13.03.1935
Neðri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Ég er sammála því frv., sem liggur hér fyrir. Ég held, að hv. þm. G.-K. verði ekki talinn óhlutdrægur dómari í þessu máli, þar sem hann mætir hér fyrir hönd Korpúlfstaða að því er mjólkursölunefnd snertir, og Kveldúlfs að því er varðar fiskimálanefnd.

Hann talaði um það, að fiskimálanefnd væri illa skipuð, og mun hann þar einkum hafa átt við okkur Alþýðuflokksmennina, mig og Jón Axel Pétursson. Sjálfur kom hv. þm. G.-K. með ómerkilegt frv. um fiskiráð, þar sem ekkert fé var ætlað til framkvæmda, en samkv. því frv. átti þó Alþýðusambandið að eiga einn fulltrúa, svo að hv. þm. G.-K. hefði þó ekki losnað við annan okkar.

Hinir nm., sem hv. þm. G.-K. álítur óhæfa, eru þessir: Fyrir íslenzka botnvörpuskipaeigendur: Guðmundur Ásbjörnsson. Fyrir Landsbankann: Júlíus Guðmundsson. Fyrir Útvegsbankann: Helgi Guðmundsson, sem hefir verið riðinn við fiskverzlun mest alla starfsæfi sína. Frá Fiskifélaginu: Kristján Bergsson forseti.

Frá S. Í. S.: Pálmi Loftsson, sem er sérstaklega kunnugur fiski og flutningum á honum. Skrifstofustjórinn, Ólafur Briem, er einnig þaulkunnugur allri fiskverzlun og hefir starfað áður bæði hjá Kveldúlfi og Samlaginu.

Þetta eru mennirnir, sem hv. þm. G.-K. segir, að séu óhæfir.

Störf fiskimálanefndar hafa verið og munu verða að finna nýjar leiðir, sem hv. þm. G.-K. og bræður hans hafa vanrækt að kanna og myndu gera ef þeir hefðu einir þessi mál með höndum.