21.03.1935
Efri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

42. mál, póstlög

Frsm. (Páll Hermannsson):

Með þessu frv. er ætlazt til, að hækkuð verði póstgjöld fyrir dagblöð frá því sem nú er. Eftir lögum þeim, sem nú gilda, er burðargjaldið nú 25 aurar pr. 1/2 kg. frá 15. apríl til 15. nóvember, en 15 aurar pr. 1/2 kg. hinn tíma ársins. En með frv. þessu er gert ráð fyrir, að gjöld þessi verði 15 aurar pr 1/2 kg. allt árið. Frv. þetta er borið fram af hv. allshn. Nd. og samþ. þar með nokkurnveginn shlj. atkv. Þar kom að vísu fram brtt. til miðlunar, sem var felld þar. Hér í d. ber hæstv. fjmrh. fram brtt. n þskj. 187, sem mun vera mjög svipuð eða eins og sú, sem felld var í hv. Nd., og geri ég ráð fyrir, að hann geri grein fyrir þeirri till. Allshn. hefir ákveðið að mæla með frv. þessu óbreyttu. Taldi hún rétt að ívilna blöðunum um burðargjaldið, eins og þar er farið fram á, og leggur til, að frv. verði samþ. Eftir að brtt. hæstv. fjmrh. kom fram, hefir verið á hana minnzt í n., en ég geri ráð fyrir, að a. m. k. meiri hl. n. mæli henni gegn. Ég skal geta þess, að þessi lagabreyt. mun hafa í för með sér tekjurýrnun fyrir ríkissjóð, er nema mun um 20 þús. kr. En að vísu má ætla, að flutningar aukist nokkuð með gjaldalækkuninni, og mundi því nokkuð af þessu fé vinnast aftur. Þá má og benda á það, að póstflutningar eru framkvæmdir á nokkuð annan og ódýrari hátt en var þegar gildandi taxti var ákveðinn. — Þarf ég svo ekki að eyða fleiri orðum að sinni um þetta mál.