26.03.1935
Efri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Guðrún Lárusdóttir:

Hv. frsm. sagði svo margt skemmtilegt í ræðu sinni í gær, að mér finnst ekki rétt að láta „komplimentum“ hans í garð okkar húsmæðranna alveg ósvarað. Hann talaði um brigðmælgi og svik í sambandi við mjólkursöluna og kenndi Sjálfstfl. um, og virtist hann þar einkum eiga við húsmæðrasamtökin. Þessi ummæli skjóta nú dálítið skökku við þær staðhæfingar stjórnarblaðanna, að húsmæðrasamtökin hafi reynzt með öllu áhrifalaus.

Hann talaði um húsmæðurnar eins og börn, sem ekki þyrfti annað en að segja við: Verið þið góð, annars flengi ég ykkur, — því hann sagði, að þær hefðu átt fyrir því að fá ofanígjöf fyrir þetta tiltæki. En annars var að heyra á hans orðum, að hér væri enginn skaði skeður, því mjólkursalan gengi þrátt fyrir allt upp á það bezta. Samsalan fengi sitt og nægileg nýmjólk væri til í bænum, og þess vegna væri ekki til neins að vera að rífast út af þessu, sem við höfum lagt mesta áherzluna á, að ógerilsneydd mjólk fengist í frjálsari meðferð heldur en nú er. En það eru nú einmitt mikil vandkvæði á þessu. Ég veit um heimili, sem hefir látið fara búð úr búð með læknisvottorð upp á vasann og orðið frá að hverfa án þess að fá einn einasta dropa af þessari nýmjólk, sem á að vera svo mikið til af í bænum. Ég held, að þetta sé því ekki rétt hjá hv. þm., að til sé svona mikil nýmjólk eins og hann vill vera láta. En það er einmitt það, sem við í húsmæðrafélaginu höfum óskað mest ettir, því það er mjög tilfinnanlegt, sérstaklega fyrir barnaheimili, að geta ekki fengið þá vöru refjalaust og vottorðalaust.

Annars þykir mér leiðinlegt að hafa orðið að tala um þetta mál, sem ekki er á dagskránni, og ætla ég mér því ekki að hafa þetta lengra.