samkv. skynsamlegu viti ætti uppbótarþm. að fara af þingi, þegar hann væri búinn að missa réttinn til að sitja á þingi, sem grundvallast á því, að hann sé í einhverjum þingflokki. Sumir hafa efast um, að þetta atriði sé svo skýrlega ákveðið, að lög stæðu til að halda þessu fram. Ég og fleiri menn með mér fullyrðum, að lög standa að öllu leyti til þess að fylgja þessu fram. Jafnvel þótt bein ákvæði vantaði um þetta atriði í stjskr., þá má beita anda hennar og tilgangi og óbeinum ákvæðum hennar í þessu efni og fara sömu leiðina og ná sama takmarkinu og byggt væri á beinum ákvæðum. Þegar full ástæða er til, þá ber mönnum að fara þannig að, nema því aðeins, að þeim sé hugleikið að traðka réttu máli.

Ég hefði viljað víkja nokkrum orðum að hv. 9. landsk. (SE), sem talaði hér síðast fyrir hönd sósíalista. En ég sé, að hann er fjarverandi, svo að ég mun um sinn geyma þær aths., sem ég hafði ætlað mér að gera við ræðu hans.

Hv. frsm. meiri hl. var fáorður, en þó lítt hógvær í seinni ræðu sinni og hefir sennilega fundizt, að hann hafi mælt ærið nóg í hinni fyrri. Enda höfðu verið hraktir fyrir honum lagastafir, er hann hélt þar fram, svo að hann hafði næga ástæðu til að draga inn seglin.

Hann hélt því fram, að eigi væri hægt að víkja nokkrum þm. af þingi, nema hann hefði misst kjörgengisskilyrði 28. gr. stjskr., hvernig sem hann hefði verið kosinn. Það hefir nú verið sýnt fram á, að undantekningar eru til frá þessari reglu. Þetta er að vísu rétt um hin almennu skilyrði, en auk þeirra eru til sérstök skilyrði sem gilda t. d. um dómara í hæstarétti. Hv. frsm. meiri hl. játaði líka, að sér hefði yfirsézt það atriði. Þessi sérstöku skilyrði koma líka til greina í 133. gr., þar sem svo er ákveðið, að landsk. þm. skuli víkja af þingi og annar taka sæti í hans stað, ef atkvæðamagn á bak við landsk. þm. riðlast við uppkosningu kjördæmakosins þm. Almennu skilyrðin gilda jafnt fyrir alla, en sérstöku skilyrðin geta valdið jafnmiklu um rétt til þingsetu, þar sem þau eiga við.

Hæstv. forseti var að reyna að bera blak af Alþfl. vegna þeirrar afstöðu, sem hann hefir tekið í þessu máli, þvert ofan í fyrri yfirlýsingar og loforð, og fórst það óhöndulega að vonum. Alþfl. stendur enn verr að vígi í þessu máli en Framsfl. Framsóknarmenn hafa aldrei tekið munninn eins fullan um rétt flokksvaldsins eins og Alþfl. hefir jafnan gert. Alþfl. hefir haldið fram rétti og valdi flokkanna bæði í kenningu og framkvæmd, en Framsfl. hefir hinsvegar lítt haldið slíkum kenningum á lofti, þótt flokkskúguninni hafi, eins og allir vita, verið framfylgt til hins ýtrasta í verki innan þess flokks. Hæstv. forseti var að tala um, að hann vildi ef til vill koma fram með till. til að bæta úr þeirri glompu, er hér væri á lögunum. Hann hefir ef til vill sagt þetta í gamni, en þessi ummæli sýna þó, að hann finnur með sjálfum sér, að hér er ekki allt með felldu.

Það hefir verið sýnt fram á með óhrekjandi rökum, að ekki eitt einasta ákvæði í stjskr. eða kosningal. mælir á móti því, að málið sé afgr. á þann hátt, sem minni hl. kjörbréfanefndar leggur til, en margt með. Og jafnvel þótt einhver vafi þætti leika á hinni lagalegu skyldu, er siðferðisskyldan svo augljós, að enginn hv. andstæðinga okkar hefir þorað að véfengja hana og sumir jafnvel viðurkennt hana með berum orðum. Ég vona í lengstu lög, að siðferðisskyldan verð ofan á í þessu máli, og hv. sýslumaður Árnesinga segi af sér þingmennsku sem heiðarlegur maður, jafnvel þótt hann vilji af einhverjum ástæðum ekki kannast við lagaskylduna. Það er væntanlega ekki af persónulegum ástæðum heldur eingöngu flokkslegum, að stjórnarflokkarnir leggja,nú svo mikla áherzlu á að halda sýslumanni Árnesinga á þingi. Þeir þurfa á atkv. hans en ekki persónu hans að halda, til þess að geta lifað og lafað við völd. Þess vegna er komið annað hljót í strokkinn nú en er hv. þm. S.-Þ. skrifað hina frægu grein sína í Tímann um sýslumanninn fyrir kosningarnar í fyrra. Þá var ekki brúk fyrir gamla manninn í þeim herbúðum, þótt hann sé nú vegna kaldhæði örlaganna orðinn lífakkeri stjórnarflokkanna. Því er það, að þessir flokkar reyna nú að halda honum á þingi þvert ofan í anda og tilgang og jafnvel bókstaf stjskr. og kosningalaga. Enda var því lýst yfir af hálfu forystumanna stjórnarflokkanna þegar í vor, er úrsögn Magnúsar Torfasonar úr Bændafl. varð kunn, að hann skyldi aldrei fara af þingi, hvað sem lögin segðu.