14.10.1935
Sameinað þing: 15. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2380 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

Kæra um kjörgengi

Ólafur Thors:

Ég skildi ekki samlíkinguna hjá hv. síðasta ræðumanni og veit því ekki almennilega, hvað hann átti við, en mér finnst liggja beinast við að skilja hana svo, að hinn „djarfi kafari“, sem kom upp með dýrgripinn. Þ. e. a. s. Magnús Torfason, hafi kafað til grunns hjá framsóknarmönnum og séð þar hinar ýmsu skepnur. Og hver var dýrgripurinn, sem hann kom upp með? Það var sigur Bændafl. En skepnurnar, sem hann lét kjósa sig á þing, eru þá kjósendur Framsóknar. Hv. þm. S.-Þ. hefir þó sennilega ekki ætlað að fara að bera óhróður á sína eigin flokksmenn, en það er varla hægt að skilja þessa samlíkingu öðruvísi.

Það er gaman, eftir 11/2 klst. langloku, að sjá hv. þm. komast að þeirri niðurstöðu, að MT sé uppbótarþm. guðs almáttugs, og er þá væntanlega til jafnvægis við menn eins og hann sjálfan. Að öðru leyti verð ég að leiða að mestu hjá mér hjal hv. þm. S.-Þ., því að það kom fæst málinu við. Þó get ég ekki látið undir höfuð leggjast að mótmæla því, sem eitthvað snerti málefnið í ræðu hans. Hann talaði um drengskaparleysi Sjálfstfl. að ganga ekki inn 5, að hv. 2. landsk. fengi sérstakan ræðutíma við útvarpsumr. Það er ekki þannig að skilja. ef útvarpsumr. hefðu farið fram um málið, þá hefði okkur líkað bezt, að hv. 2. landsk. hefði talað sem lengst og mest, því að við getum ekki gert ráð fyrir, að það gæti verið hættulegt þeim málstað, sem hann talar gegn. En við gátum ekki gengið inn á þetta vegna þess, að hér átti sá að fá sérréttindi, sem vafasamt var, að ætti að eiga þingsetu, og þar sem vitað var, að tveir flokkar myndu verja og tveir sækja og þannig verða jafn tími til sóknar og varnar, þá var ekki ástæða til þess að leyfa honum að tala og ganga þannig út fyrir þingsköp. Þetta skilja allir nema hv. þm. S.-Þ.

Hv. þm. S.-Þ. sagði, að það væri ranglega skilið í umræddri níðgrein hans um M.T., að þar fælust dylgjur um lyfjasölu. Það stendur beinum orðum í greininni. En í tilefni af því, að hv. þm. var með sitt venjulega karlagrobb og sagði, að þessi grein væri svo vel skrifuð, að ég gæti ekki hafa skrifað hana, þá vil ég segja það, að ég er ekki kominn á grobbsaldurinn, og víst er um það, að slíka grein gæti ég ekki hafa skrifað, hvorki hugsað hana né samið. Og því síður gæti ég farið að dingla hér framan í Magnús Torfason skottinu, eftir að hafa skrifað um hann þessa svívirðilegu niðgrein fyrir kosningarnar, þegar hann, þessi „djarfi kafari“, reyndi að fljóta inn á þing. Nei, slíka grein hefði ég ekki getað skrifað, og ég þekki engan annan en hv. þm. S.-Þ, sem ég trúi til slíks ósóma.

Hv. þm. S.-Þ. neitar því, að hann hefði haft í hótunum við hv. 2. landsk. uni að koma á einkasölu á lyfjum, því hann væri of hygginn til að halda, að slíkt hefði haft áhrif á MT. En greinin gefur þó í skyn, að þennan gamla mann hafi mátt kaupa sem hross á markaði. Hv. þm. segir í greininni, að M. T. sé gamalmenni“, „flugumaður“, „sem lokkaður hafi verið út í ósvinnu“, „aldur og hnignun einkenni hann“, og í kosningunum 1933 hafi komið fram þessi ellimerki. Hann segir, að undir eins og Jón í Stóradal vissi þetta, hafi hann farið að „ginna hann með blekkingum“ og M.-T. látið undan honum. Þetta allt stendur í greininni. Og hvað er þá líklegra en þetta „gamla flugumenni“, sem lætur „ginnast af blekkingum“, sé eðlilega veikt fyrir, þegar ræða er um kaup og sölu. Ef M. T. ætli á þing, segir hv. þm. S.-Þ. ennfremur, þá verði „heilbrigð skynsemi almennings að grípa í taumana. En ef hann vill láta kaupa sig, þá á hann að fá kross og titla“. Ég segi ekki, að hv. 2. landsk. hafi látið kaupa sig, en hv. þm. S.-Þ. vildi láta kaupa mann með krossum. En hinn „frækni kafari“ komst á þing, og nú er hann orðinn dæmalaus maður, og hann er líka búinn að fá krossinn, hann fékk hann í október 1934, strax og þingið kom saman, hann fékk krossinn og varð góða barnið. Og frv. um einkasölu á lyfjum, sem altalað var, að ætti að koma fram á þinginu, kom ekki fram. En með krossinn á brjóstinu og einkasölufrv. í vasanum kyssti hann á hönd hv. þm. S.-Þ., og svo er hann drengskaparmaður á eftir!

Ef hv. 2. landsk. hefði verið dauður (því að þá er oft litið á ljósari hliðar hjá mönnum), þá gæti ég skilið þessa breyttu dóma um „flugumanninn“ og „gamalmennið“. En ég skil ekki, að hv. þm. S.-Þ. skuli geta haft geð í sér til þess nú, eftir að hafa skrifað um M. T. jafnsvívirðilega niðgrein, að dingla hér skottinu framan í hann. Ég á ekki orð yfir slíkt. Nei, satt er það, slíka grein gæti ég ekki skrifað.

Hv. þm. sagði, að það væri hægt að líta svo á mína brtt. við dagskrártill. meiri hl., að ég hafi slegið því föstu, að ekki standi í lögum kröfur um brottvikningu hv. 2. landsk. Þetta er ekki rétt. Með till. minni vakir það fyrir mér, að um leið og ég játa, að ég véfengi ekki, að þeir menn, sem halda því fram, að í stjskr. og kosningal. skorti ákvæði þessu til fullgildingar, geri það samkv. beztu vitund, vildi ég gefa Alþfl. kost á að sýna, hvort þyngra er á metunum hjá Alþfl., tilhneigingin til að hanga við völd á þingsetu M. T. eða trúnaðurinn við þá lýðræðishugsjón, sem við báðir börðumst saman fyrir. Ef trúnaðurinn við lýðræðishugsjónina er meiri, þá eiga Alþfl. þm. að greiða atkv. með minni till. því að það er misskilningur hjá form. Alþfl. hæstv. forseta, að hann og flokkur hans með því að greiða atkv. með till. minni kveði upp dóm um persónulegar tilfinningar. Mín till. á ekkert skylt við það, hvort M. T. hefir átt við þröngan kost að búa hjá Bændafl. og hafi því ekki af persónulegum ástæðum getað unað þar. Þetta kemur málinu ekkert við. Kjarni málsins er sá, að allur tilgangur kosningal. og stjórnarskrárbreytingarinnar fólst í því að gerðar yrðu ráðstafanir til, að Alþ. yrði skipað sem réttustum hlutföllum milli flokka eftir því, sem vilji kjósendanna sýndi við kosningarnar. Með þessari skipun var sköpuð ný tegund þm., uppbótarþm., sem átti að úthluta milli flokka eftir atkvæðum í hlutfalli við kjördæmakosningar þm. Nú er hv. 2. landsk. kominn á þing sem uppbótarþm. Bændafl. Af því leiðir, að hann er eingöngu réttmætur þm. meðan hann stendur í þeim flokki, en ekki öðrum. Hv. 2. landsk. er farinn úr þeim flokki; með því er jafnvæginu raskað. Þetta er augljóst mál. Og hæstv. forseti Sþ. hlýtur að samsinna það með mér, að úrskurðurinn um það, hvort hv. þm. vilja greiða atkv. með minni till. eða ekki, snertir ekkert það, hvort M. T. hefir haft ástæður til að fara úr Bændafl. eða ekki. Hann er farinn úr flokknum; það er staðreynd, og það eitt skiptir máli.

Til andsvara hæstv. forseta, er hann minntist á það, að hinn látni fyrrv. form. Sjálfstfl. hafi ekki verið ánægður með stjórnarskrárbreyt. og þótt þar skemmra gengið en hann hefði óskað, þá vil ég benda hæstv. forseta á, að það, sem á milli bar, var það, að honum þótti ekki nægilega tryggt vald flokkanna. Þetta er því óheppileg tilvitnun hjá hæstv. forseta til þessa mikilsmetna látna þm., því að hún styður einmitt minn málstað, en ekki hans.

Hæstv. forseti endaði ræðu sína á því, að hann og Alþfl. ætluðu sér að vernda stjskr., og hann sagði, að þeir hefðu barizt fyrir anda hennar með því að beita sér gegn því, að M. T. yrði vikið af þingi. Ég hygg það vera rétt, er ég segi, að ef hæstv. forseti heldur fast við, að hér skorti föst ákvæði í kosningal. og stjskr., er styðji brottvikninguna, þá gefist honum og flokki hans aðstaða til að sýna trúnað við stjskr. með því að styðja dagskrártill. mína, þar sem lagalegur réttur er látinn liggja milli hluta. En vilji þeir vernda anda laganna, sem er sá, að uppbótarþm. sé til uppbótar ákveðnum flokki, og jafnframt vernda lagabókstafinn, þá samþykki þeir fyrst brtt. mína og dagskrártill. á eftir.

Ég hefi ákveðið að orða hugsun mína ofurlítið öðru vísi en gert er í till. þeirri, er ég hefi lagt fram. Er það gert í því skyni að greiða götu hæstv. forseta og flokks hans til fylgis við hana. Tek ég till. því aftur, en legg í þess stað til að affan við orðin „að taka kæruna eigi til greina“ í dagskrártill. meiri hl. komi: „enda þótt þingið verði að telja það samkv. tilgangi uppbótarþingsætanna í hinni nýju kosningalöggjöf, að landskjörinn þm., sem skilur við flokk sinn, láti samhliða af þingmennsku.“