14.10.1935
Sameinað þing: 15. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2393 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

Kæra um kjörgengi

Jón Auðunn Jónsson:

Það var aðeins af því, að ég greip fram í fyrir hv. þm. S.-Þ., þegar hann var að halda sína löngu ræðu, að mér ofbauð sú raunasaga af óförum hans innan flokksins og vildi koma í veg fyrir, að hann segði að lokum: „Nú er svo komið, að ég fæ engu ráðið í flokknum nema ferðalögum; á þeim hefi ég ráð ennþá“.

Um Hnífsdalsmálið er það að segja, að ég er honum þakklátur fyrir það alveg sérstaklega, að hann sem ráðh. lét rannsóknardómarann sitja í sex vikur eftir að hann taldi sig hafa fengið fullvissu um málið, til að vita, hvort ekki fyndist samband á milli mín og þeirra, sem þar voru sakfelldir. Með því var mér gerður sá stóri greiði að sanna það óvéfengjanlega, að ég hafði á engan hátt komið nærri málinu.

En í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir, þá hefir verið minnzt á „fair play“ og hefir þar sérstaklega verið vitnað til Englendinga. Þar í landi er það föst regla, nema þingflokkur klofni í tvo líka hluta, að þingmaður segi af sér, ef hann gengur úr sínum flokki. Árið 1927, í næstsíðasta skipti sem ég var staddur í Englandi, þá var ég við slíka uppkosningu í Hull. Þingm. í Middle-Hull, sem var „liberal“ hafði sagt sig úr flokki sínum og gekk yfir í „labour“. Hann sleppti því þingsætinu og því varð að kjósa upp. Þetta var þó ekki uppbótarþingm. eins og í þessu tilfelli. Það verður ekki annað álitið en að flokkurinn eigi það sæti, sem hér um ræðir, og þá ekki sízt af því hér er um uppbótarsæti þingfl. að ræða. Kjósi þm. að yfirgefa sinn flokk, og skipti um skoðun, þá á hann að taka afleiðingunum með drengskap eins og hinir brezku „fair play“ þingm. gera.