14.10.1935
Sameinað þing: 15. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2398 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

Kæra um kjörgengi

Frsm. minni hl. (Gísli Sveinsson):

Ég tel rétt, að nú sé sagt hið síðasta orð af hálfu minni hl., sem þarf að segja í sambandi við það, sem komið hefir fram í þessum umr., því að gera má ráð fyrir, að ekkert nýtt komi fram hér eftir til andmæla okkar áliti, heldur verði það meira endurtekning og árétting á því, sem þegar er fram komið og aðallega var tekið fram í byrjun þessarar umr. Það, sem einkanlega er um deilt, er í fyrsta lagi, hvort lög eru fyrir hendi til þess að uppfylla kröfu Bændafl. um að hv. 2. landsk. víki af þingi, þar sem hann sem uppbótarþm. flokksins hefir sagt skilið við hann. Í annan stað, að þótt einhverjir teldu svo vera, þá ætti þetta mál samt af einhverjum ástæðum, mér meira eða minna ókunnum, að sofa nú um stund. Í þriðja lagi, hvort hér er um tvær tegundir þm. að ræða eftir þeim ákvæðum, sem gilda í stjskr. og kosningalögum. Um hið síðasta atriði hefir enginn úr minni hl. n., sem er hér í samræmi við Sjálfstfl. og Bændafl., né nokkur af andmælendum okkar sannað, að ákvæði vantaði í l. þessum til þess að hægt væri að skera úr þessu máli, en andmælendur okkar hafa aðeins sagt, að ákvæði 28. gr. stjskr. hindruðu, að hægt væri að taka kæru Bændafl. til greina, og að engin önnur kjörgengisskilyrði en þau, er þar væru sett, væru fyrir hendi. Þó hefir enginn þeirra treyst sér til að mótmæla því, að kjörgengisskilyrðin í 28. gr., sbr. fyrri málsgr. 29. gr., væru aðeins almenn skilyrði. Ég hefi sýnt fram á, að fyrir utan þessi almennu skilyrði hljóti að vera önnur — og það meira að segja í sjálfri stjskr. — kjörgengisskilyrði, sem tvímælalaust ber að uppfylla af þeim, er á þingi sitja. Hin almennu skilyrði þarf ekki um að ræða; þau hafa gilt gegnum alla stjskr. þessa lands frá upphafi, aðeins hefir þeim verið fækkað eftir því, sem álitið hefir verið að mætti gera með tilliti til almennrar og þinglegrar þróunar á hverjum tíma, en þeim er ekki hægt að komast framhjá fyrir það Ég hefi bent á eitt kjörgengisskilyrði, sem stendur í síðari málsgr. 29. gr., þar sem sérstaklega er tekið fram, að þeir þm., sem taka að sér viss störf, verði ólöglegir á Alþingi og verða að úrskurðast burtu þaðan, ef þeir ætla sér að sitja þar eftir sem áður. Hv. frsm. meiri hl. n. játaði, að hann hefði ekki haft þetta ákvæði hugfast við samningu síns nál. Í öðru lagi er þetta nýja skilyrði, sem með kosningal. er sett og vitanlega er ekki annað en það, sem stjskr. ætlast til og tekur fram í 26. gr. c., en það er það kjörgengisskilyrði, sem menn verða að líta svo á, að þeir þm. verði nauðugir viljugir að uppfylla, sem flotið hafa inn á atkv. sérstaks flokks sem uppbótarþingmenn, og eru honum svo háðir frá byrjun, að þeir verða alls ekki skildir frá flokknum meðan þeir eiga að halda þingsæti. Það er því næsta ótrúleg saga, þó sönn sé, að þeir hinir sömu menn, er voru með í því að setja þetta skilyrði í l. og gjarnan vildu að flokkarnir hefðu enn fastari tók á þm. en raun varð á, vilji nú ganga framhjá þessu alveg ákveðna skilyrði. Það er hörmulegt til þess að vita, að Alþfl. skuli nú dag eftir dag ekki aðeins traðka á áður gefnum yfirlýsingum í þessu efni, heldur blátt áfram afneita í víðtækari skilningi þeirri stefnu, er hann hefir áður fylgt. Sumir telja þetta sorgarleik, aðrir skrípaleik, sem ekki geti framið nema alræmdir loddarar. En hvað sem þessi leikur er kallaður, þá er réttast að slá því föstu nú að síðustu, sem orðin er staðreynd í þeirra framkomu, að þeir hafa afneitað sinni eigin stefnu. Og þegar þeir utan þings í blöðum og umræðum fara að gera grein fyrir sinni afstöðu, þá eru til vitni, sem tala á móti þeim, — það eru þeirra eigin orð, sem þeir ekki komast fram hjá. Því að hér er um að ræða tvær tegundir þm. og það átti að vera svo og á vitorði allra.

Eins og hv. 3. þm. Reykv. hefir réttilega tekið fram, gilda um þessar tegundir þingmanna mjög hörð og ákveðin kjörgengisskilyrði, sem ekki verður framhjá komizt. Þessar tegundir eru tvær. — mætti raunar segja þrjár, en þó í aðalatriðum ekki nema tvær, fyrst þeir kjördæmakjörnu, sem búa við sömu skilyrði og áður, þau, að ef þeir ná þingsetu, halda þeir sínu sæti kjörtímabilið á enda, nema þeir taki sæti í hæstarétti, sem raunar mátti búast við, að einn núv. þm. mundi gera, en hæstv. dómsmrh. sá þó um, að það varð ekki. Að öðru leyti sitja þeir við sömu skilyrði og að undanförnu og eru ekki bundnir við sinn flokk eftir að þeir hafa náð þingsetu, fremur en verkast vill. Hin tegundin eru uppbótarþingmennirnir, sem fram yfir kosningar eru alveg ónafngreindir og fá sín sæti ekki fyrir persónuatkvæði, heldur vegna atkvæða, er þingflokkunum eru greidd, — þeir geta ekki komizt á þing nema á fylgi þess flokks, er þeir teljast til og ekki setið á þingi nema sem fulltrúar þess flokks. Þetta sýna og sanna öll ákvæði stjskr. og kosningalaga, sem hér að lúta. Þetta sýnir m. a. 133. gr., sem vitnað hefir verið til, þar sem gert er ráð fyrir, að skipt verði um uppbótarþingmenn eftir að landskjörstjórn hefir úthlutað uppbótarsætum að aflokinni aðalkosningu, og komið geti fyrir, að uppbótarþingmaður missi við það umboð sitt þrátt fyrir það, þótt hann hafi ekki á nokkurn hátt sjálfur spillt sínum rétti. Þetta sýnir, að hér er um nýja tegund þm. að ræða, sem ekki eiga tilverurétt nema í sambandi við flokk, líka með tilliti til þess, að utanflokkamenn geta aldrei náð uppbótarsæti, sem er óbein en sterk sönnun fyrir því, að uppbótarþingmenn eru óskiljanlegir frá þeim flokkum, sem þeir fljóta á inn í þingið, — ella geta þeir ekki haldið sínum sætum. Það er eftirtektarvert, að enginn meðal andmælenda okkar hefir borið það við að reyna að sýna fram á, að svo væri ekki, heldur hafa þeir farið í kringum málið, og sumir jafnvel reynt að bjarga sér á því hálmstrái að halda því fram, að hv. 2. landsk., sem hér velkist dag eftir dag fyrir vindum og sjóum, sé enn í þeim flokki, sem hann hefir sagt skilið við. Nú er það sannanlegt, hvað sem hinn kærði sjálfur segir, og verður sannað, því það er nú einusinni ekki regla að taka framburð kærða sem óskeikulan grundvöll dóma, að hinn ákærði er genginn úr sínum flokki og hefir þannig misst allan rétt bæði eftir beinum ákvæðum og anda stjskr. og kosningalaga til þess að sitja á þingi. Hitt hefir blandazt inn í umr., að jafnvel þótt þessi ákvæði hefðu engin verið fyrir hendi, og meira að segja verið viðurkennd af þeim mönnum, sem reynt hafa að bera blak af kærðum, að siðferðisleg skylda hans væri að segja af sér þingmennsku. hvað sem öllu öðru liði.

Hv. þm. G.-K. hefir eins og aðrir gengið út frá því, að ákvæðin í stjskr. og kosningalögum væru gildandi, en þó lagt til, að önnur leið væri farin, af því að hann vissi, að meðhaldssemi hv. 2. landsk. myndi aldrei úrskurða hann af þingi samkv. ákvæðum l. Hann áleit, að nauðsynlegt væri að fá það fram, hvað flokkarnir ætla sér með atkvæðum sínum. Hv. þm. vildi fá það glöggt fram, ef stjórnarliðið greiddi atkv. móti brtt. hans, að Alþfl. og meira að segja Framsfl. gengi skýlaust á móti sínum yfirlýstu skoðunum. Með atkvgr. um brtt. hv. þm. G.-K., eins og hann hefir nú orðað hana með nýrri brtt., fæst gleggri prófsteinn á afstöðu þessara flokka heldur en með rökst. dagskránni einni saman, sem þó brýtur allgreinilega í bága við anda stjskr. og kosningal. og sýnir ljóslega, hve flaumósa hv. meiri hl. n. hefir lokið sínu áliti.

Hv. þm. S.-Þ. talaði margt hér í dag, en fátt eitt merkilegt. Ræða hans er gott dæmi um það, hvernig þessi foringi tekur á málum. Hann gerði sér far um að flytja fréttir af fundi kjörbréfan., sem hann hefir sjálfsagt eftir einhverjum meirihlutamanninum í kjörbréfan. Það má telja meira en litla óvarkárni að trúa slíkum manni fyrir svona hlutum, sem almennt þingsiðferði segir til um, að þegja skuli yfir, því að trúa honum fyrir nokkru er sama sem að hella vatni í hrip, sem öllu lekur. Hv. þm. S.-Þ. flutti þær fréttir af fundi kjörbréfan., að hv. 2. þm. Rang. hefði haldið því fram, að lagafyrirmæli væru ekki fyrir hendi til þess að fullnægja kröfu Bændafl. og því ætti að reyna samkomulag í n. um að afgr. málið á siðerðisgrundvelli. Ég lýsi því yfir, að þetta er rangt. Ég tel mig ekki lengur bundinn þagnarheiti um það, sem á þessum fundi gerðist, þegar slíkur fréttaflutningur er hafinn. Rétt frá skýrt gekk það þannig til í n., að tveir nm. úr meiri hl. létu í ljós þá skoðun, að hvað sem liði lagaákvæðum, þá væru þeir þeirrar skoðunar, að það væri siðferðisskylda, að hinn kærði víki af þingi. Er þetta kom fram, spurði hv. 2. þm. Rang.: „Eigum við þá að reyna að sameina okkur um dagskrá á þeim grundvelli?“ Þannig er sagan rétt sögð, og það er vitanlegt, að ekki Aðeins tveir menn í meiri hl. n. voru þessarar skoðunar, heldur eru margir fleiri það einnig. Það er meira að segja spursmál um hæstv. forseta. Við mig hefir hann ekki látið það í ljós, en þegar farið er að bera út slíkar sögur sem hv. þm. S.-Þ., má geta upp á ýmsu. Því verður ekki neitað, að tilgangur og andi stjskr. og kosningal. er sá, að hv. 2. landsk. láti af þingmennsku; það er siðferðiskrafa, hvað sem ákvæðum líður, að hann fari út úr þinginu. Nú er það vitað, hvernig stjórnarflokkarnir ætla að greiða atkv. Þeir gefa allt fyrir það, að mega hanga. Stj. þarf á atkvæði þessa manns að halda; það kom fram í raunarollu þeirri, sem form. Framsfl., hv. þm. S.-Þ., flutti hér í dag. Þegar hv. þm. V.-Ísf. hefði brugðizt í tveimur málum á síðasta þingi, þá hefði þessi hv. þm. komið í skarðið. Og „skarðið“ má ekki standa ófyllt. Hv. þm. S.-Þ. hefir gefið það upp, að hv. 2. landsk. eigi að vera áfram á þingi, af því að stj. þurfi á honum að halda, hvort sem þessum collega mínum í héraði þykir upphefð í slíkum úrskurði eða ekki, að vera einungis þinghæfur vegna þess, að hv. þm. S.-Þ. þarf á honum að halda. — Hitt þarf ekki að ræða, enda kemur það úr hörðustu átt frá stjórnarflokkunum, að vera að tala um skoðanakúgun og skoðanafrelsi. Það er kunnugt, að tvö síðastl. ár hefir ekkert skoðanafrelsi verið leyft í þeim flokkum, enda bannað í lögum flokkanna, sem er þráfaldlega beitt. Það getur komið fyrir strax á morgun, og kemur sjálfsagt oft fyrir áður en þessu þingi líkur. Það er því ekkert um það að segja, þótt hv. 9. landsk. sé að tala um þrælahald; það er náttúrlega misskilningur, að það komi neitt stjskr. við, því að hún ætlast til, að þm. hafi sannfæringu, en ef hann og hv. 6. landsk. endilega vilja kalla sig þræla, þá mega þeir það fyrir mér, enda ættu þeir sjálfir bezt um það að vita, hverra „þrælar og þý“ þeir eru.