02.03.1935
Neðri deild: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

30. mál, útrýming fjárkláða

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég sakna þess við grg. frv., að þar er ekkert skýrt frá kostnaðarhliðinni; og ég vildi skjóta því til n., að hún gerði sér grein fyrir, hver kostnaður yrði af útrýmingarböðuninni, ef hún kæmi til framkvæmda, í fyrsta lagi fyrir ríkissjóð, og ennfremur fyrir sýslu- og sveitarsjóði. Það er mikilsvert atriði, þegar verið er að ræða og velja um þær leiðir, sem fara skuli í þessu máli, að athuga vel, hvað mikinn kostnað hvor þeirra hefir í för með sér.

Ég vil einnig skjóta því fram n. til athugunar, hvort ekki sé bæði óþarft og varhugavert að gera ráð fyrir í frv., að böðun fari fram skilyrðislaust í öllum héruðum og eins þar, sem rannsókn hefir leitt í ljós, að enginn kláði er. Mætti ekki gera þá breyt. á frv., að þótt fyrirskipuð yrði samkv. því útrýmingarböðun, sem ég er annars í vafa um að sé rétt, þá væru undanskilin henni þau héruð, þar sem ekki hefði orðið vart neins kláða.

En það er kostnaðarhliðin, sem ég tel sérstakt atriði í þessu máli, og fyrir henni verða menn að gera sér skýra grein, áður en menn mynda sér skoðun um það, hvaða leið beri að fara.