18.03.1936
Neðri deild: 27. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

*Jón Pálmason:

Tveir hv. síðustu ræðumenn hafa nú mælt með því, að hér skyldi látin ráða almenn atkvgr. eða samþykki, en ekki hrepparnir. Ég finn ástæðu til að segja um þetta örfá orð og benda til dæmis á, að það getur vel komið fyrir með þeirri reglu, sem þeir ætlast til að hafa á þessu, að samþykkt, sem gerð er með shlj. atkv. á sýslufundi, eyðileggist af einum eða tveimur hreppum í sýslufélaginu, ef þar er sett kapp í málið, því ég get vel búizt við, að menn skilji það, að þar sem enginn ágreiningur er um málið innan hreppsfélagsins, þar verði ekki kapp lagt á það, hve margir sæki fundina, og í litlum hreppum getur þá vel farið svo, að það verði tiltölulega mjög fáir, sem sæki fundina, en ef gert er að miklu kappsmáli, hvort samþykkt fáist eða ekki, þá getur vel farið svo, að 1–2 fjölmennir hreppar geti orðið til þess að eyðileggja það, sem aðrir hreppar eru með, eða samþ. það, sem aðrir hreppar eru á móti. Hér á að fylgja sömu reglu og gilt hefir um sýslunefndarkosningar. Ég vil í þessu efni fylgja því út í gegn að láta hið sama gilda um þessa fóðurtryggingarsjóði og gildir á sýslufundum.

Að öðru leyti skal ég ekki fara nánar út í þetta mál, nema rétt geta þess út af því, sem hv. síðasti ræðumaður talaði um, að það væri rangt, að þeir flyttu meiri brtt. við frv. heldur en þeir hefðu gert ráð fyrir í n. Þó hlýtur hann að vita, að hér er flutt brtt. við lengstu gr. frv., og hún er margar málsgreinar, en ekki var nema um eitt ágreiningsatriði að ræða í n., en hér er um að ræða margar fleiri brtt., sem aldrei voru bornar fram á nefndarfundi og það er þetta, sem ég fyrir mitt leyti tel óþarft og óviðfelldið.