25.03.1935
Efri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. 1. þm. Reykv. hefir flutt brtt. á þskj. 267 við frv. þetta. Þessi till. er að mínu áliti ógreinilega orðuð. Þó held ég, að ég hefði ekki skilið hana nema á einn veg, ef hv. þm. hefði ekki haldið framsöguræðu sína. En eftir það er till. óskiljanleg. Í brtt. stendur, að eigendur afurða þeirra, sem í hverju tilfelli ræðir um, hafi meiri hl. í umræddri n. Þegar hv. þm. fer svo að skýra till. sína, þá segir hann, að það geti verið undir hælinn lagt með síldarútvegsnefnd, hvort síldareigendur séu þar í meiri hl. eða ekki. Það verður ekki skilið, hvort þm. meinar, að til kvalifikationar í n. þurfi eigendur síldar, fiskjar, mjólkur og kjöts, eða þeir þurfi að vera kosnir af mönnum, sem eiga þetta. Ef menn þurfa að eiga síld til þess að geta verið kvalifiseraðir í n., þá er á litlum rökum byggt, það sem hv. þm. hefir fundið að vali Sveinbjörns Högnasonar í mjólkursölunefnd. Hv. þm. ætti samkv. þessu að vera harðánægður með þá tilskipun, því að Sveinbjörn Högnason á um 20 kýr. Eftir þessari skoðun ætti að vera nóg, að menn eigi mjólk, menn þyrftu ekki að eiga nema 1 lítra af mjólk eða eina hafsíld, til þess að vera gildir fulltrúar í n. Ég vil aðeins benda á þetta, því að hv. þm. er ekki ljóst, hvað hann er að fara.

En nú ætla ég að ganga út frá því, að hv. þm. meini, að n. verði að vera kosin af þeim aðiljum, sem eiga mjólk, kjöt, síld o. s. frv. Þm. til léttis vil ég gera þetta. Það kann að líta laglega út á pappírnum, að eðlilegast sé, að framleiðendur ráði í n. og ákveði sjálfir kostnað. En það stenzt ekki alltaf í lífinu eða framkvæmdinni. Vill ekki hv. þm. athuga, hvers vegna framleiðendur sjálfir hafa beðizt afskipta löggjafarvaldsins? Af hverju er það öðru en því, að þeir gátu ekki komið sér saman? Það reka sig á hagsmunir ýmissa hópa, sem hver vill eiga sérstöðu um afurðasöluna. Það hefði ekki þurft neina löggjöf í þessum efnum, ef framleiðendur hefðu getað ráðið málunum til lykta sjálfir. En það hafa þar ekki allir sömu hagsmuna að gæta. Því er nauðsynlegt, að aðrir aðiljar komi til, þegar sérhagsmunirnir rekast á, því hefir löggjafarsamkoman litið svo á, að ekki væri heppilegt, að framleiðendur ráði hér öllu, og er nóg í þessu sambandi að vísa á lög frá síðasta þingi, þar sem þetta er viðurkennt.

Auk þess vil ég benda hv. þm. á það ef farið er að gera þá kröfu, sem í till. felst (því ég vil leggja þann skilning í hana), að eigendur afurðanna kjósi menn í n., þá er líka forsvaranlegt, að kostnaður af n. sé greiddur af framleiðendum.

Þá vil ég benda á, að það er ekki fjarri um n. þær, sem nú sitja samkv. afurðasölulögunum, aðrar en þá e. t. v. síldarmálan., að þær séu skipaðar þannig, að meiri hl. þeirra sé fulltrúar framleiðenda. Það verður þó ekki um deilt, að landbrh. sé fulltrúi þess atvinnuvegar í ríkisstj., og eins er sjávarútvegsrh. fulltrúi þeirrar atvinnugreinar. Það virðist því, út frá sjónarmiði þessa hv. þm., vera hæfilega séð fyrir því, að hagsmunir framleiðenda séu ekki bornir fyrir borð í n. En með skipun oddamanns af hálfu hlutaðeigandi ráðh. er séð fyrir því, að ekki rekist á sérhagsmunir einstakra hópa, til tjóns fyrir atvinnuveginn. Þeir menn, sem ráðh. skipar, eiga að hafa yfirsýn og jafna hagsmunina. ég er því ekki í vafa um, að þetta fyrirkomulag hvað snertir ákvörðun markaða og markaðsskipti er það heppilegasta. Framleiðendur hafa raunverulega meiri hl. í n., en oddamannsatkvæðið hafa þeir, sem allrar aðstöðu sinnar vegna geta haft yfirsýn um hagsmuni allra framleiðenda. Ég lít því svo á, að rétt sé að fella brtt. á þskj. 267. Hún er síður en svo til bóta, og ástand það, sem nú er um skipun n., er heppilegra en það, sem virðist hafa vakað fyrir hv. flm. till.