06.03.1935
Neðri deild: 21. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

27. mál, trjáplöntur og trjáfræ

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það var ekki svo lítill rembingurinn í hv. 9. landsk., enda er hann þekktastur að stóryrðum og rembingi, en minna að rökum og heilbrigðri skynsemi. Það kemur því engum á óvart, þótt hann rasi dálítið fyrir ráð fram hér í hv. d. Það er eins og Hákon Bjarnason sé eitthvert átrúnaðargoð, sem hv. þm. tilbiður. Ég veit ekki, af hverju það stafar. Þegar farið er fram á að fá þessum manni í hendur einkarétt á innflutningi trjáplantna til landsins, finnst mér nægileg ástæða vera fyrir hendi til þess að benda á þá starfsaðferð, sem hann hefir viðhaft, og vil ég óska þess, að hv. þdm. kynni sér þetta mál einhversstaðar annarsstaðar frá en frá hv. 9. landsk., því þaðan eru heimildir ekki góðar. Hann færði engar sönnur fyrir því, að ekki hefði verið rétt fram tekið hjá mér, að Hákon Bjarnason hafi fengið plöntur sínar gefins frá Danmörku, enda viðurkenndi hv. þm., að svo hefði verið, eins og ég sagði. Hv. þm. sagði, að hann hefði gefið þær aftur, en hann á eftir að sanna það. Ég hefi fyllstu ástæðu til þess að ætla, að rétt sé, að hann hafi selt plönturnar, en nokkuð ódýrara en aðrir gátu selt þær.

Ég hafði borið fram fyrirspurn um það, hvernig þessar plöntur hafi gefizt, sem hann flutti inn til landsins frá Bergen. Hann hefir að sjálfsögðu getað fengið sömu upplýsingar um þetta, því að gera má ráð fyrir, að þessi upplýsingarskrifstofa, sem hv. 9. landsk. leitar til, sé ekki langt í burtu. Það er ekki sveigt að neinum ákveðnum manni í þessari grg., sem ég las upp, hvorki að Sigurði búnaðarmálastjóra né neinum öðrum; það er bara sveigt að öllum, sem hér geta átt hlut að máli, með því að gera það undantekningarlaust að reglu, að þessar plöntur, sem inn voru fluttar, hafi yfirleitt orðið mönnum til stórtjóns, fyrir það að plönturnar voru svo illa valdar, að þær hafi ekki þrifizt og því drepizt. En ásökuninni er beint til þeirra allra, og ég vil fullyrða, að hún er óréttmæt. Engum blandast hugur um, hvaðan þessar ásakanir eru komnar. Þær eru hvorki komnar frá hv. þm. A.-Húnv. né heldur frá hv. 9. landsk. Þessu hefir verið spýtt í þá af einhverjum, sem þótzt hefir hafa aðstöðu til þess að geta farið með einhverjar upplýsingar í þessum sökum. Hann hefir haft þá aðstöðu, að þessir menn hafa flaskað á þessu og tekið það trúanlegt án þess að reyna sjálfir að rannsaka, hve miklum rökum þetta væri byggt á. Ég gæti haldið lengur áfram í þessu máli, ef ástæða væri til þess. Ég gæti bent á þá starfsemi, sem þessi maður hefir haft með höndum, og er mér sama, þótt sagt verði, að ég sé að ráðast á fyrrv. landbráðh. Hafi hann látið flaskast af sömu ástæðum af sama manni í þessu máli, þá er það ekki heldur rétt. Ég hefi aldrei látið undir höfuð leggjast að finna að við mína flokksmenn, ef ég hefi álitið, að þeir hafi gert það, sem ekki var rétt. Þessi maður mun hafa fengið fyrrv. landbráðh. til þess að gefa sér forréttindi til að flytja inn kartöfluduft við kartöflusýki. Þessi innflutningur átti sér stað af þeirri stofnun, sem aðallega verzlar með landbúnaðarvörur, Sambandi ísl. samvinnufélaga. Ég hefi fyrir satt, að duft Sambandsins hafi verið jafngott og það, sem Hákon Bjarnason hafði, en hann lagði mikla áherzlu á að fá innflutninginn, af því að hann hafði einkaumboð fyrir þá, sem hann keypti af. Það getur verið, að hér sé um mjög samvizkusaman mann að ræða, sem ekki hugsar um peninga. En mér hefir samt fundizt, að hann hefði nokkuð mikinn hug á að komast yfir fjármuni, t. d. þegar hann fór að þýða ritgerð um plöntusjúkdóma, sem átti að vera um kartöflusýki, en kom svo ekkert nálægt henni, heldur fjallaði um ýmsar aðrar plöntur. Þetta var þannig skýrt fyrir Búnaðarfélaginu, að hér væri um mikilsverðar upplýsingar að ræða. Ég sé, að hæstv. forseti er að gefa mér merki um að hætta. Ég vil aðeins bæta því við, að höfundur fékk 500 kr. fyrir viðvikið, en 200 kr. þurfti til þess að koma verkinu fyrir almenningssjónir.