02.03.1935
Neðri deild: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

27. mál, trjáplöntur og trjáfræ

Ólafur Thors:

Það er leiðinlegt, að ekki skuli að þessu sinni liggja fyrir Alþingi neitt geldingafrv. eða — (BÁ: Það kemur bráðum). Já, það lá að. Það hefði átt að boða það fyrri; þá hefði ekki þurft að eyða eins mikilli áreynslu, gáfum og mælsku á þetta frv., sem nú liggur fyrir.

Ég stóð upp til þess að láta í ljós, að ég tel, að hv. alþm. og þjóðin yfirleitt hafi um annað að hugsa nú heldur en það, hvort það á að vera einkasala á trjáplöntum eða ekki. Ég vil engan þátt eiga í því að fara að hefja alvarlegar umr. um einkasöluprincipið í sambandi við þetta frv. Ég hefði kosið, að hv. þm. A.-Húnv. hefði ekki verið innan um þær plöntur, sem að þessu frv. standa, en hann er ekkert minni maður í mínum augum, þó hann hafi nú slæðzt í þennan jurtagarð.

Ég mun leggja til í orði og verki, að þetta stórmerka frv. verði fellt, en hinsvegar þætti mér eiga vel við, að Alþingi sæti ekki marga daga yfir svona máli, en biði þá heldur og hlakkaði til þangað til næsta geldingafrv. kemur fram.