30.03.1935
Efri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Magnús Guðmundsson:

Ég skil ekki, að það geti verið meining forseta að banna að gefa upplýsingar um þann ágreining, sem varð hér í hv. d. við næstu umr. á undan. Þá var að vísu ekki hinn reglulegi forseti. Ég svara því hæstv. forsrh. með nokkrum orðum, þangað til forseti tekur fram í fyrir mér.

Hæstv. forsrh. heldur því enn fram, að fyrra bréfið hafi verið gefið út með tilliti til bráðabirgðalaganna. Þó les hann upp bréfið, dags. 14. jan., það er daginn áður en samsalan tekur til starfa og eftir að bráðabirgðalögin voru fallin úr gildi. vitaskuld er það gefið út til að notast undir samsölufyrirkomulaginn. Þetta segist hæstv. forsrh. hafa gert nauðugur; mér skilst, að mjólkursölun. hafi fengið hann til þess með fortölum. En ég sé ekki, að hann geti neitað, að bréfið er gefið út eingöngu með tilliti til mjólkursamsölunnar, með tilliti til hinna nýju mjólkurlaga, þar sem það er dagsett 14. jan., daginn áður en þau ganga í gildi. En svo eftir mánuð, þegar hæstv. ráðh. kemur heim aftur úr utanför sinni, þá hefir snúizt veður í lofti, og þá tekur hann leyfið aftur með nýju bréfi.

Ég hefi haldið því fram, að þessi tvö bréf, sem hér liggja fyrir, væru ósamhljóða innbyrðis. Ef seinna bréfið er rétt, þá er fyrra bréfið rangt. Bæði geta ekki verið rétt.

Ég hefi svo ekki meira að segja, því að bréfin sanna fyllilega, að það er rétt, sem mig minnti og ég tók fram við 2. umr., hvað sem hæstv. ráðh. segir.

Forseti óskaði eftir því, að umr. snérust um málið sjálft. Ég skal verða við þeirri ósk og get sagt það, að ég greiði atkv. móti frv.

Ég kalla það að fara undir fót við framleiðendur, fyrst að samþykkja ákveðið skipulag sem þeir verða að hlíta, og lofa samtímis, að kostnaður verði borgaður af opinberu fé. En svo eftir 2–3 mánuði er sagt við hina sömu framleiðendur: Nú eigið þið að borga, en skipulagið helzt; þið borgið, en fáið engu að ráða. — Annars er óþarfi að fara nánar út í þetta, frv. var svo mikið rætt við 2. umr. En ég vildi láta í ljós þessa afdráttarlausu skoðun mína.