13.03.1935
Neðri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Jón Sigurðsson:

Ég get lýst yfir, að ég tel stefnu þessa frv. í sjálfu sér eðlilega, að framleiðslan beri þann kostnað, sem á hana fellur samkv. eðli sínu. En til þess að það sé þó eðlilegt, verð ég líka að ganga út frá, að framleiðendur sjálfir hafi þarna fullkomin umráð og fullkominn rétt. En það þarf mikil brjóstheilindi til að skipa svo fyrir með lögum, að bændur skuli borga af sínu lága afurðaverði mönnum, sem stj. hefir skipað og neytendur og sem yfirlýstir eru að skoða það hlutverk sitt í nefndunum að þoka afurðaverði bænda sem mest niður. Slíkt tel ég með öllu óeðlilegt og ranglátt. Það er þá bezt, að þeir greiði, sem þeir eru kosnir af. Og ég vil því endurtaka þá kröfu, sem að nokkru leyti kom fram frá hv. þm. Borgf., að af þessu hlýtur að leiða það, að framleiðendur sjálfir fái full umráð allra þessara mála í sínar hendur. Það er ekki nein sanngirni að heimta t. d. af bændum, að þeir standi straum af öllum þessum kostnaði, nema því aðeins, að þeir fái fulla yfirstjórn þessara mála; þegar svo væri komið, þá gæti ég tekið undir með hæstv. fjmrh., að þá óttast ég ekkert um það, að kostnaðurinn fari út í neina vitleysu. En meðan framleiðendur hafa ekki ráð á meiri hluta nefndanna, þá er engin trygging fyrir því, að kostnaðurinn færi ekki langt úr hófi fram.

Það er alkunna, að þegar ríkissjóður á að bera einhvern kostnað, þá hættir mörgum mönnum til þess að stilla ekki kröfum sínum í hóf, svo sem vera bæri. Og eins og þessu máli er hagað samkv. frv., er engin trygging fyrir hóflegum kostnaðarkröfum, er allar skella á framleiðendum, nema því aðeins, að framleiðendur sjálfir skipi trúnaðarmenn sína í nefndirnar. Hér er um talsverðan hóp manna að ræða, og það er á allra vitorði, að það er að talsvert miklu leyti bitlingahjörð, sem þarna starfar. T. d. er við mjólkursöluna 12 manna nefnd auk alls starfsmannaliðsins, og raunar fleiri, ef nefndarmenn í héruðunum eru teknir með. Í hinum nefndunum eru margir menn, og hefi ég ekki í svipinn tölu á, hvað komnir eru margir á jötuna, en full þörf er á, að gætt væri meiri sparsemi en verið hefir. Ég get endurtekið, að ef framleiðendur sjálfir hafa málið í sínum höndum, þá kvíði ég ekki svo mjög óhófseyðslu, en hafi þeir ekki ráðin, er engin trygging fyrir því, að ekki sé sóað fjármunum framleiðenda áfram út í einhverja vitleysu.