15.03.1935
Efri deild: 26. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

10. mál, jarðræktarlög

Jón Baldvinsson [óyfir.]:

Með þessu frv. á að færa aftur í sama horf og áður var, þannig að Búnaðarfél. skipi sjálft stjórn sína. En það var, að ég ætla, sett inn í jarðræktarlögin frá 1923, að þingið skyldi nefna til menn í stjórn þess. Þetta var gert vegna þess, að Alþ. fól Búnaðarfél. að hafa umsjón með framkvæmd jarðræktarlaganna og það hefir með höndum fjárveitingar fyrir ríkissjóð, þar sem það úthlutar þeim styrk, sem veittur er til jarðabóta. Ég hefi alltaf skilið þetta svo, sem þingið vildi með þessu tryggja sér nokkur ráð með fjárveitingum Búnaðarfél. Margir álíta, að vel færi á því, að stjórn félagsins, eða þessi störf, sem lúta að útdeilingu fjár, heyrðu beint undir ríkisstj. Og í raun og veru eiga þessi störf að vera framkvæmd í stjórnarráðinu sjálfu, eins og ég álít réttast, að þessi mál Fiskiveiðafélagsins væru í einni deild stjórnarráðsins.

Mér finnst það dálítið undarlegt, að Alþ. skuli vera að fela hinum og þessum stofnunum að útdeila því fé, sem ætti að heyra beint undir ríkisstj. og hún ætti að geta veitt til þeirra þarfa, sem brýnastar eru og mest aðkallandi. Það er og því minni þörf að fara að gera breyt. á þessu nú, þegar það er ákaflega vafasamt, hvort ríkið getur haldið áfram að greiða jafnháa styrki til jarðræktunar eins og nú er gert ráð fyrir í fjárlögum. Það eru áreiðanlega ýmsar aðrar brýnar þarfir, sem vel gæti komið til mála að veita fé til, en það er ekki hægt nema séð verði fyrir gjaldeyri til þess. T. d. hefir verið talað um frekari uppbót á kjöti, en þar á móti kemur þá auðvitað krafa frá sjávarútvegsmönnum um að greiða það, sem ekki selst af fiski, en þessi fjárhæð er svo gífurleg, að ekki er hægt að gera ráð fyrir, að ríkissjóður geti greitt hana, og er þá sýnilega dálítið varhugavert að sleppa umráðum yfir því fé, sem Alþingi úthlutar, og ég álít, að ekki eigi að hverfa að því ráði nú og þá beri líka að athuga, í sambandi við það, breytingar á öllu þessu fyrirkomulagi, t. d. ef svo færi, að draga þyrfti úr því fé, sem Búnaðarfél. Ísl. hefir frá Alþ. Ég vil skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann vill ekki leyfa, að málið sé tekið út af dagskrá, svo mér ynnist tími til að athuga um brtt., sem ég myndi koma með, ef frestur yrði gefinn.