25.03.1935
Efri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég lét það þegar í ljós við 1. umr., að ég væri mótfallinn þessu frv. Fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að ég liti svo á, að sú minnsta aðstoð, sem ríkisvaldinu bæri að veita þessum tveimur höfuðatvinnuvegum okkar, landbúnaði og sjávarútvegi, væri það, að kostnaður við þessi nefndarstörf væri greiddur af þjóðfélaginu í heild, og það því fremur, þegar ekkert hefir greiðzt úr fyrir atvinnuvegum þessum síðan nefndirnar voru skipaðar. Það er og vitanlegt, að velmegun þessara tveggja atvinnuvega er undirstaða þess, að ríkissjóður fái fé til sinna framkvæmda. Það stendur líkt á um þá og bóndann. Bóndinn þarf að fóðra búfénað sinn vel til þess að hann gefi arð. Það þarf að hlynna að atvinnuvegum eftir því sem föng eru til, svo ríkissjóður geti fengið sínar tekjur. Ég drap á það við 1. umr., að það yrði að vera náið samband á milli þess, hvernig kostnaðurinn við n. þessar væri greiddur og hvernig í n. væri skipað. Það yrði að fylgjast að réttindi og skyldur. Það gæti þannig ekki talizt sanngjarnt að láta atvinnuveg, sem ekki fengi ráð á nema 1—2 fulltrúum í hverja 5 manna n., greiða kostnaðinn við hana að öllu leyti, þar sem hinir fulltrúarnir í n. væru valdir af öðrum aðilum. Þetta sjónarmið hafði stj. og Alþingi viðurkennt á síðasta þingi með setningu mjólkurlaganna, þar sem framleiðendur völdu þrjá af sjö í mjólkursölunefnd, og greiddu ekki heldur nema 3/7 hluta kostnaðarins. Þann stutta tíma, sem liðinn er frá því að þetta var samþ., hefir lítið breytzt. Getur því ekki verið um að ræða að ganga lengra í þessu efni en að láta framleiðendur greiða hlutfallslega við það, hvað þeir eiga marga fulltrúa í n. Hinsvegar væri það vitanlega eðlilegast, að hlutaðeigandi atvinnuvegir réðu mönnunum sjálfir í þessar n., og þá fyrst væri talandi um, að framleiðendurnir greiddu allan kostnað við þær. Að framleiðendur ráði ekki einu sinni meiri hl. í nefndirnar, en greiði þó allan kostnað við þær, verður að teljast mjög ósanngjarnt. Það væri því nokkur bót, ef samþ. væri brtt. á þskj. 267, þar sem svo er ákveðið, að þetta ákvæði frv. komi þó því aðeins til framkvæmda, að eigendur afurða þeirra, sem í hverju tilfelli ræðir um. hafi meiri hl. í hlutaðeigandi n. og geti því haft vald á framkvæmdum öllum og kostnaði, sem n. stofnar til. Í nágrannalöndunum, t. d. í Noregi, er svo til ætlazt, að framleiðendur hafi yfirráð í öllum þeim n., sem hafa með höndum sölu landbúnaðarafurða. Þar greiða hlutaðeigandi atvinnuvegir líka allan kostnað af nefndunum. En þegar svo er ástatt sem hér, að framleiðendur skipa ekki svo mikið sem lítinn meiri hl. í einni einustu n., sem við mál þessi fást. Þá verður að teljast fullkomlega ósanngjarnt að leggja þennan kostnað að öllu leyti á herðar þeirra. Því að það má alveg ganga út frá því sem gefnu, að ef framleiðendur fengju sjálfir að fjalla um þessi mál og ráða þeim, myndu þeir í ýmsu haga framkvæmdunum öðruvísi en nú er gert, með tilliti til þess, að kostnaðurinn yrði sem minnstur. Ég get t. d. hugsað mér, að þeir, sem landbúnað stunda, myndu vilja hafa færri menn í n. en þær skipa nú.

Hv. 4. landsk. vildi halda því fram, að bændur hefðu t. d. enga hugmynd um hvernig bezt væri að „organisera“ mjólkursöluna. Þetta og þvílíkt er af lítilli þekkingu mælt, því að ég veit ekki betur en að bændur hafi í mörgu sýnt það, að þeir séu fyllilega færir um að koma skipulagi á mál sín. Það sýnir kaupfélagsskapurinn bezt o. fl. o. fl. benda má á það, að í því héraði, þar sem bændur fara einvörðungu með þessi mál, — á ég þar við Eyjafjörð — hefir að ég hygg aldrei hlaupið snurða á, og útkoman er þar svo ákjósanleg, að vel mundi mega við það una, ef tiltölulega eins góð útkoma væri annarsstaðar.

Að svo sé, sem hæstv. fjmrh. komst að orði, að fyrirkomulagið á skipun n. sé svo gott, að það geti ekki verið betra en nú er, það hygg ég, að jafnvel hans flokksmenn geti fallizt á, að sé fullmikið sagt. Þó að um sumar þessara n. kunni að hafa tekizt allvel, eftir því sem ástæður voru til, þá hygg ég, að jafnvel hæstv. fjmrh. sjálfur muni geta fallizt á, að þetta var of mikið sem hann sagði, því að svo mikið er víst, að jafnvel þessir bændur, sem hv. 4. landsk. talaði um með lítilli virðingu, jafnvel þeir þykjast áreiðanlega sjá leiðir til að hafa betra fyrirkomulag t. d. á tilhögun mjólkursölunnar heldur en nú er. (JBald: Hvaða bændur?). Ég get aðeins minnt á þá fundi, sem haldnir hafa verið, t. d. fund, sem haldinn var fyrir skömmu af sameinuðum fulltrúum frá mjólkurbúum Suðurlands, úr Borgarfirði, Gullbringu- og Kjósarsýslu og Árnessýslu. Þar hygg ég, að þeir menn hafi verið í allmiklum minni hl., sem líta svo á, að fyrirkomulag þessara mála sé svo gott, að það geti ekki betra verið en nú er.

Það kom fram hjá hv. 4. landsk. allmikill ótti við það, ef bændur hefðu með þessi mál að sýsla, þá mundu þeir nota sína aðstöðu til þess að þrengja að neytendunum. Ég hygg, að reynslan, m. a. reynslan frá Eyjafirði, hafi sýnt, að bændur eða framleiðendur, þegar þeir hafa þessi mál í sínum höndum, stjórna þeim fyrirtækjum svo, að neytendur hafa síður en svo yfir nokkru að kvarta. Þeir gera það ekki aðeins af sjálfsagðri sanngirni í garð neytendanna, heldur líka vegna þess, að þeir líta jafnframt á sinn eiginn hag. Þeir óska ekki eftir að sprengja verðið svo hátt upp, að það dragi úr neyzlunni. Það er algilt verzlunarlögmál, og það er þessum framleiðendum jafnkunnugt sem þeim, er sitja á þingi.

Ég held því fram, að eðlilegast sé, að þessi kostnaður sé greiddur af þjóðfélaginu í heild, en ég mun þó eins og málið horfir við greiða atkv. með brtt. á þskj. 267.