23.03.1935
Efri deild: 33. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

42. mál, póstlög

Frsm. Páll Hermannsson):

Ég hefi flutt brtt. við þetta frv. (á þskj. 238), sem fjallar um það að láta frv., ef það verður að lögum, ganga síðar í gildi en gert er ráð fyrir í frv., eða ekki fyrr en um næstu áramót. Það var minnzt á þetta atriði hér í d. við 2. umr., svo að ég þarf ekki að fjölyrða um það. Mér virðist blaðaútgefendur mættu una sæmilega við, þó að breytingin, sem frv. felur í sér, kæmi ekki til framkvæmdar fyrr en í byrjun næsta árs, m. a. vegna þess, að lækkunin, sem gert er ráð fyrir á flutningatöxtum, er mikil, nemur yfir sumarið um 2/5 og á veturna um 2/3.

Náttúrlega má segja, að hér sé ekki um stóra upphæð fyrir ríkissjóð að ræða, að því er nemur flutningstöxtum þessa árs. Er ekki líklegt, að það verði meira en helmingur af því, sem verður í framkvæmdinni, þar eð svo er áliðið árið. En þó dregur dálítið um þetta, ef hv. dm. vildu fallast á brtt.