13.03.1935
Neðri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Það voru aðeins örfá orð út af því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði. Hann endurtók með af því, sem samherjar hans voru búnir að segja áður, svo að ég er að því leyti búinn að svara honum fyrirfram. Eitt atriði kom hann þó með þar til viðbótar. Þar sem hann var að ásaka stj. fyrir það, að hún hefði svikið það loforð, sem hún hefði gefið á þingi 1934 um verðuppbót á kjöti, en í þess stað komið með frv. um að þrengja kosti kjötframleiðenda með því að færa kostnaðinn af kjötsölunni yfir á verðjöfnunarsjóð.

Út af þessu vil ég segja það, sem er reyndar kunnugt og meira að segja setið um í grg. þessa frv., sem hv. þm. sennilega hirðir ekki um að lesa, að stj. mun leggja fyrir þingið till. um uppbót á framleiðslunni 1934, eins og talað var um af hæstv . landbrh. á síðasta þingi. Ef hv. þm. hefði nennt að lesa þessa grg., hefði hann getað séð þetta og sparað sér það ómak að fá það rekið ofan í sig aftur.

Þá vil ég aðeins minnast á það, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði nú síðast. Hann fór að skilgreina. hvað hann kallaði bitlingalýð, og vildi færa rök að því, að bitlingamenn kæmu nærri þessum málum. Hann sagði, að bitlingamenn væru þeir, sem tækju að sér stjórn á því, sem þeir hefðu ekki þekkingu á. En það vantaði alveg hjá honum rök fyrir því, að þeir menn, sem hér um ræðir, hafi ekki til að bera þekkingu á sínu starfi, svo að hér stendur allt við það sama og áður. En í sambandi við þetta viðhafði hann óþarflega hörð orð um það fólk, sem bæjarstj. hefir tilnefnt í mjólkursölun. Ég veit ekki til, að bæjarfulltrúi Jakob Möller hafi neina sérþekkingu til að bera, svo að hann fellur þá inn undir þessa skilgreiningu hv. þm. um bitlingalýð. Um varafulltrúa bæjarstj. í mjólkursölun. er það sama að segja, að ef einhverjir falla undir þessa skilgreiningu hv. þm., þá gerir hann það ekki síður. Ég er ekkert að dæma um það, hvort þetta er rétt, en ef einhverjir menn falla undir þessa skilgreiningu hv. þm., þá gera þessir menn það fyrst og fremst.