25.03.1935
Efri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég verð að segja, að ég er alveg undrandi yfir þessum umr. Ég ber fram till. þess efnis, að rökrétt afleiðing sé dregin af ákvæðum þessara l. Ég vil, að framleiðendur ráði nokkru um það, hve mikill sá kostnaður skuli vera, sem þeir eiga að leggja út í. Ég upplýsi með dæmum, að þetta er regla, sem jafnan hefir verið fylgt. Hér er ekki einu sinni um það að ræða, hvort rétt sé að hafa þetta skipulag eða ekki. — En út af þessu spinnast svo langar umr. um mjólkurmálið, fisksölumálin o. fl., án þess að ég hafi nokkurt tilefni til þess gefið.

Hv. frsm., 4. landsk., hefir dregið mjólkurmálið inn í umr., og er erfitt að leiða hjá sér að svara því nokkrum orðum. Hér voru í sumar sett bráðabirgðal., og þessi brbl. voru svo undarleg, að þau áttu ekki að koma til framkvæmda fyrr en að afloknu þingi, því að málið þurfti svo mikinn undirbúning. Svo þegar búið er að undirbúa málið í hálft ár, verður enn að fresta því í hálfan mánuð. Eftir allan þennan undirbúning lendir þó allt í slíkum ólestri, að þeir, sem öllu áttu að stjórna, höfðu ekki hugmynd um, hvað gera skyldi. Menn fengu ekki mjólk í lengri tíma, og sumt af ráðstöfunum þessara forráðamanna var þannig, að telja verður í hæsta máta vafasamar framfarir, svo sem miðalda-„systemið“ með handvagnana, sem kostuðu þúsundir króna, en eru nú ýmist loklausir eða hjóllausir, eða þá alls ekki til lengur.

Út af öllu þessu varð svo, sem von er til, megnasta óánægja í bænum. Þá sýnir mjólkurn. greinilegast, hve hún var lítt vaxin starfi sínu. Í stað þess að taka þessu sem prúðum mönnum sæmdi, að lofa bót og betrun og reyna að kippa þessu í lag, hella þeir yfir neytendurna óbótaskömmum, segja, að öll þessi óánægja sé komin frá nokkrum íhaldskerlingum o. s. frv.

Hver, sem nokkurn áhuga hefði haft á að leysa þessi mál, hefði reynt að koma öllu þessu í skárra horf, laga misfellurnar og komast að samkomulagi. En þeir svöruðu illu einu, og undir forustu núv. fors.- og landb.ráðh. er þetta enn í sama ólestrinum. (Forsrh.: Hvað er sérstaklega í ólestri?). Hæstv. ráðh. veit það auðsjáanlega ekki fremur en hitt, hvers vegna við seljum nú ekki jafnmikinn fisk og áður. Einn maður bar fram till., sem ekki var samþ., og svo ályktar hæstv. ráðh., að löggjafarvaldið þyrfti að grípa inn í. En skyldi þá allur ólestur vera búinn um leið og löggjafarvaldið grípur inn í? Finnst honum allt vera komið í lag? Hvernig stendur þá á öllum þessum fundum? Allir, bæði neytendur og framleiðendur, að undanteknu einu mjólkurfélagi, hafa krafizt, að þessu skipulagi yrði breytt. Þeir, sem þessu hafa komið á, bera alla ábyrgð á því.

Ef hæstv. ráðh. kallar það, að einn maður bar fram till., sem ekki náði samþykki, svo mikið ósamkomulag, að löggjafarvaldið hafi orðið að grípa í taumana, hvað kallar hann þá þetta?

Þá sagði hæstv. ráðh., að bændur réðu öllu um þessi mál. Það getur verið, að form. n., Sveinbjörn Högnason, sé bóndi, en í þessu máli hefir hann komið fram sem pólitíkus. Eins er með hinn ágæta fulltrúa neytenda í n. Hann hefir líka kosið að vera pólitískur. Og þetta hefir einmitt mest spillt þessari n., að í hana hafa verið skipaðir menn, sem haft hafa fyrir augum hagsmuni pólitískra flokka, en ekki neytenda.

Hæstv. ráðh. sagði, að búið væri að hækka verðið til bænda og greiða þeim það. Það er þá alveg nýverið. Það heyrðist nýlega, að samsalan hefði orðið að fá sér lán til þess að geta borgað allan kostnað. Það getur vel verið að allir útreikningar hæstv. forsrh. séu réttir, en ef svo er með þeirri aðferð, sem notuð hefir verið, hversu mikið gagn hefði þá getað orðið af friðsamlegri skipun mjólkursölunnar og brauðsalan ekki gerð pólitísk og sett í samband við hana. Hvað hefði þá mátt segja um dreifingarkostnaðinn, ef forráðamennirnir hefðu þar hagað sér eins og menn? Hv. frsm. meiri hl. sagði, að mjólkursalan hefði verið boðin út. Þetta er ósatt. Það var aðeins rabbað um það við nokkra brauðsalana, hvort þeir vildu taka að sér mjólkursöluna. En hún var aldrei boðin út á venjulegan hátt, þar sem ætlazt er til, að lögð séu inn skrifleg tilboð, sem svo eru opnuð í viðurvist þeirra, sem tilboðin gera, á fyrirfram ákveðnum degi. En brauðsalarnir skrifuðu þó mjólkurn. og gátu þess, að þeir mundu gera kost á að selja mjólkina fyrir sama gjald og aðrir biðu. Þetta vildi n. ekki taka til greina. En til hvers var fyrir menn að senda ákveðin tilboð, þegar ekki átti að opna þau á tilteknum tíma, heldur jafnóðum og þau bárust n.? Nú er einn nm. brauðsali og gat því dregið að leggja fram sitt tilboð þar til hann var búinn að sjá öll hin, og gat því sniðið sitt tilboð eftir þeim. Enda fór það svo, þegar ákveðið var, hvaða tilboðum ætti að taka, þá valt síðast á atkv. þess, sem brauðin seldi. Þetta er því hreint hneykslismál, þó n. sæi sér ekki annað fært en draga nokkuð inn seglin og leyfa fleiri brauðbúðum mjólkursölu til var ætlazt í fyrstu.

Það er ekki rétt, sem hæstv. forsrh. sagði eftir mér, að ég vildi allt í umboðssölu. Ég þekki ekki svo vel til í Hafnarfirði, að ég geti sagt um, hvernig málið horfir þar við.

Ég hefi nú skrifað hér niður hjá mér nokkra fleiri punkta, en mun þó ekki fara lengra út í þetta mál, þar sem það er ekki á dagskrá, en það var búið að draga það svo inn í umr., að ómögulegt var að ganga framhjá því.

Ég vil vekja athygli hæstv. ráðh. á því, að hann bakar sér mikla ábyrgð með því að standa í vegi fyrir, að samkomulag náist í mjólkurmálinn. Það á eftir að sýna sig á sínum tíma, að með því hefir hann tugi þúsunda af mjólkurframleiðendum. Ef þannig verður fram haldið, er fyrirsjáanlegt, að það leiðir til þess, að markaðurinn eyðileggst hér í Rvík, því það er óhugsandi í landi, þar sem þó á að telja lýðfrelsi, að kúska menn til þess að hlýða l., sem allir eru sammála um, að séu ósanngjörn og óheppileg, því neytendurnir eru óánægðir og framleiðendunum blæðir bæði hér í nágrenni og um allt Suðurland. En ég vona, að áður en til þess kemur fái skynsamir menn það til umráða. — Ég vil svo að lokum óska, að þessi mál lúkist á þann hátt, sem öllum aðilum má verða að beztu gagni. Ég vil svo leiða athygli hv. þdm.brtt. minni. Ég bíð með eftirvæntingu eftir að sjá, hvort þeir telja ekki sanngjarnt og sjálfsagt, að þeir sem bera kostnaðinn, hafi yfirráðin í framkvæmdastjórninni.