02.03.1935
Neðri deild: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (963)

27. mál, trjáplöntur og trjáfræ

Frsm. (Jón Pálmason):

Það má nú segja um ræðu hv. síðasta ræðumanns, að samræmið í henni var ekki mikið. En áður en ég fer frekar út í það, skal ég víkja að því, sem hann sagði síðast, að hann hefði ekkert sérstakt út á það að setja, þó ég í þessu efni brytist undan veldi minna flokksmanna. Ég get endurtekið það, sem ég sagði áðan og væntanlega ekki hefir farið framhjá neinum, sem hér eru inni, nema ef vera skyldi hv. þm. V.-Húnv., að í flokki okkar sjálfstæðismanna er engri kúgunarstarfsemi beitt og engar tilraunir gerðar í þá átt að fá okkur til að gera annað en það, sem sannfæring okkar býður. Þetta slagorð hv. þm. er því sagt gersamlega út í loftið.

Þá skal ég koma að mótsögnunum í ræðu hv. þm., sem voru mjög áberandi. Fyrst var hann að tala um það, að þetta frv. væri flutt til þess að gera ákveðnum manni, Sigurði búnaðarmálastjóra, tjón. Það væri gert honum til ills að taka einkasölu á þessari voru, en síðar í ræðu sinni sagði hann, að það væri svo lítið, sem hér væri um að ræða, að ómögulegt væri fyrir skógræktina að draga saman nokkrar tekjur af því. Þessi rök stangast svo, að allir sjá, að ef það hefir verið hagur fyrir Sigurð búnaðarmálastjóra að hafa verzlun með nokkurn hluta ef þessari vöru, þá ætti það að vera hagur fyrir skógræktina að verzla með hana alla. Nú er það víst, að margir fleiri menn höfðu þessi viðskipti með höndum en Sigurður búnaðarmálastj., enda er það sannleikur, að ef svo hefði verið, að hann einn hefði haft með þessa hluti að gera, þá væri ekki þörf á að taka nú í taumana, því hann er maður, sem er fróður á þessu sviði.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. talaði um, að innflutningur þessarar vöru væri ekki eins mikill eins og stendur í grg. frv., þá mun það vera nokkuð rétt, að þarna heyri fleira undir en trjáplöntur einar. Um það hefi ég fengið upplýsingar síðar.

En um leið og það er sagt, að þarna sé um minni upphæð að ræða, þá er það augljóst, að hér er um svo lítið fjárhagsspursmál að ræða, að frá því sjónarmiði er engin ástæða til þess að vera andvígur því skipulagi, sem hér er farið fram á.

Þá kem ég að því, sem hv. þm. var að fala um einkasölu með nýjum forstjóra o. s. frv. hér er engu slíku til að dreifa, því það er aðeins farið fram á, að skógræktarstjóri sjái um innflutning á þeim trjáplöntum, sem þörf er á og maður vonar, að verði sem minnst með tímanum.

Snertandi það, að þessu megi ná gegnum haftastarfsemi innflutningsnefndarinnar o. s. frv., þá hefi ég aldrei haft trú á þeirri starfsemi. Hún hefir sýnt sig að vera máttvana. Maður þarf ekki annað en að ganga hér um bæinn til þess að sjá víðsvegar á boðstólum þær vörur, sem bann er á.

Annað er það svo ekki í þeim aths., sem fram hafa komið gegn þessu frv., sem ég þarf að taka til andsvara, því ég vænti, að mönnum sé það ljóst, að það, sem hér er um að ræða, er það eitt, hvort veita skuli trúnaðarmanni, sem ríkisvaldið hefir falið meðferð þessara mála, fullt vald til þess að hafa yfirstjórn á því, hvað er flutt inn af þessari vöru, og hvernig þeim viðskiptum skuli hagað.