18.03.1936
Neðri deild: 27. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

*Hannes Jónsson:

Ég skal ekki mikið blanda mér í þessa umr., en vil þó segja um annan þann höfuðágreining, sem hér er, hvort það eigi að vera hrepparnir, sem ráði úrslitum, eða atkvæðamagn innan hreppanna, þá felli ég mig margfalt betur við að láta atkvæðamagn ráða úrslitum. Ég hygg hitt miklu óþægilegra til framkvæmda þar sem svipað er um hreppatölu með og móti, t. d. í litlum sýslufélögum. Mér dettur í hug sýsla eins og mitt kjördæmi, þar sem aðeins eru 6 hreppar, ef 3 hreppar væru með og 3 á móti, þá gæti verið nokkuð mikill munur, hvort væru 3 minnstu hrepparnir eða ekki, og ef 3 minnstu hrepparnir væru öðrumegin, en 3 þeir stærstu hinumegin, þá væri mjög ójafnt skipt um áhrif atkvæða til úrslita. Ég gæti trúað, að í öðrum hlutanum yrðu 2/3 atkv. en í hinum hlutanum aðeins 1/3 og sýnist mér því réttara að láta atkvæðamagn ráða úrslitum, en ekki 1/3 hluta þeirra, sem atkvæðisrétt hafa, því mér skilst, að ef 3 hreppar væru á móti en 3 með, þá væri málið þar með fallið með jöfnum atkvæðum, eftir því sem meiri hl. n. ætlast til. Þá sýnist mér réttra, að þessir stærri hreppar fengju að ráða úrslitum, og að samþykkt gæti komizt á, þar sem þeirra atkv.magn væri svo miklu meira.