07.03.1935
Neðri deild: 22. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

42. mál, póstlög

Frsm. (Thor Thors):

Þetta frv. er flutt af allshn. og miðar að því að lækka burðargjald í pósti fyrir blöð og tímarit. Burðargjald þetta er mjög hátt, og miklu hærra en tíðkast í nágrannalöndunum. Það er flutt eftir einróma beiðni Blaðamannafélags Íslands. Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá er blaðaútgáfa hér á landi mjög óarðbær, og er þetta gjald tilfinnanlegur skattur á útgefendum þeirra. Það er miðað við það ástand í samgöngum hér á landi, sem ríkti fyrir mörgum árum síðan, þegar póstur var að mestu leyti fluttur á hestum um landið. En nú er það úrelt, þar sem póstflutningar á landi fara nú yfirleitt með bílum, og getur því ríkissjóður sætt sig við lækkun á burðargjaldinu. — Ef þessi lækkun nær fram að ganga, þá er líklegt, að hún leiði að einhverju leyti til þess, að viðskiptin aukist við póstsjóðinn. Málið er einfalt og þarfnast ekki frekari skýringa. Óska ég að frv. verði vísað til 2. umr.