14.10.1935
Sameinað þing: 15. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2397 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

Kæra um kjörgengi

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Hv. þm. G.-K. vék því enn til Alþfl. og jafnframt að nokkru leyti til mín, hvort við mætum það meira að hanga við völd enn um nokkurt skeið heldur en trúnað okkar við lýðræðið. Þetta sýnir, að nú er þessi hv. þm. að gefast upp við að halda því fram, að hv. 2. landsk. eigi að víkja af þingi vegna ákvæða stjskr. En hv. þm. gengur framhjá stóru atriði, úr því að búið er að slá því föstu, að ekki sé hægt eftir ákvæðum stjskr. að víkja hv. 2. landsk. af þingi, en það er að meta ástæðurnar fyrir því, að þessi umræddi þingmaður gekk úr flokki sínum, — hvort það hafi verið hans sök eða flokksmanna hans. Mín tilfinning segir mér, að aðbúð Bændafl. gagnvart þessum manni hafi frá upphafi verið á þá lund, að erfitt hafi verið fyrir hann að sætta sig við hana. Ég minnist þess jafnframt, að frá því fyrsta, er ég man eftir, hefir þessi hv. þm. fylgt líkri skoðun í stjórnmálum og nú og yfirleitt fylgt málum á svipaðan hátt og nú. Aftur á móti hefir Bændafl. tekið á annan veg á málunum nú en á meðan þeir, sem hann skipa, voru í Framsfl. Þetta finnst mér að taka þurfi allt til greina, ef fara ætti þá leið og skora á manninn að víkja af þingi.

Hvað snertir trúnaðinn við lýðræðið, þá tel ég, að hann eigi m. a. að vera fólginn í því, að halda fast við stjórnarskrána, en það hefi ég þótzt sýna undir þessum umr., að við Alþfl.menn viljum gera.

Menn hafa óspart vitnað í kosningalögin þeirri skoðun sinni til stuðnings, að þm., sem líkt stendur á um og hv. 2. landsk., eigi að víkja að þingi. Aftur á móti hefir ekki af þessum mönnum verið vitnað eins til ákvæða stjskr. um þetta atriði. Mér fyrir mitt leyti finnst mjög lítill munur á ákvæðum fyrrv. stjórnarskrár og þeirrar, sem nú gildir, hvað atriði það snertir, sem hér er um deilt. Það er engin breyt. á stjskr. frá því, sem áður var, um það, að því er slegið föstu, að þegar eftir almennar kosningar úrskurðar lands kjörstjórn, hvernig þingið skuli skipað, eftir úrslitum kosninganna, og eftir það verður ekki við þingmönnunum hróflað, nema þá því aðeins, að þeir hafi tapað hinum almennu kjörgengisskilyrðum. Í þessu sambandi er alltaf vitnað í 133. gr., en það ber að sama brunni með þá gr.; hún á við það, er þing er sett á laggir þegar að afstaðinni kosningu, sbr. það, sem segir í 26. gr. stjskr., að þingmenn skuli kosnir til 4 ára. Ákvæði beggja þessara greina miðast við það, þegar þing er sett á laggirnar að afstaðinni kosningu, eins og greinilega er tekið fram í stjórnlagafræði eins af lagaprófessorum háskólans. Skilningur hans á ákvæðum stjskr. finnst mér eigi að standa óbreyttur þrátt fyrir þá breytingu á skipun Alþingis, sem varð við síðustu endurskoðun stjskr.

Hv. 3. þm. Reykv. dró inn í umr. dæmi úr bæjarstjórn Reykjavíkur, þar sem fulltrúi Alþfl. í bæjarstj. sagði sig úr flokknum og flokkurinn gerði kröfu til þess, að hann viki úr bæjarstjórninni; en hv. þm. þagði yfir því, hvort meiri hl. bæjarstj., sjálfstæðismennirnir, hefði átt nokkurn hlut í þeirri kröfu. Meiri hl. gerði enga slíka kröfu, heldur vék maðurinn úr bæjarstjórninni eftir kröfu Alþfl.

Bændafl. hefir nú farið fram á það við hv. 2. landsk., að hann víki af þingi, en mér skilst, að aðbúð flokksins við þennan hv. þm. sé öll önnur og ósambærileg við aðstöðuna milli Alþfl. og Sigurðar Jónassonar. Þegar á að meta þessar tvær aðstöður persónulega, finnst mér ég ekki geta skorað á hv. 2. landsk. að verða við kröfu Bændafl. um að leggja niður þingmennsku. (JakM: Má ég skjóta fram í?). Hv. þm. getur sjálfsagt fengið að tala á eftir mér.

Þá var hv. þm. að tala um tvær tegundir þingmanna, og sýnir ræða hans, hvernig má teygja það spursmál endalaust. Það er rétt, að þm. öðlast þingsæti á tvennan hátt, en eftir að þing er sett á laggir, hafa þm., sama rétt, — enginn settur lægra en annar. Ég álít því, að sömu ákvæði gildi enn fyrir alla þm. og gilt hafa áður um það, hvernig þeir missa þingsæti sín.

Hv. þm. G.-K. vitnaði í Jón heitinn Þorláksson og þær tillögur, sem hann hefði gert viðkomandi kosningalögunum sérstaklega. Það er að vísu rétt, að Jóni Þorlákssyni þótti um of sveigt að ákvæðum stjskr. í kosningalögunum um að, rýra áhrif flokka á skipun landskjörslista, og það er líka rétt, að ég leit eins á, að ákvæði stjskr. væru brengluð með kosningalögunum. En það er eins, þó stjskr. hefði ekki verið þannig brengluð, að í henni felast engin ákvæði, sem réttlæti það, að hv. 2. landsk. væri vikið af þingi, og því verður hver og einn að gera það upp við sínar tilfinningar, hvort gildar ástæður eru fyrir kröfu Bændafl. eða ekki.