25.03.1935
Efri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég þarf ekki að svara þessu með öðru en að leiða athygli að því, að hv. þm. N.-Ísf. svaraði sér sjálfur. Hann sýndi fram á, að það hefðu komið fram till. (Það er sama, frá hverjum þær voru), sem gerðu það að verkum, að ekki gat orðið samkomulag. Þessu hafði ég haldið fram, og hv. þm. hefir viðurkennt það. En spádóma um það, hvernig fisksölumálunum muni reiða af, fer ég ekki út í.

Viðvíkjandi sölu á þeim gamla fiski, sem liggur hér á landi, vil ég segja, að það nær engri átt, að það sé nokkur uppgjöf á skipulaginu, þótt Union hafi verið fengin til að selja hann. Það getur vel verið, að illa takist um fisksölumálin, eins og nú er fyrirkomulagið. En ég býst við, að það takist þó betur 1933 en 1934, því að hvernig er ástandið nú? Hefir nokkurn tíma legið hér jafnmikið af óseldum fiski og nú, og sumt undir skemmdum?

Það, sem alltaf hefir verið deilt um í þessu sambandi. er það, hversu sanngjarnlega sé skipt útflutningnum á framleiðendur. Þetta er samskonar deila og sú, sem er um mjólkurmarkaðinn hér og það, hver eigi að sitja fyrir honum. Þessar deilur hafa orsakazt af því, að nokkrir framleiðendur töldu sig hafa orðið útundan.

Annars mun ég ekki fara frekar út í þau mál.