03.03.1936
Neðri deild: 14. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Landbn. hefir athugað þetta frv. og leggur til, að það verði samþ. með nokkrum breytingum, sem ég nú skal gera grein fyrir. Tveir af nm. eru þó ekki að öllu leyti með frv. á þessum grundvelli og bera fram sérstakar brtt. Till. annars þeirra, hv. þm. Hafnf., kom fyrir á nefndarfundi, og tók n. afstöðu um, að hún gæti ekki fallizt á hana. Brtt. hv. þm. Borgf. voru aftur á móti ekki lagðar fram á þeim fundi n., þegar hún ræddi málið og tók afstöðu til þess; það var fyrst á fundi sínum í gær, sem hún athugaði þær, og skal ég koma að því síðar.

Fyrsta brtt. n. er við 2. gr., og er a-liður aðeins tilvitnun í það, að samþykkt sýslunefndar öðlast vitanlega ekki gildi fyrr en búið er að samþ. hana í hreppunum líka, eins og ákveðið er í 3. gr. B-liður ákveður, að sá, sem innheimtir gjaldið til fóðurtryggingarsjóðanna, eigi aðgang að hverjum bónda um gjaldið af því fé, sem framfleytt er á jörð hans.

Við þessa sömu gr. gerir hv. þm. Borgf. brtt., sem n. getur fallizt á eftir að hafa séð hana. En ef hún er samþ., kemur til með að vanta inn í gr. breyt., sem felst í b-liðnum í till. n.; hann fellur ekki við gr., eftir að brtt. hv. þm. Borgf. er samþ., og yrði því að bæta svipuðu ákvæði inn í við 3. umr. Sama er að segja um c-liðinn í brtt. n., hann fellur niður af sjálfu sér, ef brtt. hv. þm. Borgf. er samþ., því í henni felst það sama að öðru leyti en því, að samkv. henni hafa sýslunefndirnar frjálsari hendur um að haga samþykktunum eftir staðháttum, sem nokkuð eru breytilegir í hinum ýmsu sýslum. Það út af fyrir sig er til bóta, og því getur n. fallizt á þessa brtt., sem hún hefði líka vitanlega gert þegar, ef hún hefði komið fram í n., meðan verið var að ræða málið en það gerði hún ekki.

Þá gerir n. þá till., að 3. gr. verði 4. gr., og 4. gr. verði 3. gr., og að tilvitnanir breytist samkvæmt því. Aftan við 3. gr. vill hún svo bæta nokkrum orðum, sem ná því, að ef samþ. nær ekki samþykki, megi ekki taka hana upp aftur á því sama ári. Það liggur e. t. v. í hlutarins eðli, en n. þótti þó rétt að taka það skýrt fram.

Þá er 4. brtt. n. við 5. gr., sem við orðum alveg um, og er þar jafnframt um efnisbreyt. að ræða. Eins og gengið var frá frv., var hugmyndin, að þessum 75 þús. kr., sem heimilað er, að ríkissjóður leggi fram til fóðurbirgðasjóðanna, yrði skipt í byrjun hvers árs milli sýslnanna, og fengju menn þá að vita, hvað hver sýsla mætti eiga von á miklum hluta af því. Þó var gert ráð fyrir, að þeir hreppar, sem hafa starfandi fóðurbirgðafélög, gætu alltaf staðið utan við, ef þeir vildu, og var meiningin, að hlutur hverrar sýslu miðaðist aðeins við þá, sem ekki væru í fóðurbirgðafélagi áður, þannig að ef t. d. tveir hreppar í einhverri sýslu hefðu fóðurbirgðafélög og óskuðu að standa utan við, þá fengi sú sýsla því minna en ella sem svaraði skepnufjölda þeirra, er utan við standa. Þetta er ekki lengur svo samkv. brtt. n., heldur á hver sýsla að eiga rétt á öllu því framlagi, sem henni ber samkvæmt 1. gr., þó að einhverjir hreppar standi utan við, ef hinir vilja leggja svo mikið fram á móti. Segjum t. d., að í einhverri sýslu vilji tveir hreppur standa utan við og að í þeim sé 1/3 af öllu búfé sýslunnar; þá hefði sú sýsla samkvæmt frv. átt að fá 1/3 minna framlag en ella, en samkvæmt brtt. á hún að geta fengið sinn hluta óskertan, en þá verða líka þeir hreppar, sem þátt taka í sjóðnum, að leggja þeim mun meira fram. Okkur fannst rétt, að hver sýsla gæti fengið sinn hluta af fénu, þó einstakir hreppar þyrftu ekki á því að halda, vegna þess að þeir væru áður búnir að gera hjá sér áhrifameiri ráðstafanir til þess að verja sig gegn fóðurskorti.

Við 6. gr. gerir n. þá brtt., að landbrh., sem skipa á einn mann í stjórn hvers fóðurbirgðasjóðs, skuli gera það samkvæmt till. B. Í., en áður hafði hann óbundnar hendur í því efni. Það þótti rétt að láta B. Í. sem a. m. k. ætti að hafa mestan kunnugleikann, benda á mann, heldur en að láta ráðh. velja hann ábendingarlaust.

Brtt. 6. a. sem er við 7. gr. frv. er orðabreyt. til þess að færa til betra máls. Aftur á móti er b-liður þessarar brtt. töluverð efnisbreyt. Þar er gert ráð fyrir, að reikningum sjóðsins skuli haga þannig, að það sjáist glöggt, hvað greitt er í sjóðinn fyrir hverja einstaka jörð. Jafnframt skal það sjást, hvað goldið er í sjóðinn vegna þess búfjár, sem frumleitt er á hverri jörð, og jarðarhluta hvers bónda, séu þeir fleiri en einn. Þá er og gert ráð fyrir, að á sama hátt skuli sjást, hvað hver bóndi fær að láni úr sjóðnum eða þiggur sem styrk. Á 5 ára fresti á svo að endurgreiða ábúendum þeirra jarða, sem ekki hafa þurft að nota sjóðinn, hálft framlag þeirra í hann fyrir umrætt tímabil. Þetta er ætlazt til, að verði hvöt fyrir bændur að setja svo á, að þeir þurfi ekkí á sjóðnum að halda. Þá gerir síðari hluti brtt. ráð fyrir, að verði ábúandaskipti á jörð, þá megi endurgreiða fráfaranda hálft framlag hans í sjóðinn, ef öll skilyrði eru fyrir hendi önnur en færri ára ábúð.

Sjöunda brtt. er við 8. gr. A-liður hennar er lítilfjörlegur, fjallar aðeins um það, að upplýsingar þær, sem stjórnir fóðurtryggingarsjóða eiga að afla sér, skuli þær fá frá forðagæzlumönnum. — B-liður þessarar brtt. er aftur efnisbreyting. Eins og nú standa sakir, þá höfum við lög, sem kveða á um það, hvernig setja skuli á, og er forðagæzlumannanna að sjá um, að ákvæðum þessara laga sé hlýtt; þess vegna er því skotið hér inn, að því aðeins megi stjórnir fóðurtryggingarsjóðanna verja af þeim til fóðurbætiskaupa á haustin, „að ekki sé hægt að tryggja ásetning hlutaðeigandi manna á annan hátt“.

Níunda brtt. er við 10. gr. frv., og er nokkur efnisbreyting. Þar er þrengt allmjög að því, að stjórnir sjóðanna geti látið af hendi fóðurbæti sem styrk. Eftir ákvæðum frv. er þeim þetta leyfilegt, ef t. d. grasspretta eða nýting heyja hefir verið slæm, en eftir brtt. n. er þetta ekki hægt nema ef óvenjuleg harðindi steðja að, og þá því aðeins, að sýslunefnd leyfi og hreppsnefnd mæli með. Til þessa má og ekki verja nema tiltölulega mjög litlu.

Hvað snertir brtt. hv. þm. Borgf., þá skal ég taka það fram, að meiri hl. landbn. getur fallizt á 1. og 2. brtt., en á 3. brtt. getum við ekki fallizt. Annars sakna ég brtt., sem ég bjóst við, að þessi hv. þm. myndi koma fram með, eins og t. d. hvernig atkvæðagreiðsla skyldi fara fram í hreppum um þessi mál o. fl. í því sambandi.

Ég vil nú leyfa mér að vænta þess, að ástand það, sem nú ríkir um fóðurbirgðir og afkomu manna á Austur- og Norðurlandi, geti opnað augu manna og komið þeim í skilning um, hvílík nauðsyn er á slíkum sjóðum sem þessum. Annars viðurkenni ég, að með stofnun þessara sjóða er sporið ekki stigið til fulls, því að fyrir getur komið, að mennina vanti líka mat, því að alltaf getur það komið fyrir, að hafís leggist að Norður- og Austurlandi og loki fyrir allar samgöngur. Það er því spurning, hvort hér er gengið nógu langt.

Skal ég svo ekki hafa mál mitt lengra að sinni: ég vænti þess, að frv. og brtt. verði teknar til velviljaðrar athugunar.