25.03.1935
Efri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég er sannast að segja ekki lítið hissa á þeim umr., sem hér hafa orðið. Ég ber fram einfalda till. þess efnis, að ef leggja eigi kostnað á ákveðna aðilja, þá sé það um leið tryggt, að aðiljar ráði, hver sá kostnaður er.

Það virðist óþarfi að gera mikið veður út af þessari einföldu till., sem ekki fer fram á annað en það, sem er sjálfsögð og algeng regla. Ég skal nefna hliðstæð dæmi. Ef ríkisvaldið skyldar menn til skólagöngu eða spítalavistar, þá tekur það á sig kostnaðinn, sem af þessu leiðir. Börn á skólaskyldualdri eru ekki látin greiða kostnað af vist sinni. Og t. d. í berklalögunum er ríkisvaldinu gert að skyldu að borga kostnað af sjúkrahúsdvöl sjúklingins. Vegna þeirra skyldna, sem borgurunum eru lagðar á herðar í þessu efni, er álitið skylt, að ríkið verði að borga kostnaðinn. Það er litið svo á, að sá verði að borga kostnaðinn, sem skipar fyrir, hver kostnaðurinn er. Það er hart að skipa mönnum fyrir kostnað, sem þeir fá engu ráðið um, eins og hér er verið að gera með skipun n., sem eigendur afurðanna eiga ekki að ráða yfir. N. getur í bezta tilgangi lagt út í stóran tilkostnað, sem eigendum vörunnar finnst ekki fært að ganga út í. Ef þeir eiga að greiða kostnað n., þá er fyllsta sanngirni að þeim sé tryggður umráðaréttur um það, hver sá kostnaður er.

Ég skil því ekkert í, þegar svo einföld till. kemur fram, þá skuli slíkur taugaóstyrkur þurfa að grípa hv. 4. landsk. og hæstv. ráðh., að þeir halda langar ræður um allt annað mál. Hv. frsm. n. innleiðir hér þessa einkennilegu aðferð. Mikill hluti af ræðu hans var um það, að ríkið hefði mikinn kostnað af sendinefndum, hefði sendiherra á háum launum o. s. frv. Hann er þá hér að tala móti frv. Ríkið sendir menn út til að leita fyrir sér um sölu afurðanna, og af þeim sökum ber ríkið kostnaðinn, sem af því leiðir. Þetta er í alla staði eðlilegt, og er nákvæmlega eftir minni reglu. Ég vil ekki láta einstakar stéttir greiða kostnað þann, sem leiðir af skipulagningu ríkisins á afurðasölunni, af því það er svo óvíst, að það komi að haldi, einmitt af því að framleiðslustéttirnar fá ekki sjálfar að ráða. Hv. frsm. lagði út af orðum mínum á þann veg, að sér þætti undarlegt, að ég skyldi ekki fara fram á, að bændurnir seldu hér sjálfir framleiðslu sína, þá réðu þeir, hvernig sölunni væri hagað út í yztu æsar. En nú hefðu þeir ráð á sölutilhögun gegnum fulltrúa sína í mjólkursölunefnd. En því er þeim þá meinað að ráða? því ekki að breyta svo lögunum, að þeir fái að kjósa frjálst í n. og ráða þannig sinni vörusölu, eins og farið er fram á í till. minni? En eins og nú er getur n. eða meiri hl. hennar farið með þessi mál eftir geðþótta, án þess að bændur geti komið fram ábyrgð á hendur þeim, en það geta þeir ekki nú, sbr. mjólkursamsöluna, því þó þeir vilji breyta til, fá þeir engu ráðið. Hv. frsm. sagði, að allt þetta spursmál væri flókið. Naumast er! Já, þetta er ekki smáræðisflækja! Ef bændurnir greiða kostnaðinn af mjólkursölunefndinni, þá fái þeir að kjósa meiri hl. n. Það er afskaplega flókið þetta! Ég get ekki ímyndað mér einfaldara mál. Þetta er alveg eins og ef fiskeigendum er gert að skyldu að kosta fiskimálanefnd, þá sé þeim tryggt að fá meiri hl. í n. og ráða. hvaða menn fara þar með umboð þeirra.

Mér þótti hreppapólitíkin fara að skjóta upp höfðinu, þegar það var notað gegn brtt. minni, að fulltrúi stærsta neytendahópsins yrði útilokaður úr n. Ég skal játa, að frá hreppapólitíkur sjónarmiði er þetta galli, en reynslan hefir kennt mér annað. Þó finnst mér eðlilegt og sjálfsagt, ef ríkissjóður greiðir kostnaðinn við nefndarstörfin, eins og samþ. var n síðasta þingi, að framleiðendur og neytendur eigi jafnan rétt í n. En ef breyt. sú verður samþ., sem felst í lögum þessum, þannig að framleiðendur beri kostnaðinn, þá finnst mér eðlilegt og sjálfsagt, að þeir velji meiri hl. n., framleiðendur. Reynslan hefir einnig kennt Rvíkingum, að þó framleiðendurnir réðu einir, myndi það ekki óheppilegra en núv. fyrirkomulag, því þeir eru verstir í n., sem hvorki eru framleiðendur né neytendur. Ef framleiðendur stjórna þessum málum, þá munu þeir áreiðanlega, eins og góður kaupmaður, taka tillit til neytendanna. Þeir eru verstir, mér liggur við að segja verstu dónar, sem vaða uppi í n. með rosta, menn, sem settir hafa verið til að ráðstafa þessum málum, eru ekkert annað en rostinn og hafa engra hagsmuna að gæta í þessum efnum. Ég er alveg sannfærður um, að ef bændur hefðu verið í meiri hl. í mjólkursölunefnd, þá hefði þeim ekki dottið í hug að láta Alþfl. hirða ágóðann af brauðsölunni. (JJ: Bændurnir eru þar í meiri hl.). Hv. þm. S.-Þ. felist jafnan á allan misskilning, og ekki sízt, ef hann er móti eigin sannfæringu hans, enda er það von, því hann sest aldrei hér í d. og veit ekkert, hvað hér fer fram. Ég skal ekki segja, hvort sumir þeirra eiga að teljast fara þar með umboð bænda, en það sér hvergi á, úr því þeir taka sig til og einoka í mjólkurbúðunum fyrir eitt einasta brauðgerðarhús, eins og tilgangur þeirra var, þó þeir yrðu að láta undan. Vitanlega var sjálfsagt, úr því samsalan setti upp búðir, að selja þar brauð frá öllum brauðgerðarhúsum í bænum, en það var flokkssjóður Alþfl., sem þurfti að komast að. Ég veit ekki, hvort hv. frsm. ætlast til, að mjólkurmálið sé rætt hér, en það er rökrétt afleiðing af frv. því, sem hér liggur fyrir, og ef einn talar um eitthvert mál, koma hinir á eftir, alveg eins og ef ein kind er leidd út í vatn, renna hinar á eftir. Þetta er aðeins rökrétt afleiðing af því, hvernig þetta mál var tekið hér upp í frv. Hingað til hefir n. blandað og ríkið borgað, nú á að breyta til og framleiðendurnir eiga að borga, og þá eiga þeir líka að ráða. Ég vildi sýna fram á þau rök hér, að það er rétt, að þeir beri kostnaðinn, sem hafa valdið, og þeir fái valdið, sem bera kostnaðinn.

Ég er hér sem fulltrúi neytenda landbúnaðarafurða yfirleitt, og þó ég sé sjálfur neytandi, vil ég margfalt heldur, að framleiðendurnir ráði sjálfir en ýms aðskotadýr, eins og nú er, sem engra hagsmuna eiga að gæta. Ég veit t. d. ekki, hvað fulltrúi S. Í. S. á að gera inn í þessa n. Það má kannske til sanns vegar færa, að ýmsir menn í því séu bændum velviljaðir, en annað er það nú ekki.

Hæstv. fjmrh. er hér nú ekki við. Það er siður þessara herra að koma hér inn til að gusa úr sér, og stökkva síðan í burtu. Það vill til, að það er ekki margt, sem ég þarf að svara af því, sem hann með sínum einkennandi dæmalausa derringi sagði, að af því hann hefði ekki hugsað það, gæti það ekki verið rétt, heldur hlyti það að vera heimska, þó hann þættist geta skilið, að rétt væri og eðlilegt, að framleiðendurnir réðu. Hann þóttist geta lesið það út úr ræðu minni — sem getur vel verið, að hann hafi gert með því að snúa henni um —, að Alþingi ætti að kjósa þessa n., og það væri engin trygging fyrir því, að kosnir yrðu framleiðendur. Það þarf heldur ekki að verða, þó að þeir kjósi í n., sem hlut eiga að máli, það komi þannig út. Það er alls ekki víst.

Hæstv. ráðh. taldi óheppilegt og óhentugt, að tómir framleiðendur réðu, því þeir kæmu sér aldrei saman. Þetta varð dálítið einkennilegt í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði, að bændur hefðu nú meiri hl. í n. Og mér þykir undarlegt, ef þeir mega þá ekki skipa meiri hl. eftir eða samkv. brtt. minni; mér finnst það alveg eins vel geta gengið, úr því þeir hafa meiri hl. nú. — Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, ég skal ekki fara út í að svara heimskulegum og ósanngjörnum hnútum; ég sé ekki ástæðu til þess að eltast við að svara þeim hugsanagraut og þvættingi eins og mikið af því hefir verið, sem sagt hefir verið móti brtt. minni. Það liggur ekki fyrir, hvort heppilegra sé, að framleiðendur greiði þennan kostnað eða ekki. Um það eru allir sammála, en ef þeir borga, þá eiga þeir að ráða, og það er sú regla, sem ég set fram hér í till. ég geri ekki ráð fyrir, að borið hafi verið fram frv. í þessa átt, nema þeir viti, hvað í því felst, og það vil ég fá fram.