21.03.1935
Efri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

25. mál, löggilding verzlunarstaða í Hraunhöfn

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þetta litla frv. hefir allshn. athugað og leggur til, að það verði samþ., eins og um ýmsar aðrar beiðnir, sem berast allshn. og hún verður fúslega við. Um þetta hefir borizt beiðni frá hreppsnefnd Presthólahrepps, og frv. er flutt af þm. kjördæmisins. Hér er um að ræða litla vík norður á Melrakkasléttu, sem er hugsuð fyrir útgerð smærri skipa. Útræði var þarna allmikið til forna, en hefir lagzt niður. Er útgerð nú aftur í uppsiglingu þar með vélbátum eða smærri skipum, og því er beiðni þessi fram komin. Orðlengi ég svo ekki frekara, en vil mælast til, að hv. d. samþ. frv. þetta, eins og allshn. mælir með því.