14.10.1935
Sameinað þing: 15. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2394 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

Kæra um kjörgengi

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég get verið stuttorður að þessu sinni, því að ræðumenn þeir, sem hafa ætlað að andmæla mér, hafa nú gefizt upp, svo það má kalla létt verk að fást við þá.

Það er aðeins eitt atriði í ræðu hv. þm. G.-K., sem ég vildi lítillega taka til athugunar. Þessi hv. þm. talaði um það með dylgjutón í garð hv. 2. landsk., að hann hefði fengið íslenzka heiðursmerkið. Var auðheyrt, að hann vildi leggja honum það út til lasts. Mér hefði nú fundizt eðlilegast, að þessi þm. væri ekki að gera gys að heiðursmerkjum sér merkari manna. Annars held ég, að það hafi verið lítils háttar villa í ræðu hv. 2. landsk. Hann gleymdi nfl. að geta þess, að hv. þm. G.-K. fékk einu sinni heiðursmerki, en það var fyrir afskipti hans af norsku samningunum. Hafi hv. 2. landsk. átt að vera keyptur með heiðursmerki því, er hann hlaut, þá er ekki síður ástæða til að ætla, að hv. þm. G.-K. hafi verið keyptur, þó ekki væri nema frá sjónarmiði þeirra, sem halda því fram, að hann hafi beinlínis framið landráð með afskiptum sínum af norsku samningunum. Annars skal ég taka það fram, að ég fyrir mitt leyti tel hann ekki hafa framið landráð í því efni. Ennfremur vil ég geta þess, að ég átti engan þátt í því, að hv. 2. landsk. fékk þennan umrædda kross. Þvert í móti voru það flokksbræður hv. þm. G.-K. sjálfs, sem úthlutuðu honum þessu djásni, þeir Sig. Briem, Jóh. Jóhannesson og Ásgeir Siguðsson. Hafi þessi hv. þm. því óverðugur hlotið krossinn, bitnar sökin á þeim, en ekki mér eða stj., sem engan hlut átti að því. Hvað mig snertir, þá finnst mér ekkert undarlegt, eftir þeirri venju, sem verið hefir um úthlutun þessara heiðursmerkja, þó að maður, sem verið hefir sýslumaður í 40 ár og jafnan getið sér hinn bezta orðstír, hljóti viðurkenningu sem þessa. En sem sagt, það voru hinir áður töldu flokksbræður hv. þm. G.-K., en ekki ég, sem fundu það út, að sýslumaður Árnesinga ætti þetta lof skilið,.

Umr. um mál þetta eru sýnilega að fjara út. Undir þeim hefir hv. þm. G.-K. viðurkennt, að að lögum sé ekki hægt að reka hv. 2. landsk. út úr þinginu. Aðalmaður Sjálfstfl. í kjörbréfanefndinni þorði ekki heldur að leggja það til. Eins og Sjálfstfl. hefir þannig gefizt upp, hafa fleiri og færri flokksmenn þeirra utan þings viðurkennt, að ekki sé nokkur brú í árás þessari á hv. 2. landsk. Það, sem þá er eftir, er það, hvort Bændafl. haft þá mórölsku aðstöðu sakir fortíðar sinnar, að hann geti heimtað manninn rekinn út úr þinginu vegna hinnar siferðislegu hliðar málsins. Í ræðu minni áðan sannaði ég það berlega, að sá flokkur eigi allra flokka sízt að tala um móral og siðferði frá stjórnmálalegu sjónarmiði séð, þar sem t. d. aðalmaður hans. Jón frá Stóradal, kaus sjálfan sig í stjórn kreppulánasjóðs. Það er meira en nokkur framsóknarmaður hefði gert. Hann ásamt Hannesi Jónssyni neitaði að styðja frjálslynda vinstri manna stjórn undir forsæti Ásgeirs Ásgeirssonar o. fl. o. fl. Allt þetta hefir hv. 10. landsk., sem nú er formaður yfir einum manni, viðurkennt rétt. Þá er að athuga, hvernig flokksbrot þetta hefir komið fram gagnvart hv. 2. landsk. Þar er yfirlýst af honum sjálfum, að þessir flokksbræður hans hafi jafnan setið á svikráðum gagnvart honum, og að síðustu hrakið hann úr flokknum. Þegar allt er þannig í pottinn búið, er það bersýnilegt, að hv. 10. landsk. og þeir, sem honum kunna að fylgja að málum, hafa svo siðferðislega veikan málstað, að þeir geta engar kröfur gert, sem byggjast eiga á pólitísku siðferði.

Sé ég svo ekki ástæðu til að tala öllu meira um þetta mál. Uppgjöfin hjá andstæðingunum er jöfn á báðar hliðar, jafnt hina formlegu sem siðferðislegu. Þessi skollaleikur á því að fara í sömu gröfina og tilraun þessara fugla í fyrra um að rugla skipun þingdeildanna með hrekkjabrögðum.