18.03.1936
Neðri deild: 27. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

*Hannes Jónsson:

Ég þarf ekki miklu að bæta við það, sem hv. þm. Mýr. sagði, en vil aðeins benda á, að sjóðstofnanirnar eru gerðar fyrir sýslufélögin í heild sinni, og það er ekki sú ástæða fyrir hendi, sem hv. þm. A.-Húnv. gæti byggt á, að hver hreppur út af fyrir sig hafi stjórn síns sjóðs, heldur er þetta sameiginlegur sjóður, og fer ekki að neinu leyti framlag úr hreppunum eftir tölu þeirra, heldur eftir því, hve gjaldendur eru margir á félagssvæðinu. Þess vegna er það mjög eðlilegt, að einmitt gjaldendur sjálfir hafi úrskurðarvald um þetta, án tillits til þess, hvar þeir eru búsettir á félagssvæðinu. Þetta raskar á engan hátt þeim reglum, sem gilt hafa og ennþá gilda um skipun sýslunefnda, og valdi hreppanna í sýslunefndum, sem er jafnt, án tillits til þess, hvort hrepparnir eru stórir eða smáir. Ég tel því, að það sé ekkert fram komið, sem styðji málstað hv. meiri hl. n. um, að þetta skuli fara eftir afstöðu meiri hl. hreppanna. Það hefir ekki komið neitt svar við því frá hv. þm. A.-Húnv., hvort hann teldi réttlátt eða ósanngjarnt, að samþykkt yrði felld með samþ. 3 hreppa gegn öðrum 3 hreppum. Mér finnst, að þetta gæti verið mjög ósanngjörn afgreiðsla málsins, þar sem framlagið fer ekki eftir tölu hreppanna, heldur eftir tölu gjaldenda á félagssvæðinu.