02.03.1935
Neðri deild: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

27. mál, trjáplöntur og trjáfræ

Sigurður Einarsson:

Ég mun ekki í dag frekar en endranær karpa við hv. þm. V.-Húnv., og því síður sem hv. 2. þm. N.-M. hefir tekið fram flest af því, sem ég vildi sagt hafa áður en þessum umr., sem orðnar eru æðilangar, lýkur.

Ég vil þó benda á, að það er út í loftið og hin mesta smekkleysa hjá hv. þm. V.-Húnv. að leggja orð mín illvilja til Sigurðar búnaðarmálastjóra. Ég vék ekki að honum né afskiptum hans af sölu trjáplantna einu orði, og í öðru máli, þar sem ég hafði ástæðu til að nefna hann, eru þau ummæli á þann veg, að engin ástæða er til að leggja í þau illvilja í garð Sigurðar. Hitt er út í loftið, þegar hv. þm. ætlar að færa sönnur á, að af því að Sigurður búnaðarmálastj. hefir verzlað með trjáplöntur í ágóðaskyni fyrir sjálfan sig, þá megi ekki gera á þeirri verzlun nýja skipun nú, þegar hann er orðinn roskinn maður.

Þá er það og algerlega út í loftið, að hér eigi að fara að setja upp stórt verzlunarbákn með nýjum forstjóra o. s. frv. Það er hverjum manni ljóst, nema ef vera kynni hv. þm. V.Húnv., að skógræktarstjóra er ætlað að hafa þetta starf með höndum án þóknunar. — Hv. þm. gat ekki heldur hrakið það, að miklu máli skiptir, að meðan við þurfum að kaupa plöntur frá útlöndum, þá gangi það í gegnum eins manns hendur, sem stendur í beinu sambandi við kaupendurna og hefir yfirsýn yfir þessi mál, sem margar verzlanir geta ekki haft á sama hátt. Og þar sem hv. þm. álítur þetta höft á einstaklingsframtakið, þegar um það er að ræða að koma á nýrri skipun, en hinsvegar mesta hégóma, þegar um það er að ræða, að skógræktin hafi af því hagnað, þá stangast þetta svo á, að ekki verður annað séð en að hv. þm. hafi verið búinn að gleyma í einu orðinu því, sem hann sagði í öðru.

Ég get huggað hv. þm. V.-Húnv. með því, að þetta frv. sætir ekki sömu meðferð nú sem á síðasta þingi. Og yfir því munu góðir menn gleðjast, en þegar góðir menn gleðjast, er dapurt yfir hv. þm. V.-Húnv.