25.03.1935
Efri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfir.]:

Án þess að fara að ræða mjólkurmálið almennt, þá finnst mér ég ekki geta látið hjá líða að svara með nokkrum orðum ummælum hv. 10. landsk. Í ræðu þessa hv. þm. kom fram sem sagt sú endurtekna blekking, að framleiðendur ráði ekki yfir sínu eigin mjólkursölumáli í bænum. Ég vil í því sambandi benda á, að í mjólkursölun. eru 7 menn. Þar af eru tveir tilnefndir af búunum vestan og austan fjalls, sem sé Eyjólfur Jóhannsson og Egill Thorarensen í Sigtúnum. Sá þriðji er tilnefndur af þeirri stofnun, sem er sérstaklega stofnun bænda, sem sé Sambandinu. Ég staðhæfi, að sá maður sé mjög góður fyrir bændur, það er Árni Eylands, — eða vill hv. 10. landsk. neita, að svo sé? Fjórði maðurinn er síra Sveinbjörn Högnason, sem hefir sem bóndi stórfelldra hagsmuna að gæta, að þetta allt gangi sem bezt; hann er einn af stærstu kúabændum fyrir austan fjall. Hér eru þá taldir upp fjórir, en það er meiri hl. í n., og þá er þó sleppt Hannesi Jónssyni, sem ég tel, að muni hugsa um hagsmuni bæði framleiðenda og neytenda. Þegar því er verið að tala hér um, að bændur fái ekki að ráða þessum málum sínum, þá er ekki hægt að neita því, að það er fullkomin blekking. Og þegar er verið að ræða um það, að þeir hefðu ráðið miklu betur, ef þeir hefðu fengið að tilnefna mennina „beint“, eins og það er orðað, þá er það líka blekking, vegna þess að þeir hafa tilnefnt tvo menn beint, eftir því sem meint er með þeim orðum, en það eru þeir menn, sem mjólkurbú bændanna hafa tilnefnt, og því ekki síður sá, sem tilnefndur hefir verið í gegnum Sambandið. Fjórði maðurinn er að vísu tilnefndur af landbúnaðarráðh., en hann er þó einn af bændunum á Suðurlandsundirlendinu. Og hvað er svo verið að tala um, að bændur hafi ekki fengið að ráða yfir þessum málum? Hverjir eru það aðrir en bændur, sem ráða meiri hl. í nefndinni?

Nei, það er þýðingarlaust að reyna að slá fram blekkingum um þetta atriði, því að það er óneitanlegt, að búin sjálf hafa fengið tilnefnda menn, sem fara með mjólkursöluna. Og að vissu leyti hefir þetta málefni og þessar kröfur verið byggðar á misskilningi, eins og ég hefi sýnt fram á. En það, sem óneitanlega hefir verið gert í þessu máli viðvíkjandi sölu mjólkurinnar, er einmitt það sama og hefir verið gert í síldarsölumálinu og fisksölumálinu. Hvers vegna hefir ekki orðið samkomulag þar? Vegna þess að í þessum málum eru talsvert dreifðir hagamunir, þó að margir séu sameiginlegir. Baráttan verður því nokkuð mikil innbyrðis um það, hverjir eigi að ráða, hverjir eigi að vera ofan á fyrir hin mismunandi sölusvæði fyrir mjólkina. Alveg eins hefir þetta verið með fiskinn og síldina. Það, sem baráttan snýst í raun og veru um, er þess vegna það, að ef kosið er fulltrúaráð, þá verður um það barizt, hver geti orðið ofan á, hver eigi að ráða, hvernig verðjöfnunargjaldið verður, hvernig sölunni verður skipt niður á mismunandi svæði og ýmislegt fleira, sem snertir hagsmuni þessara aðilja, sem þar eiga hlut að máli.

Það er því enginn efi, að ef farið er inn á þá leið, verður ástandið svipað og að var í Mjólkurbandalaginu áður. Hagsmunir þeirra réðu, sem eru í meiri hl. Þeir mundu kveða þar upp dóm í sínum eigin málum, en hinir yrðu undir, sem eru í minni hl. Og það er vísasti vegurinn til að sprengja samsöluna til fulls, ef samkomulagið yrði þannig eins og það var áður í Mjólkurhandalagi Suðurlands. Þess vegna er það, að þótt fyrir liggi till. í mjólkurmálinu, þá hafa samt sem áður verið tekin burt öll þau verkefni, sem ætluð voru þeirri n., sem bændur sjálfir óskuðu að skipa, eins og það var orðað. Þau hafa öll verið tekin úr þeim breyt., sem nú liggja fyrir í Nd., þrír menn skulu annast söluna, en öllum ágreiningsatriðum skotið til mjólkursölun. Það er ekki ætlazt til þess, að þessi margumtalaða n. bænda ráði neinu um stærstu atriðin viðvíkjandi mjólkursölunni.

Það var viðurkennt á þessum fundi af þeim, sem greiddu atkv. með þessu, að þeir, sem tilnefndir væru af bændum til að fjalla um þessi mál, — því var margsinnis yfir lýst af þeim, að þeim dytti ekki í hug að greiða atkv. með því, að aðrir en n. færu með vandasömustu atriðin, því að þá yrði aldrei samkomulag um málið. Það yrði að vera dómstóll óhlutdrægra manna, en ekki láta ráða atkvæðamagn ýmissa svæða. (MJ: Er mjólkurmálið á dagskrá?). Það var ekki á dagskrá, en það var dregið inn í umr. Ég hefi reynt að komast hjá að ræða um það, en það er ekki hægt að komast hjá því, þar sem haldin er ræða eftir ræðu, þar sem það er staðhæft, sem hefir ekki við nein rök að styðjast.

Þess vegna er það, að ég er ekki í neinum minnsta vafa um, að þessi krafa, sem hefir verið uppi um það, að bændur ættu að tilnefna menn beint. eins og hv. 10. landsk. talar svo mikið um, hún er svona bráðabirgðafluga, sem hefir ekki við mikil rök að styðjast. Og það get ég staðhæft, eftir að hafa kynnzt fyrirkomulagi mjólkursölunnar, að þótt ýmislegt standi þar til bóta, eins og vænta má, þá er árangurinn þegar í stað orðinn svo góður, að það verður varla mikil óánægja, þegar þetta skipulag er farið að sýna sig til lengdar.

Ég vil einnig taka það fram, að samkv. þessari röksemdafærslu, og þar sem vitanlegt er, að framleiðendurnir hafa meiri hl. í mjólkursölun., þá álít ég brtt. á þskj. 267 óþarfa og tel rétt að fella hana.

Þá vil ég víkja að því, sem hv. 1.þm. Reykv. bar hér fram. Hann sagði, að eitt af því, sem framleiðendurnir mundu gera, ef þeir fengju mjólkursöluna í sínar hendur, væri að borga sérstakt gjald fyrir að selja mjólkina, en sjálfir engan vanda af því hafa. Þetta fyrirkomulag var hér áður og borgaðir 6—8 aurar fyrir það á hvern lítra. Ég skal ennfremur upplýsa það, því að það er alls ekki þýðingarlaust í þessu sambandi, að þetta fyrirkomulag hefir verið haft í Hafnarfirði. Ýmsir voru þeirrar skoðunar, að þetta ætti líka að taka upp hér. Það hefir verið bent á, að ef þetta hefði verið tekið upp, samið við bakarana að selja mjólkina fyrir 2 —3 aura, þá hefði mjólkursalan þar með verið algerlega komin í hendur bakaranna, og þeir hefðu getað stöðvað hana hvenær sem var. Þeir gátu sagt hvenær sem var: Nú seljum við ekki fyrir minna en 4 aura. Þannig var það í Hafnarfirði. Þar sögðu þeir um daginn: Við heimtum hækkun, og verði ekki hækkað, þá stöðvum við söluna í Hafnarfirði. Eitt af því, sem þeir notuðu til að hræða með, var það, að þeir höfðu alla mjólkursöluna í sínum höndum, svo að þeir gátu stöðvað allt hvenær sem var. Þeir réðu yfir öllum búðunum, og var ekki hægt að ná þeim af þeim nema með löngum fyrirvara. En af því að þetta er ekki svo stórt „system“ í Hafnarfirði, þá var allt viðráðanlegra. Þá var sagt við bakarana: Þið skuluð svara eftir tvo daga, hvort þið haldið áfram að selja eða ekki. Og svo hafa þeir haldið áfram. En hefði þetta gerzt í Rvík, þá hefði verið hagt með þessu móti að stöðva söluna og eyðileggja hana um ófyrirsjáanlegan tíma, svo að það fyrirkomulag, sem hér hefir verið bent á sem sérstaklega æskilegt, að láta bakarana selja gegn ákveðnu umboðsgjaldi og afhenda þeim þannig allt valdið í þessu máli, það hefir sýnt sig, hvernig það reynist, ef á að gegnumfæra það. Það sýndi sig í Hafnarfirði, hvernig það reyndist þar, þar sem var þó minni mótstaða. En ef það kæmi fyrir hér í Rvík, þá væri ómögulegt að standa á móti því nema með því að hækka sölulaunin eða þá að reyna að taka búðirnar í sínar hendur með því stórtjóni, sem af því leiddi.

Nei, ég held, að það sé áreiðanlegt, að þessi leið, sem hv. 1. þm. Reykv. bendir hér á sem svo sérstaklega ákjósanlega, hún hefði ekki leitt til neinnar gæfu. Hún hefir nú sýnt sig í Hafnarfirði, hversu heilladrjúg hún er, og sannað þar með að við, sem vildum ekki þegar í upphafi ganga þessa leið, höfðum þar við gild rök að styðjast.

Þó að margt megi að samsölunni finna, þá hygg ég samt, eftir að ég er búinn að fara í gegnum fyrirkomulag og reikninga samsölunnar, að óþarfi sé að vera smeykur við að standa með þeim mönnum, sem þar standa að, að hún er í tiltölulega góðu lagi. Þó að ýmislegir gallar kunni að vera á, sem sjálfsagt er að bæta úr, þá er ég undrandi, hvað mikið hefir áunnizt, þegar þess er gætt, undir hvaða kringumstæðum Samsalan hefir starfað. Nú eru borgaðir út 26 aurar fyrir lítrann til bænda í Mosfellssveit, en áður 24,4. Þó borga þeir 3 aura í verðjöfnunargjald. M. ö. o., það eru 5 aurar, sem þar hafa græðzt. Nú er mér sagt af mjólkursölun., að hún muni hiklaust geta aukið útborgunina, jafnvel þó að mikill og óeðlilegur kostnaður hafi fallið á framan af vegna þeirrar baráttu, sem orðið hefir að standa í. (ÞÞ: Er það borgað til dags dato?). Það er gott að fá þessa fyrirspurn fram, og ég get svarað henni strax á þá leið, að það er borgað til dags dato. Ég skal ennfremur geta þess, að ég hefi fengið reikninga yfir stofnkostnað Samsölunnar, bíla, vagna, innréttingar í búðum o. fl. samtals 36000 kr., og vegna þess að talsverð barátta hefir staðið um þetta, þá taldi ég mér skylt að fá þessa reikninga. Ég get því sagt hv. þm. Dal. það, að þær raddir, að Samsalan sé langt á eftir með greiðslur, hafa ekki við hin minnstu rök að styðjast. Ef nokkuð er, þá hefir hún úr dálitlu að spila og getur bætt nokkru við heldur en hitt, það staðhæfi ég.