14.10.1935
Sameinað þing: 15. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2383 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

Kæra um kjörgengi

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Hv. þm. S.-Þ. hefir sent mér þá kurteisi að heilsa upp á mig með nokkrum orðum, enda er hann nýkominn til landsins. Ég vil því líka nota þetta tækifæri til þess að bjóða hann velkominn úr þessari frægu utanferð sinni, sem ýms orð hafa verið notuð um, jafnvel orð eins og „luksusflakk“.

Ég vil samfagna þessum hv. þm. með það ágæta starf, sem hann hefir unnið í þessari ferð sinni, og ég tel það ánægju og æru fyrir mig að hafa verið einn þeirra, er lögðu undirstöðu að því að gera þetta ferðalag ódýrara fyrir ríkissjóð. En um leið og ég samfagna þessum hv. þm. get ég ekki komizt hjá því að samhryggjast honum líka. — Allir vita, hve mikil skapraun það var þessum hv. þm. að komast ekki í ríkisstj. síðast er stjórn var mynduð; með þetta verð ég að samhryggjast honum. Ég verð líka að samhryggjast honum, að hann skyldi vera settur hjá við úthlutun annars embættis; ég verð líka að samhryggjast honum, að hann skuli hafa verið settur undir ritskoðun hjá blöðum flokks síns. Ennfremur verð ég að samhryggjast honum af því, að hann hefir verið settur út í horn í fjárveitinganefnd og annar maður tekið forystuna þar. — Það er von, þegar slíkar raunir hér að höndum, að hv. þm. S.-Þ. verði í vandræðum með það, hvað hann eigi að gera.

Honum var á síðastl. vori bent á það af einum samherja sínum, að hann skyldi hafa það sér til dundurs í ellinni að rifja upp fyrir sér og lesa í gömlum blaðagreinum um hugsjónir þær, sem hann hefði barizt fyrir, en væri nú búinn að svíkja. Hann hefir því miður ekki fylgt þessu ágæta ráði samherja síns, en er nú flúinn inn í vígi rangfærslanna, rógburðar og ósanninda og eys þaðan eðju sinni, og hann má vera óáreittur af mér í þessu vígi sínu. Það er og almennt viðurkennt, að með árásum sínum gerir þessi hv. þm. andstæðingum sínum beinlínis gagn; og þetta gagn er svo mikið, að það má ekki vanþakka. Ég vil sérstaklega þakka þetta, því að ég veit, að hann hefir veitt þeim flokki, sem ég tilheyri, mjög mikinn styrk og stuðning með árásum sínum á hann.

Ég hefi heyrt málsháttinn, að ekki megi nefna snöru í hengds manns húsi, og tel líklegt, að hann sé á rökum byggður. Ég varð því meira en lítið undrandi, þegar hv. þm. fór að nefna orð, sem í hans munni hljómuðu eins og snara í hengds manns húsi. Það var þegar hann fór að tala um drengskap, og því meira hlaut manni að bjóða við, þegar þessi hv. þm. nefndi nafn manns, sem að ágætum var hafður fyrir drengskap, en nú er nýlega dáinn.

Hv. þm. S.-Þ. brá sér líka brátt úr þessum ham, og kom með persónuleg brigzlyrði um utanþingsmann, og mátti þá segja, að hann væri kominn þangað, sem menn áttu hans von, og í þann ham, sem hann var auðþekktur í. En leiðinlegt var að hlusta á þá raunasögu, sem hann hafði af sér að segja. Alltaf var hann að telja upp dæmi um það, hvernig hann hefði verið bugaður og ofurliði borinn og það jafnvel af smávöxnum mönnum eins og t. d. Jóni í Stóradal. Um þetta kom hann með hvert dæmið á fætur öðru. Hann hefir stundum talað um okkur Jón í Stóradal sem smámenni, en þessum smámennum hefir þó tekizt að buga mikilmennið Jónas Jónsson. Mér finnst þetta svo átakanleg raunasaga og hefi svo mikla samkennd með hv. þm. S.-Þ., að ég vil ekki þylja þessa raunatölu oftar.

Það, sem hv. þm. S.-Þ. jós úr sér um utanþingmenn, var m. a. það, að viss maður hefði viss laun. Ég hygg, að laun Jóns Stóradal séu svipuð og laun þau, sem einn ákveðinn flokksbróðir hv. þm. S.-Þ. hefir fyrir aukastarf, sem mun taka hann 1/2 klst. á dag; en svo var að heyra, sem hv. þm. þættu þetta há laun, þegar hans flokksmaður átti ekki í hlut, en núv. ríkisstj. hefir ekki séð ástæðu til að breyta launum Jóns í Stóradal, og er þó liðið rúmt ár síðan hún tók við völdum.

Þá var hv. þm. S.- Þ. að drótta því að mér, að ég hefði fengið vissan þm. til þess að óhlýðnast sér. En sá þm. þurfti ekki leiðbeiningar við frá mér. Hann þekkti hv. þm. S.-Þ. vel, jafnvel betur en ég, af löngu samstarfi.

Þá var hann einnig að tala um, að engir tveir menn mundu okkur Jóni í Stóradal líkir. En ég vil segja, að enginn einn maður sé sá, sem komi til jafns við hv. þm. S.-Þ. eða sem honum sé fráleitari til að nefna drengskap.

Í öllum vaðli hv. þm. S.-Þ., sem stóð yfir hátt á aðra klst., rataðist honum þó einu sinni satt á munn. Hann sagði það réttilega, að Alþfl. og Sjálfstfl. hefðu viljað hafa raðaða landslista, svo miðstjórnir flokkanna fengju því betur ráðið, hverjir skipuðu uppbótarsætin, og hann játaði, að Tímaflokkurinn hefði verið með því að auka þetta vald flokkanna.

Þá vék þessi hv. þm. lítilsháttar að framkomu sinni gagnvart hv. sýslumanni Árnesinga fyrir kosningarnar 1934, og var að reyna að þvo sig af árásum þeim, sem hann þá hóf á þennan hv. sýslumann, — en fyrr mátti nú vera kisuþvottur. Það mætti segja langa sögu af þeirri rógsstarfssemi, sem hv. þm. S.-Þ. hóf á móti hv. sýslum. Árn. á undan prófkosningunni, en um það skal ég ekki tala langt mál að þessu sinni. Það hefir verið vel rakið hér í blaði, og hv. þm. hefir ekki séð sér fært að gera aths. við þá frásögn né hnekkja henni að nokkru.

Þá ætlaði hv. þm. S.-Þ. að telja þingheimi trú um, að okkur Bændaflokksmönnum hefði ekki dottið í hug, að hv. sýslum. Árn. kæmist að í þessu fjölmenna kjördæmi. Heldur hans þá, að hann geti talið nokkrum trú um það, að við höfum ekki lesið svo mikið í kosningalögunum, að við vitum, að fyrsta uppbótarsæti er skipað þeim manni, sem hefir hæsta atkvæðatölu, og því mestar líkur til þess, að sá, sem er í kjöri í fjölmennasta kjördæminu, verði fyrsti uppbótarþm.? Þó hann sé æfður í að rangfæra rétt mál og hagræða sannleikanum, þá fatast honum hér, og mætti því gefa honum það ráð, sem mælt er, að bóndi einn hafi gefið konu sinni: „Ef þú ferð að ljúga, þá ljúgðu laglega“.

Þá fór hv. þm. S.-Þ. að búa til róman út af því tali, sem verið hefði í Árnessýslu og Eyjafjarðarsýslu um það, hvort sá maður kæmist að sem Jónas Jónsson hefði lýst eins og hann lýsti hv. sýslum. Árn. Þeir, sem lesið hafa lýsinguna og muna eftir henni, geta því nærri, hvort þessir menn hafi staðið á öndinni af eftirvæntingu um, að sá maður kæmist að.

Hv. þm. S.-Þ. bar það fram, að á fundi, sem flokksfélag Árn. hélt á Selfossi, hafi hv. sýslum. Árn. ekki verið boðaður. Það er nú upplýst, að fyrrv. flokksstjóri, Tryggvi Þórhallsson, hafi beðið hann að koma á þennan fund. Hvort fyrstu boðin hafa misfarizt, veit ég ekki. En formaður flokksins fékk grun um, að svo hefði verið, og símaði þá til hv. sýslum. Árn. og bað hann að koma á fundinn.

Hv. þm. S.-Þ. var enn á ný að reyna að koma því að, sem hann áður hefir verið að jóðla á í blaði sínu, að hv. þm. V.-Húnv. hafi verið kosinn af íhaldsmönnum og komizt að á íhaldsatkv. En þetta er alrangt. Hv. þm. V.-Húnv. dró fjölda marga úr Sjálfstfl. og yfir í Bændafl., og má þessu til sönnunar nefna marga menn með nöfnum.

Þá er ég kominn að því atriði í ræðu hv. þm. S.-Þ., sem mig undraði mest, en það var þegar hann leyfði sér að segja það, að Bændafl. hefði ætlað að reka sinn fyrrv. form., og vitnaði í því sambandi í samtal, sem þeir hafi átt nokkru áður en fyrrv. form. flokksins, Tr. Þórh., lézt. Þetta gerir hv. þm. S.-Þ. sýnilega í því trausti, að orð hans verði ekki afsönnuð, vegna þess að þau séu höfð eftir manni, sem nú er dáinn. En ég get frætt þennan hv. þm. á því, að Tryggvi heitinn Þórhallsson sagði bæði mér og fleirum frá þessu samtali sínu við hann, og mér er því vel kunnugt um, hvað þeim fór á milli. Og það er mjög lýsandi fyrir hv. þm. S.-Þ. að síðasta erindi hans heim til Tryggva Þórhallssonar var það, að hella sér yfir hann með hótunum og brigzlyrðum.

Hv. þm. S.-Þ. sagði, að hv. sýslum. Árn. hefði verið ofsóttur af sínum flokksmönnum bæði sem þm. og embættismaður, en þetta er mjög fjarri sannleikanum, — en hann hefir verið ofsóttur af hv. þm. S.-Þ. og af hans blaði. Blað Bændafl. hefir haft mörg viðurkenningarorð um hv. sýslum. Árn., og það eftir að hann fór úr flokknum. Þessi viðurkenningarorð hefir jafnvel Nýja dagbl. og Tímanum fundizt svo mikið til um nú á seinni tímum, að þau hafa verið prentuð þar upp og vitnað í þau.

Hv. þm. S.-Þ. sagði ennfremur, að hv. sýslum. Árn. hefði lýst því yfir fyrir kosningarnar, að hann myndi fylgja þeirri sömu stefnu sem Framsfl. hefði fylgt. Það má vel vera satt, að hann hafi sagt það þá, því nú er það Bændafl., sem fylgir þeirri stefnu. Framsfl. fylgir ekki lengur þeirri stefnu, sem hann hafði áður. Hann er nú orðinn allur annar en þá var. Hann er nú genginn yfir til sambýlisflokks síns, sósíalistanna.

Ég mun nú ekki eyða fleiri orðum að því að svara hv. þm. S.-Þ., en ég kemst ekki hjá því að athuga nokkuð þau orð, sem hv. sýslum. Árn sagði. M. a. sagði hann það að hann hefði aldrei sagt sig úr Bændafl. Hér fyrir framan mig liggur staðfest afrit af plaggi því, sem hv. sýslum. sendi miðstjórn Bændafl., þar sem hann segist slíta allri samvinnu við flokkinn. Það er nú öllum ljóst, að þetta er meira en að segja sig úr flokknum, því það er hægt að segja sig úr flokki án þess að segja þar með slitið allri samvinnu við hann. Þetta hlýtur því að skoðast algerlega ótvíræð úrsögn. Þessi úrsögn er dags. 3. maí síðastl. og miðstjórn Bændafl. kvittaði fyrir rétta plagg og nefndi það úrsögn, og gerði hv. sýslum. Árn. enga aths. við það, en nú kemur hann fram með það, að þetta hafi ekki verið samvizkusamlega kvittað og nefnir þetta falskvittnn. Þessi kvittun er, að ég hygg, undirrituð af fyrrv. form. Bændafl., Tryggva heitnum Þórhallssyni, og það er mjög ómaklegt og kemur úr hörðustu átt, að hv. sýslum. Árn. bregði þessum fyrrv. samherja sínum, að honum látnum, um samvizkuleysi. Annars má í þessu sambandi vitna í fleiri orð en þau, sem standa í þessu plaggi; m. a. í orð hv. sýslum. Árn., þau sem hann sagði á fundi, er haldinn var að Selfossi seint í sama mánuði. Þar sagði hann í byrjun fundarins, að hann væri í Bændafl., en áður en fundi lauk sagðist hann verða að játa það, að hann væri genginn úr Bændafl. Viku síðar, eða þann 2. júní síðastl., sagði hann á fundi, sem haldinn var að Minni-Borg í Grímsnesi, að hann væri genginn úr Bændafl, og munu sumir þeir þm., sem nú eru hér inni, hafa heyrt það.

Þá má ennfremur vitna í Alþýðublaðið, og býst ég við, að hér inni sé allmikill hópur manna, sem trúir því, sem það segir. Þann 7. maí síðastl. segir það frá símtali, sem það hafi átt við hv. sýslum. Árn. Segist blaðið þá hafa spurt, hvort hann hefði í hyggju að ganga í annanhvorn stjórnarflokkinn, en hann sagzt mundu verða utan flokka. Hygg ég nú, að eigi þurfi fleiri vitni að leiða að því, að hv. sýslum. Árn. hafi sagt sig úr Bændafl. og sjálfur talið, að svo væri. Hitt getur hann ekki ætlazt til, að nokkur taki alvarlega, þó hann hér í ræðustóli segi þrisvar sinnum í einni ræðu: „Ég er ekki farinn úr Bændafl.“, þegar hann fjórum sinnum í sömu ræðu segir: „Ég er farinn úr Bændafl.“.

Hv. sýslum. Árn. talaði um, að það væri réttur þingmanna að fylgja sannfæringu sinni. Þetta er vissulega rétt, og sá réttur er verndaður í Stjórnarskránni, eins og vera ber. En það er merkilegt, að enginn þessara manna, sem nú tala um rétt þingmanna til að fylgja sannfæringu sinni, getur hugsað sér, að nokkur maður verði að offra nokkru fyrir sannfæringu sína. Bændafl. hefir aldrei dottið í hug að þröngva sannfæringu hv. sýslum. Árn. né annara, en þegar hv. sýslum. Árn. segir sig úr flokknum — vegna sannfæringar sinnar eða af öðrum ástæðum —, þá missir hann sín flokkslegu réttindi og þar á meðal réttinn til þingsetu.

Hitt kemur einkennilega fyrir, að menn úr Framsfl. skuli tala um rétt manna til að fylgja sannfæringu sinni. Með samþykkt um skipulagning Framsfl. hefir þessi réttur verið gerður útlægur úr þeim flokki. Flokkslög þessi hafa verið prentuð, og liggur eitt eintak þeirra hér fyrir framan mig. Er það merkilegt plagg. Þar segir svo í 24. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Ef meiri hluti miðstjórnar og meirihluti þingmanna flokksins gerir þá samþykkt um afgreiðslu máls á Alþingi, að það skuli vera flokksmál, er sú samþykkt bindandi fyrir alla þingmenn flokksins í því máli. Þegar svo stendur á, skulu varamenn taka sæti í miðstjórn í stað þingmanna, sem þar eiga sæti. Stefnuskrá flokksins er bindandi fyrir atkvæðagreiðslu allra flokksmanna í opinberum málum“. — Þetta er sannfæringarfrelsi framsóknarmanna, og er ekki að furða, þótt þeir séu hátíðlegir, þegar þeir tala um þetta frelsi, og finnist það dýrgripur, því svo langt er síðan þeir sjálfir hafa glatað þessum dýrgrip.

Hv. sýslum. Árn. talaði um ákvæði kosningalaganna og stjskr. og taldi, að þau væru öll miðuð við það eitt, hvernig þingið skyldi skipað í upphafi. En ætli honum finnist það líka gilda um kjörgengisskilyrðin, að þau séu aðeins miðuð við skipun þings í upphafi? Hann fór í þessu sambandi að tala um bændafl. í Danmörku og vitna í dönsk lög, en það er nú af sú tíð og löngu liðin, er sýslumenn hér á landi dæmdu eftir dönskum lögum, og þótt hv. sýslum. Árn. sé hniginn á efri ár, ætti honum að vera það ljóst. Það er líka hægt að leita dæma til fleiri landa en Danmerkur, og ég hygg, að ef leitað væri um þau efni til Englands, þá kæmi upp önnur regla, en hv. sýslumaður Árnesinga vill vera láta.

Hann fór að tala um stefnuskrá sína og Bændafl. og hélt því fram, að stefna Bændafl. hefði átt að vera sú, að fylgja Framsfl. En af hverju klofnaði Bændafl. frá Framsfl.? Af því að hann gat ekki fylgt Framsfl. eftir að sá flokkur hafði horfið frá sinni fyrri stefnu. Hitt er annað mál, að Bændafl. vildi og vill enn fylgja Framsfl. eins og öðrum flokkum að hverju góðu máli. Þannig er afstaða Bændafl. gagnvart öðrum flokkum. Um þetta viðhorf flokksins skrifaði Tryggvi Þórhallsson í „Framsókn“ á öndverðu ári 1934. Hann segir þar, að við munum eiga tal við alla sem líkur séu til, að vilji koma fram áhugamálum landbúnaðarins. Sú var afstaða Bændafl. í upphafi, og er enn. En hún er öðruvísi stefna sýslumannsins í Árnessýslu, eins og hann lýsti henni á laugardaginn. Hún var mjög stutt. Aðeins að vera allaf með valdhöfunum. En það hefir ekki alltaf þótt virðuleg stefnuskrá að hanga gegnum þykkt og þunnt aftan í þeim, sem völdin hafa. — Magnús Torfason lét mikið af því, að hann hafi verið líklegur sem frambjóðandi að draga að mikið fylgi til Bændafl. bæði í Árnessýslu og úti um land. En við, sem höfum aðalundirbúning kosninganna með höndum, eru þeim málum áreiðanlega kunnugri en sýslumaðurinn, sem þarna situr. Og við vissum, að Bændafl. fór á mis við nokkur atkvæði vegna þess að Magnús Torfason var frambjóðandi flokksins.

Hv. 6. landsk. var mjög hneykslaður yfir því, að ég hefði sagt, að jöfnunarsætin væru eign flokkanna. Ég minnti aðeins á, að í 124. gr. kosningalaganna er gert ráð fyrir „að úthluta allt að 11 uppbótarþingsætum til jöfnunar milli þingflokka.“ Bendir þetta á, að uppbótarsætin tilheyri flokkunum, og þeir hafi því fullan rétt til að eigna sér þau. Hinsvegar dettur mér ekki í hug að ætlast til, að menn vilji fórna sannfæringu sinni fyrir flokkinn. En flokkslög Framsfl. eru í þessu efni merkileg og sannnefnd þrælalög. Áður en framboð er ákveðið verða frambjóðendur flokksins að gefa yfirlýsingu um, að þeir beygi sig í einu og öllu undir vilja flokksins. Þetta eru virkileg handjárn, — reglulegur þrældómur. Það er því einkennilegt, að þeir, sem undir þessum þrældómslögum búa, skuli vera að bregða öðrum um, að þeir vilji hefta sannfæringarfrelsi manna.

Þá var einhver hv. þm., sem ég ekki man nr. á, eitthvað að tala um, að í raun og veru væri enginn þm. til nema kjördæmakosinn. En hvað þarf fyrsti maður á röðuðum flokkslista að fá mörg atkv. til þess að geta komizt á þing? Vill ekki þessi sami hv. þm. svara þessu? Þetta sannar einnig, að uppbótarsætin séu eign flokkanna.

Hv. þm. Barð. hefir nú fallið frá því, að ákvæði 28. gr. séu tæmandi, þegar um kjörgengisskilyrði væri að ræða. Hefir hann talað lítið um málið, og var það viturlega og hyggilega gert, enda er hann greindur maður.

Hæstv. forsrh. var að hælast um yfir því, að Bændafl. hefði tapað fylgi frá því um kosningar. Hann ætti því að sýna það hugrekki, að láta fara fram kosningar næsta vor, og „metumst heldur of val felldan“. Hæstv. forsrh. veit, að það er ekki Framsfl., heldur Bændafl., sem hefir unnið mest á. En það er ekki eingöngu Bændafl. sjálfum að þakka, heldur einnig Tímafl., og þá einkum hæstv. forsrh, sem á skilið sérstakt þakklæti fyrir hjálpina, — sem hann skal fá hér með. Enda eru það einu þakkirnar, sem bændurnir geta honum fært.