25.03.1935
Efri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Frsm. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Ég held, að hv. 1. þm. Reykv. hafi í raun og veru ekki athugað, þegar hann samdi till., hvað hún er flókin, þó hún sé ekki nema 3 línur. Það, sem hv. þm. fer fram á, er það, að ákvæðið um greiðslu til n. af fé afurðanna komi því aðeins til framkvæmda, að eigendur afurða þeirra, sem í hverju tilfelli ræðir um, hafi meiri hl. í umræddri n. Þetta spursmál er afarflókið án tillits til þess, hversu réttlátt það er, því það geta verið miklar deilur um, hvenær eigendur afurðanna hafa meiri hl. eða ekki, við skulum taka t. d. mjólkursölunefndina. Ég ímynda mér, að það mætti færa líkur fyrir því, að eigendur mjólkurinnar hafi stóran meiri hl. í þeirri n. En þá gæti hv. 1. þm. Reykv. komið og sagt: Ekki er Hannes Jónsson dýralæknir bóndi, og ekki heldur Árni Eylands; Kolbeinn í Kollafirði er ekki heldur bóndi nema stundum. Það geta því orðið vafningar að skera úr því, hvenær eigendur afurðanna eru í meiri hl. En mér finnst það koma úr hörðustu átt af þessum hv. þm., sem telur sig vera fulltrúa stærsta neytendahópsins, að heimta, að þeir skuli vera í minni hl., þegar á að ráðstafa afurðunum, hvort heldur er á innlendum eða erlendum markaði. Hv. þm. veit þó, svo greindur maður sem hann er, að þegar gerðar eru ýmsar ráðstafanir til þess að styðja að aukinni neyzlu íslenzkra afurða innan lands eða utan, þá kemur það í mörgum tilfellum hart við neytendur bæði beint og óbeint.

Það hafa verið sendar sendinefndir út um öll lönd til mikils kostnaðar fyrir ríkissjóð; það hefir verið haldinn sendiherra, með hæsta kostnaði, til þess að selja íslenzkar afurðir; og það hafa verið gerðir samningar við erlend ríki, sem binda eða takmarka kaup á vörum við dýrara verði en ef við keyptum þær á frjálsum markaði. Allt er þetta til mikilla óþæginda fyrir neytendur, þegar þannig verður að takmarka vörukaup við viss lönd, án tillits til þess, hvar ódýrast er að verzla. En svo á sá hópur, sem þetta bitnar á, engu að fá að ráða um skipun nefndanna. Og það kemur úr hörðustu átt frá hv. 1. þm. Reykv., sem er fulltrúi fyrir langstærsta hluta neytendahóps í landinu, að hann skuli heimta það, að öll ráð séu tekin af neytendum og fengin í hendur þeim mönnum, sem af tilviljun eru kallaðir eigendur afurðanna. Nema ef hv. 1. þm. Reykv. vill hér með lýsa því yfir, að framleiðendur hafi alstaðar meiri hluta í þessum nefndum, — en þá hefði hann ekki komið fram með þessa tillögu.

Fiskimálan., sem gera á tilraunir og uppástungur um sölu fiskjar og starfar með fé úr ríkissjóði, er skipuð svo, að bankarnir eiga þar sinn manninn hvor, og eru þeir vitanlega ekki eigendur afurðanna. S. Í. S. n að skipa einn fulltrúa, enda ræður það yfir útflutningi á ca. 50 þús. skippundum af fiski árlega. Ég fer þar eftir skýrslum, sem mér hafa verið gefnar um þetta. Þá er Alþýðusambandið. Í því eru öll sjómannafélög landsins, eða menn bæði af stórum og smáum skipum. Það virðist lítil sanngirni í því, að þeir mættu ekki tilnefna mann í n. A. m. k. finnst mér þeir vera eigendur að afurðunum. Og það eru menn, sem oft fá ekki útborgað fyrr en eftir 15 mánuði, þegar fiskurinn selst ekki fyrr. Er ekki réttlátt, að samtök þeirra fái að ráða manni í þessa n., sem hlutast til um sölu á afla þeirra?

Þá er ríkisstj. með einn fulltrúa í n., og virðist varla hægt að ganga framhjá henni, þar sem ríkissjóður leggur fram ca. 1 millj. króna til umsjár með afurðasölunni, og það fé er alltaf að einhverju leyti lagt í hættu.

Þá hafa togaraeigendur tilnefnt einn mann í þessa n. Hv. 1. þm. Reykv. er vist ekki í vafa um, að þeir séu hinir einu sönnu og réttu eigendur afurðanna.

Þá er loks Fiskifélag Íslands með einn fulltrúa, enda leiðbeinir það um ýmisleg mál, sem sjávarútveginn snerta, og hefir umsjá með framkvæmd þeirra.

Það virðist mega gera ráð fyrir, að allar þessar stofnanir geti gert eitthvað af viti, og þó allir trúi þeim ekki, þá trúi ég þeim a. m. k. betur til þess að velja fulltrúa í n. en þó færi fram almenn atkvgr. um þá. Ef kosningar í n. væru bundnar við það, að ekki hefðu aðrir kosningarrétt en þeir, sem eiga afurðirnar, þ. e. eigendur báta og skipa, þá væru þær víst eftir höfði hv. 1. þm. Reykv. En ég er ekki viss um, að slíkt væri vel ráðið.

Ég veit t. d. fyrir fram, ef settir væru eintómir bændur, eins og hv. 1. þm. Reykv. myndi heimta, sem ættu að sjá um sölu mjólkur til Rvíkur, þá hefðu þeir enga hugmynd um. hvernig ætti að framkvæma söluna. Og þeir myndu ekki gera það sjálfir, heldur setja til þess menn, sem væru kunnugir þessum málum. Menn hafa þar dæmið fyrir sér um forstjóra Mjólkurfélags Reykjavíkur, sem er þeirra trúnaðarmaður. Ég hugsa, það séu fáir bændur, sem hafa jafnmikið vit og hann á sölu mjólkur.

Því er till. hv. 1. þm. Reykv. tóm vitleysa, að heimta, að framleiðendur hafi meiri hl. í þessum nefndum. Það er svo frá því sjónarmiði, hvað vinna eigi málinu gagn, og þar að auki rangindi gagnvart neytendum. Og þetta hefði sízt átt að koma frá hv. 1. m. Reykv., sem er fulltrúi stærsta neytendahóps á landinu. Það er víst, að af öllum þessum ráðstofunum hljótast margvísleg óþægindi fyrir neytendur.

Ég hefi alltaf játað, að neytendur Rvíkur hafa haft margskonar óþægindi af samsölunni, en ég hefi verið með henni af því, að ég áleit, að það ástand, sem var, mætti ekki haldast lengur, það yrði skaði báðum aðiljum, neytendum og bændum, ef sama sleifarlagið héldist áfram. Enda hefir það sýnt sig, að með skipun mjólkursölunnar hefir þegar sparazt mikill kostnaður sem var óþarfur, svo að bændur fá hærra verð fyrir mjólkina, nú þegar, og neytendur hafa þó fengið ofurlítið lægra verð. Og hefði þó verið hægt að hafa þetta enn kostnaðarminna, ef fylgt hefði verið till. þeim, sem kunnugustu menn lögðu til í upphafi. En ennþá má bæta skipulag samsölunnar.

Það er ekki hægt að búast við því, þó bændur væru settir í slíka n., að þeir gætu sagt, hvað heppilegast er. Það verða þeir að gera, sem kunnugir eru verzlunarháttum.

Hvernig sem maður skoðar till. hv. þm., þá er hún tóm endileysa, og að öðru leyti rangsleitni.

Ég þykist skilja, að með þessu eigi að bjarga uppsteyti, sem varð hjá nokkru af kvenfólki hér í bæ, móti mjólkursamsölunni. Ýmsar húsmæður Rvíkur, sem þó eru yfirleitt hagsýnar, hafa í einhverri blindni samþykkt, að eina ráðið til þess að fá lækkað mjólkurverð væri að fá bændum alla stjórn samsölunnar í hendur. Mér skilst, að það sé í þessum dúr, eða öllu heldur þessum rús, að till. hv. 1. þm. Reykv. er samin, svo að frv. komi ekki þvert á móti þeim kröfum, sem hér hefir verið um að ræða. En til handa neytendum er ekkert gagn í þessu, og ekki heldur fyrir bændur.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um till. Ég vil ráða hv. dm., bæði vegna bænda, vegna eigenda fiskjar og eigenda afurða yfirleitt, að fella þessa brtt., því að hún er einungis byggð á misskilningi.