13.03.1935
Neðri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Fimrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég þarf ekki miklu að svara hinu ómerka hjali hv. þm. G.-K., sem hann kallaði sjálfur hóflega gagnrýni, en var ekki annað en órökstudd fúkyrði um fjarverandi menn, eins og það t. d., að brýn þörf væri á því að losa Fljótshlíðinga við séra Sveinbjörn sem sálusorgara og tilvinnandi væri að greiða honum 100 kr. á dag fyrir að vera ekki í mjólkursölunefnd. Eins er víst ætlazt til þess, að ummæli hv. 5. þm. Reykv. um bitlingalýð og beinahítir falli undir þessa „hóflegu gagnrýni“.

Ræða hv. þm. var, eins og ég hefi þegar sagt, skammir, sem ekki er hægt að rökræða. Hann sagði, að það væri rétt, að ég lærði að skilja, að allur þorri manna hér í bæ vildi hvorki heyra séra Sveinbj. Högnason né sjá og teldi mjólkursölunefnd illa skipaða. Ég veit nú ekki, hvaðan honum kemur heimild til að mæla þannig f. h. alls þorra manna. Álit þorra manna á mjólkursölunefnd og starfi hennar mun sjást, þegar það mál er borið undir þjóðina.