13.03.1935
Neðri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það er dálítið gaman að sjá, hvernig, hæstv. stj. efnir lofurð sín. Hún lofaði á þinginu í vetur, að hún skyldi koma með uppbót á afurðir landbúnaðarins og bændur skyldu fá uppbót á kjötið. Nú efnir hún þetta loforð með því að segja: Þið skuluð fá að borga þessa bitlinga. Þið skuluð borga þessum mönnum, sem við höfum sett til þess að ráðstafa þessu fyrir ykkur.

Þegar verið var að setja l. um kjötsöluna, var alltaf gengið út frá því sem sjálfsögðu, að ríkissjóður stæði undir kostnaðinum af þessari n., ekki sízt fyrir það, hvernig hún varð svo skipuð. En nákvæmlega það sama má segja um allar þær n., sem frv. fjallar um. Það er á engan hátt hægt að segja, að það sé rétt, að hlutaðeigandi atvinnuvegir standi undir þessum útgjöldum. Hvaða réttlæti er í því, að sjávarútvegurinn fari að borga níu mönnum, sem starfa í sambandi við sjóð, sem sérstaklega hefir verið stofnaður til þess að styðja sjávarútveginn?

Þeir menn, sem skipa þessa n., eru hér og þar úti um allt land og engar líkur til, að þeir nái nokkurntíma saman. (Fjmrh.: Það er ekki um að ræða stjórn verðjöfnunarsjóðs, heldur fiskimálan.) Ég get vel búizt við, að stj. komi með það á eftir. En það er gott, ef stj. er nú farin að finna til blygðunar fyrir að setja allar þessar n. á framfærslu sjávarútvegsins. Annars er ekkert sérstakt við því að segja, þó að stj. sé að gefa upp á bátinn, en hitt ætti að vera skylt, að vísa þessum hlutaðeigendum á rétta framfærslusveit. Það er hart, þegar verið er að þrengja inn á atvinnuvegina mönnum, sem er yfirlýst, að vilji vinna á móti hagsmunum viðkomandi atvinnurekstrar, og svo eru þessir atvinnuvegir skyldaðir til að borga allan þann kostnað, sem leiðir þar af þessum mönnum. Þetta er svo fjarstætt, svo fjarri öllu réttlæti, að ég get ekki skilið, að nokkur maður geti verið með frv. eins og það er. Það gæti komið til mála, að þeir aðilar, sem stæðu að skipun hverrar þessarar greinar út af fyrir sig, bæru kostnaðinn af sínum mönnum, sem kosnir væru í stjórn þessara atvinnugreina og komið þangað fyrir tilstilli framleiðendanna sjálfra.

Ég vil líka benda á, að ef slík breyt. verður á þessu gerð sem hér er farið fram á, þá er óhjákvæmilegt að ganga tryggilegar frá því, að framleiðendur sjálfir geti haft eitthvert „kontrol“ með þessum reikningum öllum saman. Ef það er ríkissjóður, sem á að standa undir þessum greiðslum, þá er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að menn þaðan úr stjórnarráðinu kynni sér þá reikningsfærslu, sem þar fer fram, og endurskoðendur ríkisins fylgist með öllu því, sem þar er gert, sem fulltrúar ríkissjóðs. En hvaða tryggingu hafa framleiðendurnir fengið í hendur um það, að þessi kostnaður sé ekki meiri en hann þyrfti að vera? Ég sé ekki annað en að öll slík ákvæði vanti inn í þetta frv. Ég sé mér því ekki fært að greiða atkv. með frv. óbreyttu og mun ekki gera það, allra sízt þegar hér eru þverbrotin öll þau loforð, sem stj. hefir gefið í viðkomandi afurðasölu. Í staðinn fyrir að efna það loforð, að veita fé til ríkissjóði til verðhækkunar. þá er hér aukið á útgjöldin, dregið úr því, sem líkur voru til, að hefði getað fengizt að l. óbreyttum. Þetta er svo dæmafá frekja af stj., að ég er í raun og veru alveg undrandi yfir, að slíkt skuli koma fram.