13.03.1935
Neðri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Það er mjög undarleg aðferð, að koma l. þessum um eftirlit með framleiðslu og atvinnuvegum og markaðsmöguleikum þeirra á árinu 1934 gegnum þingið á þeim grundvelli, að ríkissjóður kostaði þessar ráðstafanir, — læða frv. með þessum skilningi gegnum þingið, en strax 3 mánuðum seinna koma með löggjöf, sem breytir þessu atriði algerlega og losar ríkissjóð við allan kostnað. Þó var það svo, að þegar hæstv. fjmrh. á síðasta þingi reiknaði út, hvað hann þyrfti í tekjur fyrir ríkissjóð á árinu 1933, þá taldi hann kostnað af þessum ráðstöfunum með gjöldum yfirstandandi árs, og var tillit tekið til hans eins og annars, þegar nýir skattar voru lagðir á landsfólkið.

Ég hefi nú ekki orðið var við það, sem réttlætt geti þá fullyrðingu hæstv. fjmrh., að bændur, sjómenn og útvegsmenn hafi allir óskað þessarar löggjafar. Mér er kunnugt um, að töluvert var talað um þetta manna á meðal og á opinberum fundum, að einhverjar ráðstafanir kynni að vera rétt að gera, sem færu í eitthvað svipaða átt og hér er um að ræða. En ég held, að enginn, sem þessar atvinnugreinir stundar, hafi látið sér detta í hug, að það væri hjálp fyrir hans atvinnugrein, að einhverjir bitlingamenn settust yfir hana til þess að gera ráðstafanir fyrir hans hönd og á hans ábyrgð. Og ég efast um, að meðal framleiðenda í landinu sé mikið fylgi með þessari ráðstöfun ríkisvaldsins. Það er ekki sama að hafa máske litið með nokkurri góðvild til löggjafarsetningar, sem gengi í svipaða átt og þessi gerði, eða að vilja kosta ráðstafanir hennar eins og hún nú lítur út, og sérstaklega eins og hún hefir verið framkvæmd.

Mér þykir að vísu vænt um að heyra af munni hæstv. fjmrh., að hann álítur þetta verða miklu ódýrara í höndum framleiðenda sjálfra heldur en ef ríkissjóður kostar. Þetta þykir mér góð yfirlýsing af hans hendi, því að ég er yfirleitt sammála þessu um ýmsa starfsemi. Og ég get vel fallizt á, að það kunni að vera svo, að ef einhverju er breytt um mannaskipun í n. og ekki fjölgað mjög nefndarmönnum eða settar á stofn nýjar nefndir, þá muni allt verða ódýrara í höndum framleiðenda sjálfra, ef þeir eiga fullan rétt til eftirlits með því, hvernig verkið er rækt, og til að gera sínar aths. við kostnaðarreikningana. En ég spyr hæstv. ráðh., hvort hann geri ráð fyrir, að nm. þeir, sem um getur í 1. gr., geri framleiðendum grein fyrir þeim kostnaði, sem þeirri n. tilheyrir sérstaklega, samkv. l. um markaðs- og verðjöfnunarsjóð vegna fiskútflutnings. Ég geri ekki ráð fyrir, að hann búizt við að leggja þá reikninga fyrir atvinnugreinina sjálfa til samþ.

Hitt, að réttara sé, að hver vörugrein beri sinn kostnað af því, að „sannvirði vörunnar“ komi ekki fram nema þessi kostnaðarauki sé reiknaður með, þykir mér skrítin setning. Ég veit ekki, hvað þetta sannvirði er, ef ríkið getur tekið mikinn hluta og deilt milli gæðinga sinna og allskonar þarfra eða óþarfra nefnda. Ég held, að yfirleitt muni menn ekki viðurkenna það, að fyrst eftir að sá kostnaður er á lagður komi fram svokallað sannvirði vörunnar. Það er þá ný skilgreining á því hugtaki, en mér hefir skilizt, að samvinnumenn væru nokkuð reikulir og ruglaðir í því efni. Það er ákaflega mikilsvert fyrirheit, sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. og hæstv. fjmrh. gáfu um það, að sé einhver vörutegund svo verðlag, að hún geti ekki borið þennan kostnað, sem af n. flýtur, sem á að skipuleggja sölu þeirrar vörutegundar, þá muni ríkissjóður hlaupa undir bagga og borga fyrir hana. En ég skil nú ekki, hvaða hugsun getur legið á bak við þetta tal. Er það svo, að Alþingi eigi að meta á eftir, hvort ekki sé rétt að borga kostnaðinn af mjólkurnefndinni úr ríkissjóði, af því að framleiðendur fái ekki nógu hátt verð fyrir mjólkina, — eða jafnvel að borga úr ríkissjóði kostnaðinn við fisksölunefnd og fiskimálanefnd, ef varningur sá, sem hún hefir yfirumsjón með sölu á, er svo verðlágur, að ekki þykir fært að borga nefndinni af því?

Ég legg nú ekkert upp úr þessu fyrirheiti annað en það, að það er opin leið fyrir flm. þessa frv. til þess að velja úr á eftir, fyrir hvaða atvinnugreinir þeir vilji halda áfram að borga úr ríkissjóði og hverja þeir ætli að láta borga sjálfa. Það á þá að vera á valdi þingmeirihl. eftir sem áður, hvort ríkissjóður eða atvinnuvegurinn borgi þennan kostnað, sem þeir vilja telja kostnað við framleiðsluna. Ég get ekki fyrir mitt leyti talið þetta viðunandi svör. Ég álít, að hér sé farið inn á ranga braut og brugðið því heiti, sem í þessu efni var gefið með löggjöfinni á síðasta ári, og að viðbúið sé, úr því að svo fljótt er tekið til breyt., að meira muni á eftir fara. Og ég hygg það felist mikið óhagræði í því fyrir framleiðslugreinarnar, sem þá geta átt yfir höfði sér vofandi ríkisvaldið með valdi til að skattleggja þær til þess að borga hverskonar bitlingamönnum, sem ríkisvaldinu þóknast að setja þeim til höfuðs.