25.03.1935
Efri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Frsm. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Það hafa 3 hv. dm. vikið að mér í ræðum sínum. Var þar fyrstur í flokki hv. 10. landsk. Það er tvennt úr ræðu hans, sem ég vildi svara, og er þó heldur lítilfjörlegt. Sagði hv. þm., að ég hefði talað óvirðulega til bænda, og ætlaði að sanna það með því að slíta úr samhengi tvö orð í ræðu minni, orðin „þessir bændur“, og taldi, að í þeim fælist lítilsvirðing. Þetta er ákaflega líkt þessum hv. þm. og framkomu hans hér á Alþ., að snúa þannig út úr og affæra það, sem sagt er. En meðan hann var ráðh. sýndi hann, hve gersamlega óhæfur hann var sem forsvarsmaður bændanna og þröngsýnn og skilningslaus í till. fyrir þeirra hönd, jafnframt þeirri lítilmennsku að rægja þá við aðrar stéttir.

Þm. var að benda á dæmi frá Eyfirðingum. En það er nokkuð öðru máli að gegna, þar sem er takmarkað lokað svæði. En þar eru nógu víðsýnir og skilningsgóðir menn til þess að sjá, að ef Skagafjörður fær greiðan aðgang að mjólkurmarkaðinum á Akureyri, verður þetta ekki eins einfalt mál fyrir K. E. A. (MG: Það er bílvegur á milli). En ekki eins góðar samgöngur og hér. Þar var tiltölulega auðvelt fyrir duglegan mann, sem bændur báru traust til, að koma skipulagi á þessi mál, vegna þess að svæðið, sem framleiðir mjólkina, er hæfilega stórt. Þessi samanburður hv. þm. sýnir því aðeins skilningsleysi hans á þessum málum.

Þá skal ég víkja nokkrum orðum að hv. landsk. Ég tek það að sjálfsögðu sem mikið „kompliment“, að hv. þm. skuli beina því til Alþfl., að frá okkur sé að vænta kröfu um lækkun mjólkurinnar, og það gerir hv. þm. líka með réttu. Það hefir orðið lækkun á mjólkinni. Hv. 1. þm. Skagf. er ekki svo ófróður um málefni bænda, að hann viti ekki, hvernig verðlagið á mjólkinni var í fyrra og er nú. (GL: Meiru var lofað!). Þegar mjólkursamsalan tók til starfa, þá var fyrst að vænta einhverrar lækkunar á mjólkinni, en hv. 5. landsk. og blöð Sjálfstfl. snérust þegar í öndverðu gegn þessu fyrirtæki og fjandsköpuðust gegn því. Sjálfstæðismenn gerðu allt, sem í þeirra valdi stóð, til þess að þyrla upp óhróðri í kringum samsöluna, sem gerði það að verkum, að ekki var eins auðvelt að framkvæma verðlækkun á mjólkinni og ella hefði verið. En svo þegar sjálfstæðismönnum tókst ekki að spilla nægilega fyrir samsölunni með sínum auðvirðilegu blaðaskrifum um hana, þá gripu þeir til þess óyndisúrræðis, sem kom samsölunni verst, en það var að fá húsmæðurnar í Reykjavík til þess að neita að skipta við samsöluna. Hv. 5. landsk. og Morgunbl. standa fyrir þessari fríðu sveit, svo sem kunnugt er, og árangurinn hefir orðið sá, eftir því sem hv. þm. segir, að um 700 kvenna í þessu félagi hafa reynt að takmarka við sig mjólkurneyzlu og á þann hátt gert sér far um að spilla því, að hægt verði að færa mjólkurverðið niður hér í bænum. Eðlileg afleiðing af takmörkun mjólkurneyslu hjá fjölda húsmæðra hlýtur óhjákvæmilega að vera örðugleikar á allri lækkunarviðleitni á mjólkinni. Enda þótt þessar þokkalegu tilraunir hv. 5. landsk. og sjálfstæðismanna hafi að vísu ekki borið tilætlaðan árangur, þá er samt söm þeirra gerðin. Það eru sömu tilraunirnar fyrir því, þótt húsmæðurnar hafi verið það forsjálar og hyggnari en forsprakkar sjálfstæðismanna í þessu máli að sjá, að engin skynsamleg rök lágu fyrir þessu mjólkurverkfalli. (MJ: Það er gaman að heyra hv. þm. tala um verkfall). Það tókst illa hjá hv. þm. að „organisera“ þetta verkfall, enda var málstaðurinn ekki sem beztur. Því er þannig farið um verkföll, að þau þurfa að vera bæði vel undirbúin og framkvæmd fyrir góðan málstað. Verkfall frúnna skorti hvorttveggja í senn, undirbúninginn og góðan málstað. (MG: Hvað er um skaðabótakröfuna að segja?). Það eru eiginlega neytendurnir, sem ættu að fara í skaðabótamál, því að þeir urðu fyrir ýmsum óþægindum í þessu efni vegna blaðaárása sjálfstæðismanna á samsöluna, sem ollu því, að bæjarbúar gátu ekki fengið þá mjólkurlækkun, sem þeir að öðrum kosti hefðu að öllum líkindum öðlazt.

Þá minntist hv. 5. landsk. á kröfurnar frá húsmæðrafélaginu — eiginlega er réttara að segja kröfurnar frá hv. 5. landsk. (GL: Er ég ekki húsmóðir?). Ein af kröfunum var ógerilsneydd mjólk, sem talið var, að hörgull væri á hér í bænum. Mér er sagt, að um mjög langt skeið hafi fengizt ógerilsneydd mjólk, en það getur vel verið, að slitnað hafi samböndin um sölu mjólkur, sem voru áður en samsalan hófst, en það hefir þá stafað af því, að framleiðendur í nágrenni Reykjavíkur hafa frekar kosið að selja mjólkina í samsöluna. Mér hefir verið sagt, að hægt sé að fá nóga ógerilsneydda mjólk frá góðum heimilum.

Þá drap hv. þm. á óánægjuna út af brauðsölunni í sambandi við mjólkursöluna. Hv. þm. gat þó ekki neitað því, að brauðsalan í bænum er fullkomlega frjáls. Það, sem hv. þm. bar mest fyrir brjósti, voru hinar fátæku húsmæður, sem ekki hefðu tíma til þess að fara í aðrar búðir en þær, sem næst væru. Það er svo sem heldur trúlegt, eða hitt þó heldur, að mikillar óánægju gæti hjá húsmæðrum almennt sökum þess, að þær þurfi endilega að kaupa brauð frá þeim búðum, sem hv. þm. telur pólitískt litaðar, sem sé þær, sem selja brauð frá Alþýðubrauðgerðinni, sem hefir átt drýgstan þátt í því halda brauðverðinu í bænum niðri í mörg ár. Árás sú, sem sjálfstæðismenn hér í bænum hafa gert á brauðsölu Alþýðubrauðgerðarinnar, getur orðið þeim afdrifarík. Svo sem kunnugt er, eru kaupsýslumennirnir hér í bænum aðalmáttarstólpar Sjálfstfl. Mér er ókunnugt um, að af Alþýðufl. hálfu hafa nokkurntíma verið hafin herferð á hendur þeim verzlunum hér í bænum, sem sjálfstæðismenn reka.

Þá minntist hv þm. á gjaldfrestinn. Ég sagði, að það væri talsvert ólag í því efni. En þar sem hagsmunir neytenda eru hinsvegar í húfi, og allt veltur á því fyrir þá, að samsalan takist vel, þá er það auðsætt mál, að nauðsynlegt er, að nógir peningar fáist fljótt, því að þá eru meiri líkindi til þess, að hægt sé að framkvæma mjólkurlækkun. Þetta er mjög veigamikið atriði. Því skal ekki neitað, að af þessu fyrirkomulagi, sem tekið hefir verið upp, að láta greiða andvirði mjólkurinnar við móttöku, geta stafað dálítil óþægindi, en hinsvegar á ég bágt með að trúa því, að það sé fyrst og fremst fátæka fólkið, sem fær þennan gjaldfrest, sem um er að ræða, svo framarlega að farið verði eftir almennum kaupsýslureglum. Gjaldfrestunin er miðuð við það, að menn hafi von um kaup til þess að borga með. Það eru því aðeins menn, sem eru í fastri atvinnu, sem geta haft von um að verða aðnjótandi þeirra þæginda, sem gjaldfrestur gæti veitt þeim. Það er tilgangslaust fyrir hv. 5. landsk. að reyna að telja mönnum trú um, að sá stóri hópur fólks, sem er atvinnulaus mánuðum saman, hafi yfirleitt það mikið lánstraust hjá kaupmönnum, að hann fengi að verða galdfrests aðnjótandi almennt.

Næst vil ég víkja örfáum orðum að lögsókn þeirri, sem hér um ræðir. Mér þykir ekki ósennilegt, að unnt sé að fá því framgengt, að Húsmæðrafélagið verði dæmt í skaðabætur fyrir það tjón, sem félagið hefir bakað Samsölunni. Nú hefir lögunum verið breytt síðan S. Í. S. fékk ekki dóm á mann, sem álitið var, að hefði skaðað það. Nú nýtur fyrirtæki eins og Samsalan verndar laganna, þannig að menn geta ekki lengur vaðið upp í skjóli laganna, ráðizt á og rægt fyrirtækin án þess að lögin geti haft hendur í hári sökudólganna. En samt telja margir, að sennilega geti Samsalan fengið forsprakka mjólkurverkfallsins dæmda til þess að greiða skaðabætur fyrir að hafa spillt fyrir sölu mjólkurinnar, enda þótt minni árangur hafi fengizt af þeim vinnubrögðum en til var ætlazt.

Þá skal ég minnast lítið eitt á ræðu hv. 1. þm. Reykv. Hann hélt því fram, að till. sín væri órökstudd, sökum þess, að ef framleiðendur ættu að ráða þessu fyrirtæki, þá ættu þeir einnig að fá að ráða þeim kostnaði, sem af starfsemi þeirra leiddi. (MJ: Ef framleiðendur eiga að borga kostnaðinn, þá eiga þeir að ráða honum). Hv. þm. virðist alveg gleyma því, að Samsalan snertir bæði hag framleiðenda og neytenda. Þess vegna er ekki nema rétt, að báðir aðilar ráði kostnaðinum. Ég álít alveg réttmætt, að þessi einstaka atvinnugrein beri þann kostnað, sem hún hefir í för með sér, alveg eins og kjötsalan ber þann kostnað, sem hún leiðir af sér, og síldar- og fisksalan ber þann kostnað, sem hún hefir í för með sér. (MJ: Um þetta er enginn ágreiningur). Mér finnst hv. 1. þm. Reykv. hafa slegið því föstu, að sér þætti rétt, að þeir, sem borguðu kostnaðinn, ættu þá einnig að ráða þessum málum. Hv. þm. hneykslaðist á því, að séra Sveinbjörn Högnason væri pólitískur fulltrúi neytenda, og þá ekki síður Guðmundur Oddsson, sem hann taldi fyrst og fremst pólitískan fulltrúa neytenda. Hv. 1. þm. Reykv. er farinn að óttast, að menn séu pólitískir og geri öll mál pólitísk. Hann er víst hræddur um, að eitthvað af árásarskrifunum í garð Samsölunnar hafi verið pólitísk! Það er dálítið spaugilegt, að hv. 1. þm. Reykv. skuli hneykslast á því, að menn séu pólitískir! (MJ: Ég hefi ekki sagt það). Það getur verið, að hv. þm. vilji taka þessi orð sín aftur, og tel ég það skynsamlega gert af honum. En hvað sem þessu líður, þá er eitt víst, og það er það, að enda þótt menn séu pólitískir, hefir dreifingarkostnaðurinn á mjólkinni hér í Reykjavík samt minnkað, svo að bændur fá hærra verð fyrir mjólkina en áður, og ég vil fullyrða, að líkindi eru til þess, að neytendur geti einnig fengið lækkun, án þess að bændur missi neitt við það.

Nú vil ég víkja fáum orðum að tilboðunum í brauðin. Frásögn hv. þm. um þetta atriði var næsta kátbrosleg. Hann sagði, að brauðin hefðu aldrei verið boðin út. Bakarar hafa með sér félagsskap hér í bæ. Sá félagsskapur kýs sér stjórn, og kemur hún fram f. h. bakara. Þessa menn kallaði mjólkursamsölunefndin á fund til þess að ræða um það, hvort þeir vildu gera tilboð í brauðasölu í mjólkurbúðum Samsölunnar. Þetta var vitaskuld fullkomið alvörumál og alveg „forretningsmæssigt“, ef ég mætti svo að orði komast. En fulltrúar bakarafélagsins vildu ekki gera tilboð, en ruku í þess stað burt af fundinum án þess að samkomulag næðist um, að þeir seldu brauð í búðum Samsölunnar. Hv. þm. sagði að þeir hefðu bara rabbað svolítið saman á þessum fundi. En þetta var fullkomið alvörumál. Stjórn bakarameistarafélagsins var beinlínis boðuð á fund — eins og ég er búinn að taka fram —, og hún var beðin um að gera tilboð í brauðasöluna. En hún hafnaði alveg þessu boði. Svo þegar mennirnir voru þotnir út af fundinum og sáu, að þeir höfðu hegðað sér eins og bjálfar, þá sáu þeir sig um hönd og sendu þá loks tilboð, sem var eins og tilboð þess lægsta. Ég sé því ekki annað en að það hafi verið fullkomlega rétt hjá Samsölunni að taka bezta boðið. Það er eðlilegt, að við þá sé verzlað, sem höfðu beztu búðirnar í bænum, og á þeim stöðum í bænum, þar sem fólk er flest. Það var þetta, sem Samsalan gerði. (MJ: Hvers vegna var ekki hægt að verzla við alla, fyrst allir buðu sömu kjör?). Ég efast ekkert um, að hver einasti kaupsýslumaður mundi taka eins mikið af einhverri vöru og hann þyrfti hjá þeim, sem fyrst bauð bezt kjör, enda þótt aðrir kæmu á eftir. Þetta er algild regla í viðskiptaheiminum.

Að lokum vil ég taka það fram, að ég óska þess, að frv. verði samþ. óbreytt.