02.03.1935
Neðri deild: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

27. mál, trjáplöntur og trjáfræ

Guðbrandur Ísberg:

Þess var getið af hv. frsm. við 1. umr. þessa máls, að ég hefði greitt atkv. á móti þessu frv. í landbn. Frv. er að vísu ekki þess vert að eyða um það mörgum orðum. Það gripur ekki verulega inn í verzlunarviðskipti landsbúa almennt, þar sem ekki er um almenna verzlunarvöru að ræða. En hinsvegar felur það í sér sjúklega tilhneigingu, að vilja láta ríkisstj. vera barnfóstru fyrir borgarana, jafnvel í hinum smæstu málum. Hitt eru aukaatriði, sem færð hafa verið fram þessu máli til stuðnings, að á þenna hátt eigi að koma í veg fyrir það, að plöntusjúkdómar flytjist til landsins með innfluttum trjáplöntum. Enda mætti vissulega fyrirbyggja það á annan hátt. Sem sagt, ég er algerlega á móti þeirri stefnu, sem í frv. felst, og greiði atkv. gegn því.