02.03.1935
Neðri deild: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

27. mál, trjáplöntur og trjáfræ

Frsm. (Jón Pálmason):

Ég lasta það ekki út af fyrir sig, þó að nokkrar umr. verði um þetta frv. nú hér í d., svo að það verði ekki fellt umræðulaust eins og á síðasta þingi. Ég hefi fyrir mitt leyti ekkert á móti því.

Það var, eins og við mátti búast, einkasölugrýlan í þessu frv., sem hv. þm. V.-Húnv. beindist ákveðnast á móti; og mátti ráða það af orðum hans, að af því að þar er nefnd einkasala, þá væri sjálfsagt að fella frv. tafarlaust. Ég hefi fyrir mitt leyti ekki farið dult með þá stefnu mína, að ég er andvígur ríkisrekstri yfirleitt, eins og sú stefna hefir undanfarið komið fram á Alþingi, í formi verzlunarhafta og ýmiskonar lagasetningar, sem heimila ríkisstj. að taka einkasölu á sérstökum vörutegundum og reka þá verzlun til hagnaðar fyrir ríkissjóð. Þessu er ég yfirleitt mjög mótfallinn. En ég er þó ekki svo fanatískur í þeim efnum, að ég vilji beita mér á móti því út í yztu æsar, að í einstökum tilfellum, þegar sérstaklega stendur á, verði stofnað til ríkisrekstrar í einstökum greinum. Ég mundi t. d. ekki geta fylgt því, ef till. kæmi fram um það að leggja niður áfengissölu ríkísins, og geta vínverzlunina frjálsa innanlands; enda var ég fylgjandi því fyrirkomulagi á síðasta þingi. Sömuleiðis var ég því fylgjandi á síðasta þingi, að einkasala ríkisins á tilbúnum áburði væri látin starfa áfram. Ekki með það fyrir augum, að ríkissjóður ætti að græða á þeirri verzlun, heldur vegna þess, að einkasalan getur útvegað áburðinn með ódýrara verði en aðrir, af því að hann er í höndum hringa erlendis.

Að því er snertir þetta litla mál, sem hér liggur fyrir, þar sem ætlazt er til, að innflutningur á erlendum trjáplöntum verði í höndum skógræktarstjóra ríkisins, þá tel ég það svo lítilsvert fjárhagsatriði fyrir þá, sem starfa á sviði viðskiptalífsins í landinu, að það sé engin ástæða til að taka tillit til þess sem stefnumáls. En hinsvegar hefir það komið í ljós á síðari árum, að fluttar hafa verið inn í landið ýmsar trjáplöntur, sem engar líkur eru til, að geti þrifizt hér. Svo verkar þessi reynsla þannig á einstaklingana, að trú þeirra á umbótastarfsemi í trjáræktinni fer minnkandi. En ég skal ekkert fullyrða um, hvort eigi megi takast að bæta úr þessu á annan hátt en frv. ætlast til. Ennfremur hefir talsvert borið á sjúkdómshættu af erlendum trjáplöntum fyrir innlendar jurtir; og í frv. er ætlazt til, að komið verði í veg fyrir það, með því að innflutningurinn á að vera undir eftirliti skógræktarstjóra, sem gera má ráð fyrir, að sé fróðasti maður í þessum efnum hér á landi.

Í þriðja lagi er á það bent í grg. frv., þó að ekki sé að því vikið í frv. sjálfu, að það skipulag, sem í frv. felst, muni aðeins gilda til bráðabirgða. Það á að stefna að því að ala trjáplönturnar upp hér innanlands, og á þann hátt verður þessu máli væntanlega komið í rétt horf. Þetta fyrirkomulag, sem frv. fer fram á, gildir því aðeins til bráðabirgða.

Út frá þessu sjónarmiði virðast þau ummæli hv. þm. V.-Húnv. undarleg fjarstæða, að ég sé með flutningi þessa frv. að skríða í flatsængina með sósíalistum. Ennfremur er hér um svo smávægilegt atriði að ræða, að það verður ekki skoðað sem brot á meginstefnu í verzlunarmálum, þó að ég sé því meðmæltur að innflutningi á erlendum trjáplöntum verði komið í betra horf en verið hefir. Enda verður að játa það hreinskilnislega, að skógræktarstarfsemin hér á landi hefir verið slælega rekin af þeim mönnum, sem staðið hafa fyrir því máli.

Að svo stöddu hefi ég ekki meira um þetta mál að segja. En ég hefi ekkert við það að athuga, þó að því sé haldið fram í umr., að þetta litla frv. sé í sósíalistískum anda, og að ég sé að gera mig hlægilegan með því að gerast brotlegur við höfuðstefnu míns flokks í þjóðmálum. En þó að svo hafi reynzt, að þeir samflokksmenn mínir, sem voru viðstaddir atkvgr. um þetta frv. á síðasta þingi, greiddu allir atkv. á móti því, þá hefir það engin áhrif á mig. Í fyrsta lagi vegna þess, að ég er þannig skapi farinn, að ég læt ekki aðra menn segja mér fyrir verkum eða stjórna sannfæringu minni. Og í öðru lagi af því, að í Sjálfstfl. eru ekki með flokksaga lögð nein bönd á sannfæringu einstakra þm. Þar er engri kúgunarstarfsemi beitt. Að því leyti er þar allt annar andi ríkjandi en í öðrum flokkum hér á landi, sem meiri hl. þessarar hv. þd. telst til. (Fjmrh.: Sannfæringarfrelsi í Sjálfstfl., sem hv. þm. gumar svo mikið af, gildir víst aðeins um smámunina!). Að því leyti er gagnólíkur mórall, sem þar ríkir, heldur en hjá þeim, sem hafa meirihl.valdið hér á þessu þingi.