05.05.1936
Sameinað þing: 17. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

1. mál, fjárlög 1937

*Frsm. samvn. samgmn. (Gísli Guðmundsson):

Till. samgmn. um skiptingu styrks til flótabáta liggja fyrir á þskj. 515, og vil ég leyfa mér að fara um þær nokkrum orðum.

Á frv. því til fjárl., sem fyrir liggur, er upphæðin til styrktar flóabátum áætluð 76 þús. kr., og er það sama upphæð og ákveðin var á fjárl. fyrir yfirstandandi ár.

Fyrir utan þetta framlag til flóabátaferðanna er svo sérstakt framlag til m. b. Skaftfellings, en það hefir samgmn. ekki haft til meðferðar, enda hefir því undanfarið verið haldið utan við.

Fyrir n. hafa legið ýms erindi frá útgerðarstjórnum og einstökum mönnum, er sum fóru fram á hækkaðan styrk til flóabátanna, en n. hafa ekki séð sér fært að gera það að sínum till. að hækka þennan styrk; þess vegna hafa n. skipt upphæðinni óbreyttri.

Nú er það fyrirkomulag orðið á þessum málum, að Skipaútgerð ríkisins hefir á hendi yfirstjórn eða yfirumsjón. Útgerðarstjórnum flóabátanna ber því að senda þangað beint yfirlit um starfsemina, rekstrarreikning og sömuleiðis áætlanir til athugunar, sem ber að semja í samráði við skipaútgerðina, og er með því ætlazt til, að ferðum þeirra verði hagað með tilliti til strandferða ríkissjóðsskipanna, og n. hafa í áliti sínu á þskj. 513 lagt áherzlu á, að þessa yrði gætt sem bezt, með hliðsjón af því, að styrkurinn væri notaður eins og til er ætlazt.

Það verður að benda á, að þetta er ekki fullkomlega komið í það horf, sem æskilegt væri, enda er skammt síðan þessi skipan var á gerð eftir till. samgmn.

Viðvíkjandi sjálfum till. n. um skiptingu styrksins skal þess getið, og er það fljótgert, að n. leggja til, að skiptingin verði óbreytt; þó er aðeins ein undantekning um Flateyjarbát, að breyting er þar gerð þannig, að styrkur til vélakaupa hækki úr 2 þús. kr. í 2500 kr.; er það þriðja greiðsla af fjórum, og er það vegna þess, að fyrir liggur vilyrði eða jafnvel loforð að greiða þennan styrk á 4 árum. Hinsvegar hefir n. lagt til, að rekstrarstyrkur þessa báts verði lækkaður um sömu upphæð, og verður því heildarstyrkurinn til bátsins ekki hærri en sl. ár.

Þá er vikið að því í nál., að n. hefir veitt því athygli við athugun á rekstrarreikningi Borgarnesbáts, að útgerð hans greiðir allháa upphæð í hafnargjöld, eða 10 þús. kr. fyrir árið 1935. Virtist n. þetta vera óeðlilega há upphæð, þar sem þetta er 2/3 styrksins úr ríkissjóði. Virðist n. ekki ósennilegt, að hægt sé með samningum að færa þetta niður, og í nál. er því beint til hlutaðeigandi útgerðarstjórnar, að reyna að ná hagkvæmum samningum um þetta atriði fyrir þennan bát og aðra, ef ástæða er til, og auk þess er því beint til ríkisstjórnarinnar, hvort ekki sé ástæða til að setja löggjöf í þessu efni hvað snertir flóabáta. og þá líka strandferðaskip ríkisins. Er einkennilegt, og virðist vera óeðlilegt, að heimtuð séu hafnargjöld af þeim skipum, sem ríkið gerir út, í þeim höfnum, sem ríkið hefir byggt eða lagt fé til að byggja. Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri viðvíkjandi styrknum til flóabátanna, en skal geta þess að samgmn. eru sammála um að bera fram till. um sérstakan styrk til Djúpbátsins; er henni ekki enn útbýtt, en verður útbýtt í kvöld eða á morgun. Vildi ég leyfa mér að fara fáeinum orðum um hana, og vænti þess, að ekkert sé á móti því að ég geri það nú, þótt hún liggi ekki fyrir. — Það er svo nú, að Djúpbáturinn er styrktur með 20 þús. kr. Er ákaflega mikil nauðsyn, að þessum ferðum sé haldið uppi um Ísafjarðardjúp, vegna þess að mjög er erfitt um samgöngur á landi. og eina leiðin, sem þetta fólk hefir til samgangna, er þarna býr, er sjóleiðin. Sem stendur er hafður í þessum ferðum bátur, sem er ófullnægjandi, gamall fiskibátur, sem ekki hefir neitt farþegarúm, og er ekki talið tiltækilegt að breyta þessu skipi vegna þess, hve það er gamalt og lélegt. Þess vegna er samgmn. sannfærð um, að það er ákaflega nauðsynlegt, að umbætur séu gerðar á þessum aðstæðum og að þessir menn séu styrktir að fé til þess að fá sér nýjan bát, sem sérstaklega sé smíðaður, miðað við þörfina á þessum stað, eða þá að fenginn sé notaður bátur og lagaður eða breytt eftir þörfum, ef það ráð skyldi þykja hentugra. N. leggur þess vegna til, að ríkisstj. verði heimilað að ábyrgjast lán fyrir h/f Vestfjarðabátinn allt að 2/3 kaupverðs, en þó ekki meira en 30 þús. kr., gegn því að á móti komi bakábyrgð Norður-Ísafjarðarsýslu og að lánið sé tekið innanlands. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. muni taka undir það, að það er nauðsynlegt að koma þessu í framkvæmd, og mun ég ekki telja þörf á því að mæla frekar fyrir þessu.