26.03.1935
Efri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki fara að svara þessu dæmalausu rausi hv. frsm. n. um Búnaðarfél. Íslands, því nú er komið enn lengra frá efninu heldur en áður. En það eru örfá orð hjá hv. frsm., sem mér finnst ekki megi standa ómótmælt, og það eru sérstaklega þessar tilraunir til þess að varpa skuldinni af öllu ólagi Samsölunnar á samtök húsmæðranna. Það er alkunnugt, að mjólkursölunefndin fer svo með sitt vald, að lofuð mjólkurlækkun af alþfl. hefir orðið að farast fyrir. Með því að veita tugum þúsunda inn í Alþýðubrauðgerðina, þá eru þessar sömu þúsundir teknar frá bændunum, sem annars hefðu fengið þær, ef brauðsalan hefði verið frjáls. Þar af leiðandi var heldur ekki hægt að lækka mjólkurverðið, og svo á að skella allri skuldinni á Húsmæðrafélagið í Reykjavík.

Það væri náttúrlega ástæða til að leggja út af — ekki í stuttri aths., heldur langri ræðu — þessum hugleiðingum hv. frsm. um að beita sektum við því, að menn gerðu samtök um að fá áhugamál sín fram. Hvað ætli hv. þm. segði við því, ef ætti að beita sektum á móti samtökum verklýðsfélaganna, sem hafa viðgengizt á síðustu tímum? En svona eru nú þessir háu herrar, rétt eftir því, hvaða hlið snýr að þeim í það og það skiptið.

Þá var hv. frsm. að tala um þekkingu nefndarmanna í þessum efnum. Það ætti nú ekki að minnast á þekkingu í sambandi við þessa n., vegna þess, að það er alkunnugt, að sá maður, sem hefir mesta þekkingu á þessum málum, hefir að mestu leyti verið borinn ráðum. Og meira þekkingarleysi hefir aldrei komið fram í nokkurri n. heldur en hjá mjólkursölun. fyrstu daga Samsölunnar.

Um Korpúlfsstaðamjólkina ætla ég ekki að segja margt. Það er alkunnugt, að sú mjólk þótti góð. En hvers vegna mátti þá ekki hafa þessa útgengilegustu mjólk á markaðinum? vegna þess, að hér, eins og æfinlega hjá þessum flokki manna, á að rífa niður einstaka menn og fyrirtæki, og þar með þá vitanlega Korpúlfsstaðabúið.

Hæstv. forsrh. hefir nú loksins gert eitt atriði að fráfararsök, sem sé það, að veita engar endurbætur á þessu máli. Og finnst mér það vel við eiga, að þegar stj. gerir eitt atriði að fráfararsök. þá sé það um það, að ekki skuli fást endurbætur á einu máli.